Staða bæjarstjóra Grundarfjarðarbæjar auglýst

 Á fyrsta fundi bæjarstjórnar þann 15. júní s.l. var forseta bæjarstjórnar veitt heimild til að auglýsa stöðu bæjarstjóra Grundarfjarðarbæjar lausa til umsóknar. Auglýsing um stöðuna mun birtast í helstu prentmiðlum nú um helgina.   Hér má sjá auglýsingu um stöðu bæjarstjóra.

Ný bæjarstjórn Grundarfjarðar tekin til starfa

Ný bæjarstjórn Grundarfjarðar hélt sinn fyrsta fund þriðjudaginn 15. júní s.l. Hennar fyrsta verk var að kjósa forseta og varaforseta bæjarstjórnar. Sigurborg Kr. Hannesdóttir var kjörin forseti og Þórður Á. Magnússon varaforseti. Kosið var í nefndir og ráð. Ennfremur var afgreidd tillaga um heimild til að auglýsa stöðu bæjarstjóra lausa til umsóknar. Tvær tillögur lágu fyrir fundinum um breytingu á gjaldskrá Leikskólans Sólvalla er varða sérstakt álag á gjald vegna barna undir 24ra mánaða aldri. Var þeim vísað til bæjarráðs til umfjöllunar.Að lokum var skrifstofustjóra falið að kanna  möguleika á að lengja lán Íbúðalánasjóðs sem tilheyra hússjóðnum Hrannarstíg 28 – 40, með það að markmiði að lækka mánaðarlegar leigugreiðslur.   Listi yfir fulltrúa í nefndum Grundarfjarðarbæjar.        

Vel heppnuð 17. júní hátíðahöld í frábæru veðri í Grundarfirði

                                Grundfirðingar héldu þjóðhátíðardaginn 17. júní hátíðlegan í frábæru veðri.  Byrjað var á Kvernár og Grundarhlaupum um morguninn.  Síðan tók við andlitsmálun, skrúðganga, ávarp fjallkonu, skemmtiatriði í Paimpol garði, leikir með skátunum og sundlaugarpartí.  Allir fundu eitthvað við sitt hæfi og nutu hátíðarinnar.  Sverrir Karlsson tók meðfylgjandi mynd og fleri myndir sem birtast hér ,,,

Dagskrá 17. júní 2010

Hér má sjá dagskrá fyrir 17. júní 2010.

Bæjarstjórnarfundur

122. fundur bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar verður haldinn í Samkomuhúsi Grundarfjarðar, þriðjudaginn 15. júní 2010, kl.16.30. Fundir bæjarstjórnar eru opnir og eru allir velkomnir að koma og hlýða á það sem fram fer.

HM í fótbolta í samkomuhúsinu.

Allir leikir HM mótsins verða sýndir í samkomuhúsinu á stórum skjá og eru allir velkomnir. Húsið opnar hálftíma fyrir leik.  Hægt er að kaupa sér hressingu á staðnum. 

Sjálfboðaliðar óskast fyrir gott málefni

Dvalar- og hjúkrunarheimilið Fellaskjól óskar eftir duglegu fólki til þess að aðstoða við ýmis tilfallandi verkefni fyrir heimilið.  Verkefnin eru bæði innandyra og utandyra, s.s. málningarvinna, garðvinna o.s.frv.Vinnan er ólaunuð, en við getum lofað ykkur góðum kaffisopa.  Þeir sem vilja leggja góðu málefni lið eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við starfsfólk Fellaskjóls í síma 4386677   

Kvenfélagið Gleym mér ei

  Kvenfélagið Gleym mér ei hefur haft það að markmiði sínu að styðja og styrkja samfélagið í Grundarfirði með ýmsum hætti. Kvenfélagið, eins og aðrir bæjarbúar, nota samkomuhús bæjarins við hin ýmsu tækifæri og hefur þótt leitt að ekki skuli hafa verið fánastöng við húsið.  Úr því var bætt og afhenti fulltrúi kvenfélagsins, Sólrún Guðjónsdóttir Sigríði Finsen forseta bæjarstjórnar 7 metra fánastöng og íslenskan fána í sjómannadagskaffinu sunnudaginn 6. júní sl.     

Tilkynning til raforkunotenda í Grundarfirði

Raforkunotendur Grundarfirði, búast má við truflunum á raforkuafhendingu í nótt aðfaranótt föstudagsins 11 júní, vegna vinnu við flutningslínuna Vatnshamrar – Vegamót og vinnu í aðveitustöðinni Vegamótum. Díselvélar verða keyrðar í Ólafsvík, Grundarfirði og Stykkishólmi og reynt verður að halda rafmagni á norðanverðu Snæfellsnesi. Sjá nánar á www.rarik.is Bilanasími Rarik Vesturlandi er 528-9390

Leikhópurinn Lotta sýnir Hans klaufa í Þríhyrningi

Laugardaginn 12. júní sýnir Leikhópurinn Lotta nýjasta verk sitt, Hans klaufa í Þríhyrningnum í Grundarfirði. Verkið skirfaði Ljóti hálfvitinn Snæbjörn Ragnarsson en auk Hans klaufa koma við sögu aðrar þekktar persónur úr ævintýraheiminum. Þar má til dæmis nefna Öskubusku og froskaprinsinn.