Ársskýrsla fyrir árið 2005 komin út

Ársskýrsla Grundarfjarðarbæjar fyrir árið 2005 er komin út. Í ársskýrslunni er að finna umfjöllun um yfirstjórn og starfsemi stofnana bæjarins á árinu 2005, ennfremur lauslega umfjöllun um nokkrar aðrar stofnanir s.s. heilsugæslu, dvalarheimili og fjölbrautaskóla. Niðurstöður ársreiknings birtast í skýrslunni, auk þess sem ýmsar tölulegar upplýsingar eru birtar í myndrænu formi eða í texta. Ljósmyndir eru af viðburðum, bæjarlífi og náttúru Grundarfjarðar. Í skýrslunni er einnig að finna upplýsingar um starfsmenn og nefndir bæjarins.   Texti skýrslunnar er unninn af starfsmönnum bæjarins, forstöðumönnum flestra viðkomandi stofnana. Myndir eru sömuleiðis teknar af bæjarstarfsmönnum, en nokkrar einnig af öðrum ljósmyndurum. Helga Hjálmrós Bjarnadóttir safnaði saman efni, myndum og setti upp texta, Jói í Steinprenti, Ólafsvík, setti upp skýrsluna, sem var síðan prentuð hjá Samskipti ehf.   Skýrslunni var dreift í öll hús í Grundarfirði þann 15. maí sl. Hægt er að nálgast skýrsluna hér á vefnum undir flibanum stjórnsýsla - fjármál eða með því að smella hér. 

Brot úr sögu verslunar við Breiðafjörð í Norska húsinu Stykkishólmi

Ólafsvík 1843   Á uppstigningardag, fimmtudaginn 25. maí 2006,  kl. 15.30 hefur Norska húsið í Stykkishólmi sumarstarf sitt með því að Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður opnar sýninguna „Brot úr sögu verslunar við Breiðafjörð 1400-1900. Sýningin er hluti af verkefninu „Northern Coastal Experience” (NORCE) sem er styrkt af NPP sjóði Evrópusambandsins   Sýningin er opin daglega kl. 11.00-17.00 og stendur til 3. september 2006.

Umhverfis- og menningardagur: Tökum þátt!

Vortónleikar Tónlistarskóla Grundarfjarðar

Skólaslit og vortónleikar Tónlistarskóla Grundarfjarðar verða sunnudaginn 21. maí kl. 16:00 í Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Dagskrá tónleikanna er blönduð og verður þar meðal annars flutt efni af nýjum geisladiski sem er uppskera þemaviku tónlistarskólans í vetur. Innritun fyrir skólaárið 2006-2007 fer fram 12.-26. maí 2006.   Skólastjóri Tónlistarskólans 

Aðalskipulag dreifbýlis

Þann 9. maí sl. hélt bæjarstjórn opinn kynningarfund um aðalskipulag dreifbýlis. Á fundinum kynntu þær Erla Bryndís Kristjánsdóttir og Áslaug Katrín Aðalsteinsdóttir arkitektar drög að skipulagstillögum fyrir svæðið. Vakin er athygli á að enn er um að ræða drög sem umhverfisnefnd og bæjarstjórn hafa í vinnslu. Þau eru í svokölluðu ,,samráðsferli” og enn er hægt að koma ábendingum eða athugasemdum við þau á framfæri við umhverfisnefnd. Nefndin og svo bæjarstjórn munu síðar staðfesta þessi drög og gera að formlegum tillögum um skipulag á svæðinu. Þá hefst hið formlega kynningar- og skipulagsferli og þá mun enn auglýstur frestur til að gera formlegar athugasemdir við vinnuna.   Hægt er að nálgast tillögurnar hér á bæjarvefnum, neðarlega á hægri væng síðunnar. Þar er einnig hægt að senda inn athugasemdir.  

Úthlutaðir styrkir frá Menningarráði Vesturlands

Þann 13. maí sl. úthlutaði Menningarráð Vesturlands styrkjum fyrir árið 2006. Nokkrar umsóknir frá Grundarfirði og tengdar Grundarfirði hlutu styrk. Þar ber fyrst að nefna að Fjölbrautaskóli Snæfellinga hlaut styrk fyrir „Listahátíð ungs fólks, listasmiðjur í Fjölbrautarskóla Snæfellinga“, þá hlaut Dögg Mósesdóttir styrk til gerðar kvikmyndar um sjóslys í Grundarfirði, Eyrbyggja - sögumiðstöð fékk styrk til rafræns sýningarhalds, Eyrbyggjar, hollvinasamtök Grundarfjarðar, fengu styrk til bókaútgáfu í ritröðina safn til sögu Eyrarsveitar, Héraðsnefnd Snæfellinga hlaut styrk vegan Jules Verne hátíðar og Byggðasafn Snæfellinga vegna Norðurslóðaáætlununar, verslunarsögu Breiðafjarðar í Norska húsinu.

Sumarstörf

Í auglýsingu um sumarstörf í áhaldahúsi sem birtist í Vikublaðinu Þey í gær, 18. maí, var auglýst tímakaup miðað við gamla launatöflu. Rétt tímakaup er eftirfarandi: 17 ára: 700 kr. á tímann 18 ára og eldri: 732 kr. á tímann   Enn er hægt að skila inn umsóknum um sumarstörf í áhaldahúsi og í vinnuskóla. Umsóknum skal skilað á bæjarskrifstofu, Grundargötu 30. Nánari upplýsingar veitir verkstjóri í s: 691-4343. 

Frá Rarik

Straumlaust verður í Grundarfirði frá kl. 01:00 í nótt og fram eftir nóttu. 

Frá Orkuveitu Reykjavíkur - bilun í vatnsveitu

Í gær kom upp umtalsverður leki í vatnsveitukerfinu í þéttbýli Grundarfjarðar. Leitað hefur verið í alla nótt að lekanum en án árangurs. Nú er á leiðinni frá Reykjavík maður með lekaleitartæki sem ætlar að freista þess að finna lekann. Bæjarbúar eru vinsamlegast beðnir um að fara sparlega með vatnið á meðan ástandið varir. 

Aðalfundur

Ungmennafélag Grundarfjarðar er með aðalfund sinn í kvöld kl 20:00 á Hótel Framnesi. Hvetjum alla til þess að mæta og taka þátt í umræðum.   Stjórn UMFG