Vorið er komð

Hreinsum bæinn Nú er vorið loksins komið eftir langan vetur. Búið er að sópa götur bæjarins og innan tíðar verða merkingar á götur málaðar. Þá er verið að undirbúa sumarstörfin í áhaldahúsinu en þau verða með svipuðu sniði og undanfarin ár. Áætlað er að ráða fleiri starfsmenn en áður í ýmis umhverfisverkefni.   Nokkurt rusl er á götum bæjarins eins og oft er á þessum árstíma. Gjarnan vilja menn kenna vetrinum um sóðaskapinn og enn aðrir kenna því um að starfsmenn bæjarins hirði rusl ekki nógu oft. Ástæðan fyrir rusli á götum og torgum er okkur mun nær, þ.e. að rusli er hent á víðavangi en ekki í ruslatunnur. Það er því okkar eigin umgengni sem skiptir mestu máli. Göngum snyrtilega um bæinn okkar, okkur sjálfum og gestum okkar til ánægju.   Mánudaginn 7. maí og mánudaginn 14. maí munu starfsmenn áhaldahúss hirða garðaúrgang sem skilinn er eftir við lóðarmörk. Íbúar eru hvattir til þess að nýta tækifærið nú um helgina og næstu helgi að hreinsa sitt nánasta umhverfi. Mikilvægt er að ganga frá ruslinu þannig að einfalt sé að hirða það.   Það er einkar ánægjulegt þegar íbúar sýna frumkvæði í umhverfismálum og eru öðrum til fyrirmyndar í þeim efnum og hvetja aðra til góðrar umgengni. Höldum því áfram, hvort sem það er með eigin umgengni, greinskrifum í blöð eða hvoru tveggja.  

Íbúaþingi frestað til hausts

Af óviðráðanlegum orsökum hefur íbúaþingi sem halda átti laugardaginn 5. maí verið frestað til haustsins.   Þess í stað verður boðið til íbúafundar síðar í mánuðinum.   Bæjarstjóri 

Tónleikar í sal FSN í kvöld

Vaskir nemendur í Stórsveit Snæfellsness halda þrenna tónleika í byrjun maí. Stórsveitin er skipuð nemendum í Fjölbrautaskóla Snæfellinga og er fyrsta starfsári hennar að ljúka. Tónleikarnir verða skemmtilegir fyrir alla aldurshópa. Við leggjum mikið upp úr að lögin séu skemmtileg og einnig að sé góður hljómur en leigt hefur verið gott hljóðkerfi fyrir alla tónleikanna. Miðaverð er aðeins kr. 1000 en frítt er fyrir börn og ungmenni að 18 ára aldri.   Tónleikarnir í Grundarfirði eru þeir síðustu í röðinni og verða haldnir í sal Fjölbrautaskóla Snæfellinga.Þessir tónleikar eru í samstarfi við Menningarráð Vesturlands.  

Gerum fínt!

Vorið er komið – og tími til að taka til hendinni!   Fimmtudaginn 3. maí 2012 stendur UMFG fyrir tiltektardegi og samveru á íþróttavellinum.   Markmiðið er að gera íþróttavöllinn og umhverfi hans snyrtilegt og aðlaðandi fyrir sumarið.   Íþróttasvæðið er nýtt á sumrin fyrir frjálsíþróttaæfingar, fótboltann, æfingar bæði yngri og eldri liða, þar eru haldnir fótboltaleikir og fjölmargir nýta sér hlaupabrautirnar til að ganga eða hlaupa á. Auk þess blasir íþróttasvæðið við þegar komið er inn í bæinn. Það skiptir því miklu máli að svæðið sé bæði snyrtilegt og sem hentugast til notkunar.  

Kartöflugarðar á Kvíabryggju

Íbúum Grundarfjarðar er boðið upp á garðlönd við Kvíabryggju. Þeir sem vilja þiggja það geta snúið sér til starfsmanna Kvíabryggju. Þeir sem vilja vera með á póstlistanum okkar snúi sér beint til Sunnu, sunnabar (hjá) aknet.is.   Garðyrkjuvakt kvenfélagsins  

Gróðurmold

Undanfarin ár hefur Grundarfjarðarbær boðið garðeigendum að nálgast gróðurmold á gámastöðina, þeim að kostnaðarlausu. Ákveðið hefur verið að hætta að bjóða upp á þessa þjónustu og er garðeigendum bent á að snúa sér beint til söluaðila.

Aðalfundur Skotfélagsins Skotgrundar

      Aðalfundur Skotfélagsins Skotgrundar verður haldinn fimmtudaginn 3.maí kl. 20:00 í félagshúsi Skotgrundar í Hrafnkelsstaðabotni. Við hvetjum félagsmenn til þess að fjölmenna á fundinn.Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á heimasíðu félagins www.skotgrund.123.is eða á facebook síðu félagsins. 

Bæjarstjórnarfundur

148. fundur bæjarstjórnar Grundarfjarðar verður haldinn í Samkomuhúsinu, fimmtudaginn 26. apríl 2012, kl. 16:30.   Fundir bæjarstjórnar eru opinir og er öllum heimilt að koma og fylgjast með því sem fram fer.  

Vortónleikar kirkjukórsins

  Í tilefni af Frakklandsferð kórsins verða haldnir tónleikar í Grundarfjarðarkirkju undir stjórn organistans Zolt Kantór mánudagskvöldið 30. apríl kl. 20:00.   Á ferð okkar um Frakkland heimsækjum við m.a. vinabæ okkar Paimpol þar sem við munum flytja sömu dagskrá og einnig tökum við lagið með kór Paimpolbæjar. Miðaverð 1.000.- kr. frítt fyrir börn.   Verið velkomin á tónleikana okkar Kirkjukór Grundarfjarðar

Er kominn tími fyrir klippingu?

Húseigendur og umráðamenn húseigna eru hvattir til að huga að frágangi girðinga, trjágróðurs og öðru sem liggur að götum, gangstéttum og gangstígum. Mikilvægt er að gróður í görðum hindri ekki vegfarendur. Bent er á 15. grein lögreglusamþykktar Grundarfjarðar. Sjá nánar samþykktina hér! Grundarfjarðarbær