Samstarf í úrgangs- og fráveitumálum

Á dögunum voru hér staddir nemendur frá alþjóðlegu umhverfisstofnuninni við Lundarháskóla í Svíþjóð, ásamt kennara.  Hópurinn var mjög alþjóðlegur, frá Ástralíu, Georgíu, Ghana og Kólumbíu, auk sænsks kennara.  Létu þau vel af dvöl sinni í Grundarfirði, en verkefni þeirra snerist um að meta stöðu og mögulegar lausnir varðandi umhverfismál helstu sjávarútvegsfyrirtækja í bæjarfélaginu.  Sérstök áhersla var lögð á frárennslismál og meðhöndlun lífræns úrgangs. Unnið hefur verið að verkefninu síðan í mars og var dvölin í Grundarfirði lokaáfangi verkefnisins.   Nemendur og forsvarsmenn Grundarfjarðarbæjar og fyrirtækjanna í verkefninu.  

Framlagning kjörskrár

Kjörskrá vegna sveitarstjórnarkosninganna sem fram fara 27. maí 2006 mun liggja frammi á bæjarskrifstofunni, almenningi til sýnis frá og með föstudeginum 12. maí 2006 til kjördags, á opnunartíma skrifstofunnar, mánudaga til fimmtudaga kl. 9.30-15.30 og föstudaga kl. 9.30-14.00. Ennfremur liggur ljósrit af kjörskrá frammi á bókasafninu á opnunartíma þess. Athugasemdum við kjörskrá má koma á framfæri í samræmi við lög um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998. Sjá nánari auglýsingar á vef Grundarfjarðarbæjar www.grundarfjordur.is og á vef félagsmálaráðuneytis www.kosningar.is, en þar er m.a. að finna leiðbeiningar um kosningar og kosningarétt á tíu erlendum tungumálum.   Bæjarstjóri  

Leikskólabörn tína rusl af lóðinni

Hópur barna í Leikskólanum Sólvöllum voru að tína rusl á leikskólalóðinni í dag þegar ljósmyndara bar að garði.    

Veður árin 2004 og 2005

Veðurstofa Íslands hefur tekið saman upplýsingar um veður í Grundarfirði árið 2005. Í samantektinni kemur fram að meðalhiti í Grundarfirði var 4,9°C, hæsti hiti mældist 26. júlí, 18.7°C og lægsti hiti var -11,0°C hinn 23. janúar. Meðalvindur á árinu var 5,4 m/s sem var sá sami og í Stykkishólmi en logn mældist hér 2,9% en 1,1% í Stykkishólmi.  

Sumarstörf fyrir 8., 9. og 10. bekk

Vinnuskóli verður fyrir unglinga fædda 1991 (9. bekkur) og 1992 (8. bekkur). Vinnutímabil er 19 dagar, hálfan daginn, unnið mánudaga til fimmtudaga kl. 9.30-12.00. Vinna hefst 6. júní og lýkur 6. júlí.   Helstu verkefni verða fegrun umhverfisins og umhirða gróðurs. Vinnuskólinn er sambland af vinnu og námi. Þeir sem taka þátt í allri dagskránni fá greidd laun fyrir fræðsludaga. Í lokin verður að sjálfsögðu vegleg grillveisla.   Umsóknarfrestur er til 26. maí. Umsóknareyðublöð fást hjá skólaritara í grunnskólanum, á bæjarskrifstofunni og hér.  

Framboðslistar

Á vef félagsmálaráðuneytisins eru birtir framboðslistar við sveitarstjórnarkosningarnar.   Smellið hér til að fá upplýsingar um framboðslistana.   

Opnun og fyrsta mót sumarsins

Laugardaginn 13. maí nk. verður skotsvæði Skotfélagsins Skotgrundar opnað með fyrsta móti sumarsins í leirdúfuskotfimi. Einnig verður tekið í notkun húsnæði félagsins þar sem boðið verður upp á kaffi og meðlæti. Mótið hefst kl. 13 og er opið öllum félagsmönnum. Hægt er að gerast félagi með því að hafa samband við Hönnu í síma 896-2072 eða senda tölvupóst á netfangið skotgrund@simnet.is. Allir velkomnir og eru skotáhugamenn sérstaklega hvattir til að líta við.     Félagsmenn hafa unnið að því undanfarið að gera svæðið klárt fyrir sumarið, búið er að gera húsið (gamla Búlandskaffi) klárt sem kaffiaðstöðu o.þ.h. fyrir félagsmenn. Stefnt er að því að  halda innanfélagsmót í leirdúfuskotfimi einu sinni í mánuði en það verður nánar auglýst síðar.   Stjórn Skotgrundar  

Rétt svar við spurningu vikunnar.

Grundarfjarðarkirkja var vígð þann 31. júlí árið 1966. Að þessu sinni tóku 91 manns þátt og voru 45 með rétt svar, eða 49,5%. 

Tvö framboð til sveitarstjórnarkosninga í Grundarfirði

Framboðsfrestur vegna sveitarstjórnarkosninganna sem fram fara laugardaginn 27. maí n.k. rann út á hádegi laugardaginn 6. maí sl. Kjörstjórn veitti framboðslistum móttöku á bæjarskrifstofunni milli kl. 11 og 12 þann dag. Tvö framboð skiluðu inn framboðslistum til sveitarstjórnarkosninga í Grundarfirði í vor. Það voru D-listi Sjálfstæðisfélags Grundarfjarðar og L-listi Samstöðu – lista fólksins. Meðfylgjandi myndir voru teknar við afhendingu framboðslistanna.

Innlitum á vefinn fjölgar enn

Innlit á vef Grundarfjarðarbæjar hafa aldrei verið eins mörg og í mars mánuði, alls 14.535 eða um 469 á dag. Mánuðina janúar til apríl voru innlitin samtals 50.646 en voru 35.153 á sama tímabili í fyrra. Aukningin er 44%.   Við kappkostum að birta réttar og gagnlegar upplýsingar á vefnum og erum sannfærð um að við erum á réttri leið og stefnum á að gera enn betur. Takk fyrir góðar viðtökur.