Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni "Northern Wave" lokið

Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni "Northern Wave" lauk síðdegis í dag með verðlaunaveitingum.  Stuttmyndin "Maidday Cowboy" eftir Alberto Blanco hlaut fyrstu verðlaun.  Dómnefndin sagðist hafa átt erfitt með að gera upp hug sinn þar sem svo margar frábærar myndir hefðu keppt.  Í flokki tónlistarmyndbanda varð myndin "Pink Freud" hlutskörpust og fékk fyrstu verðlaun.  Mark Berger Oscarsverðlaunahafi færði Dögg Mósesdóttur þakkir fyrir þetta sérstaka framtak að efna til alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Grundarfirði og óskaði henni og hátíðinni velfarnaðar.  Fjölmargir erlendir og innlendir gestir sóttu hátíðina, þar á meðal allmargir kvikmyndagerðarmenn sem áttu myndir á hátíðinni.  Vonast er til þess að hátíðin verði árlegur viðburður hér eftir. Hér má sjá nokkrar myndir sem Gunnar Kristjánsson tók á hátíðinni.   Hér er slóð inn á frétt um hátíðina á vef Skessuhorns: http://www.skessuhorn.is/Default.asp?sid_id=24845&tId=99&Tre_Rod=001|002|&fre_id=68512&meira=1

Alþjóðleg kvikmyndahátíð hófst í Grundarfirði í dag

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin "Northern Wave" hófst með stuttri athöfn í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði í dag.  Þórey Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Grundarfjarðarbæjar, bauð gesti velkomna og rakti í stuttu máli aðdraganda hátíðarinnar og færði Dögg Mósesdóttur þakkir fyrir frumkvæðið hennar, framtakið og dugnaðinn við að koma hátíðinni á.  Sömuleiðis færði Þórey erlendum gestum þakkir fyrir að koma um langan veg til hátíðarinnar sem og öðrum gestum og dómurum.  Veitt verða verðlaun í nokkrum flokkum stuttmynda.  Hátíðin hófst með sýningu á stuttmyndinni "La Tierra Yerma" eftir Alfredo Vera.  Á morgun, laugardaginn 23. febrúar, mæta nokkrir erlendir höfundar stuttmynda á hátíðina og kynna verk sín.  Fyrir utan kvikmyndir verða tónleikar, "Masterclass" með Mark Berger og spjall kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi.  Á hátíðinni eru nokkrir flokkar kvikmmynda og má sem dæmi nefna; dramatískar myndir, tónlistarmyndbönd, grínmyndir, vestri, hryllingsmyndir, tilraunamyndir, hreyfimyndir og dramatískar stuttmyndir.  Kvikmyndirnar eru bæði eftir innlenda og erlenda höfunda.  Allir finna eitthvað við sitt hæfi.  Kvikmyndasýningar hefjast kl. 13 á laugardag og sunnudag.  Hátíðinni lýkur með verðlaunaveitingum sunnudaginn 24. febrúar kl. 16.00.

9. bekkur fór á sjóinn með skólaskipinu Dröfn

Fiskifélag Íslands gerir út skólaskipið Dröfn og býður nemendum í elstu bekkjum grunnskóla landsins í sjóferð árlega.  Fimmtudaginn 14. febrúar, var 9. bekkingum boðið á sjóinn. Bekknum var skipt í tvo hópa og fór fyrri hópurinn kl. 9:00 en sá síðari átti að fara kl. 12:00.  Veður setti þó eitthvað strik í reikninginn hjá seinni hópnum.  Kennararnir María Ósk Ólafsdóttir og Óskar Sigurðsson höfðu umsjón með þessum ferðum. Skólinn lítur á þetta boð Fiskifélagsins sem kærkomna viðbót við þá fræðslu sem nemendur fá í skólanum og skemmtilega tilbreytingu.  Vonandi höfðu allir gagn og gaman af þessu.   Byggt á frétt á heimasíðu Grunnskóla Grundarfjarðar.   Myndir frá ferðunum má sjá á slóðinni:  http://skoli.grundarfjordur.is/gallery/main.php?g2_itemId=597

Hitaveitumál: Hitastigulsboranir hafnar að nýju

Orkuveita Reykjavíkur hefur hafið borun á fimm til sex holum í landi Berserkseyrar við Hraunsfjörð á norðanverðu Snæfellsnesi. Um er að ræða hitastigulsholur og eiga niðurstöður borananna að gera jarðvísindamönnum kleift að staðsetja með nákvæmari hætti jarðhita á svæðinu. Borun á að ljúka um miðjan mars og þá tekur við úrvinnsla rannsóknargagna.Þegar hafa verið boraðar vinnsluholur á svæðinu, en leitast er við að finna meira og heitara vatn fyrir hitaveitu í Grundarfirði. Það er fyrirtæki Árna Kópssonar, Vatnsborun, sem sér um boranirnar. Þeim er þannig háttað að fyrst eru boraðar þrjár holur á fyrirframákveðnum stöðum. Að því loknu verður staðsetning síðustu tveggja til þriggja holanna ákveðin. Hver hola er 50 til 80 metra djúp.

Græna tunnan

Græna tunnan verður næst losuð þriðjudaginn, 26. febrúar.

Aðalfundur UMFG þann 21. febrúar

Minnum á  að aðalfundur UMFG verður haldin fimmtudagskvöldið  21. febrúar kl. 20.00 á  Hótel Framnesi.  Hefðbundin aðalfundarstörf á dagskrá og veitingar í boði.  Með kveðju stjórnin.

2.fl karla Íslandsmeistarar

Annar flokkur karla spilaði í úrslitum innanhúss móts KSÍ í Austurbergi í Breiðholti.  Efti röð Þorsteinn, Brynjar Gauti, Heimir Þór, Ejub neðri röð Brynjar, Ingi Björn, Ingólfur og Dominik                                                 Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum að okkar menn völtuðu yfir þessa keppni.  Þeir spiluðu í riðli með Val og Víkingi R.   Sigruðu Val 3-1 og fengu þar á sig eina markið í keppninni.  Unnu Víkinga 2-0 og fengu Fylki sem andstæðinga í undanúrslitum og unnu þá sömuleiðis 2-0.   Valsmenn unnu hinn undanúrslitaleikinn sem sýnir hversu sterkur riðill strákanna var.  Eitthvað hafa Valsmenn átt erfiðari undanúrslitaleik því að okkar menn skelltu þeim í úrslitaleiknum 5-0.   Fyrsti Íslandsmeistaratitill ársins því kominn á Snæfellsnes og tónninn gefinn fyrir  sumarið

Söngæfing eldri borgara

Fellur niður á miðvikudaginn 20 febrúar. Áður auglýst spilakvöld verður í samkomuhúsinu á fimmtudaginn 21 febrúar. 

Bæjarstjórnin lækkar álagningarprósentur fasteignagjalda

Á fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar í gær var samþykkt að lækka álagningarprósentu fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði.  Í haust var samþykkt að álagningarprósenta fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði yrði 0,36% á árinu 2008.  Í ljósi óvæntrar hækkunar á fasteignamati íbúðarhúsnæðis, sem varð 12% samkvæmt ákvörðun Yfirfasteignamatsnefndar, var samþykkt í gær að færa álagningarprósentuna niður í 0,34% á ný eða í sama horf og var á síðasta ári.  Einnig var samþykkt að álagningarprósenta lóðarleigu myndi lækka í 0.7% en var 0,8% og álagningarprósenta holræsagjalds verður 0,17% en var 0,18%.  Þetta er gert til þess að koma til móts við eigendur íbúðarhúsnæðis og létta gjaldabyrði einstaklinga vegna hækkandi fasteignamats.  Fyrsti gjalddagi fasteignagjaldanna á þessu ári verður 1. mars n.k.  Gjalddagarnir verða átta með eins mánaðar millibili.  Þeir sem fá álögð gjöld að upphæð 15.000 eða minna greiða þó í einu lagi á gjalddaga 1. júlí n.k.

Grundapol í Sögumiðstöð

Fulltrúar Grundapol, vinafélags Grundarfjarðar, frá Paimpol í Frakklandi eru í heimsókn.  Miðvikudaginn 20. febrúar kl. 20.00 ætlum við að vera í Sögumiðstöðinni og gera þeim glaða kvöldstund og efla tengsl vinabæjanna. Allir velkomnir.