Fyrsti í aðventu

Fyrsti sunnudagur í aðventu var haldinn hátíðlegur í Grundarfirði um liðna helgi. Dagurinn hófst á guðsþjónustu í Grundarfjarðarkirkju. Kvenfélagið, Gelym mér ei, hélt sinn árlega jólamarkað og fjölskyldudag í samkomuhúsinu. Þar var einnig tilkynnt um íþróttamann ársins 2013. Í ár voru fjórir íþróttamenn tilnefndir: Aldís Ásgeirsdóttir fyrir blak, Hermann Geir Þórsson fyrir golf, Ragnar Smári Guðmundsson fyrir fótbolta og Unnsteinn Guðmundsson fyrir skotfimi. Ragnar Smári Guðmundsson hlaut titilinn íþróttamaður ársins 2013.   Kl. 16:00 var boðið til veislu í Fellaskjóli, en dvalarheimilið fagnaði 25 ára afmæli 1. desember. Það var margt um manninn og hátt í 200 manns komu til að hlýða á hátíðardagskrá og gæða sér á veitingum.   Samkvæmt hefðinni var tendrað á jólatrénu kl. 18:00. Skógræktarfélag Eyrarsveitar gefur tréð en það er tekið úr skógarreit ofan við bæinn. Bæjarbúar létu rigningu og rok ekki á sig fá og voru fjölmargir mættir til að syngja og ganga í kringum jólatréð undir forsöng kirkjukórs Grundarfjarðarkirkju.   Dagurinn var svo kórónaður með algjörlega frábærum tónleikum Stórsveitar Snæfellsness. Flutt var glæsileg dagskrá þar sem karlakórinn Kári kom fram ásamt fjölda einsöngvara. Umgjörð tónleikanna var hin glæsilegasta og gestir á einu máli um að þarna hefði stórkostlegur menningarviðburður átt sér stað.   Við höldum með gott veganesti inn í aðventuna sem er annatími hjá mörgum. Við skulum muna að jólin eru tími ljóss og friðar, gleði og samveru. Njótum aðventunnar með kærleika og þakklæti í huga.   Alda Hlín Karlsdóttir Menningar- og markaðsfulltrúi Grundarfjarðarbæjar  

Kótilettukvöld UMFG 4. desember

UMFG heldur kótilettukvöld á morgun miðvikudag í samkomuhúsi Grundarfjarðar. Húsið opnar kl 19.00 og matur hefst um það bil hálftíma síðar. Skráning hjá Freydísi í netfangið freydis@fsn.is , 824-0066 eða á facebook. Nánari upplýsingar hér.

Fellaskjól - Það var sannkölluð hátíð í bæ

                                    Þegar hátt í 200 manns heimsóttu Fellaskjól á 25 ára afmælisdeginum. Kærar þakkir, vinir og velunnarar fyrir að gefa ykkur tíma í dagsins önn til að gleðjast með okkur á þessum tímamótum. Markið hefur ætíð verið sett hátt og vandað til verka við að halda heimilinu OKKAR allra í hópi þeirra glæsilegustu í landinu.      

Fellaskjól - Það verður hátíð í bæ!

Þann 1. desember 2013, eru tuttugu og fimm ár liðin frá formlegri opnun Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Fellaskjóls í Grundarfirði. Af því tilefni býður heimilisfólk til veislu þann dag með hátíðardagskrá frá kl 16:00.  

Íbúaþing í Grundarfirði 23. nóvember síðastliðinn

  Síðastliðinn laugardag var haldið íbúaþing í Grundarfirði, undir yfirskriftinni Grundarfjörður í sókn. Dagskrá þingsins var tvískipt, annars vegar erindi og hins vegar umræður. Lagt var upp með að horfa til möguleika og tækifæra en ekki á hindranir. í umræðu um sjávarútveg kom m.a. þetta fram „sjávarútvegur er byggðunum okkar mikilvægur áfram, ...við þurfum að þekkja út á hvað hann gengur og tækifærin í honum til framtíðar, opna umræður og huga fólks fyrir því“.    

Opinn fyrirlestur og spjallfundur um handverk og hönnun

Handavinna, handverk eða hönnun. Sunneva Hafsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Handverks & hönnunar, veðrur með opinn fyrirlestur og spjallfund í kvöld 27. nóvember kl. 20.30 í félagsheimilinu Breiðabliki í Eyja- og Miklaholtshreppi. Frábært tækifæri til að fræðast og fá leiðsögn. Aðgangur ókeypis og auðvitað allir velkomnir.  

Bæjarstjórnarfundur

164. fundur bæjarstjórnar Grundarfjarðar verður haldinn í samkomuhúsinu fimmtudaginn 28. nóvember 2013, kl. 16:30. Áhorfendur velkomnir.   Dagskrá fundarins: 

Stórsveit Snæfellsness heldur glæsilega jólatónleika

Jólatónleikar Stórsveitar Snæfellsness verða haldnir sunnudaginn 1. desember, í Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Sveitin hefur nú fengið Karlakórinn Kára og sjö einsöngvara til liðs við sig. Dagskráin samanstendur af sígildum jólalögum og dægurjólalögum og því ættu allir, ungir og aldnir að fá að heyra sín uppáhalds jólalög. Öllu verður til tjaldað í hljóðkerfi, hljóðblöndun og ljósum og lofar sveitin stórkostlegri hljóðrænni og sjónrænni upplifun. Við sama tækifæri verður vígt nýtt svið í FSN, sem keypt hefur verið fyrir gjafafé. Stórsveit Snæfellsness er skipuð ungu fólki af Snæfellsnesi og er rekin í samstarfi við Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Baldur Orri Rafnsson hefur stjórnað sveitinni frá því hún tók til starfa haustið 2013. Á þeim stutta tíma hafa þessir ungu tónlistarmenn náð ótrúlegum árangri og tónleikar þeirra með flottustu menningarviðburðum á Snæfellsnesi.Tónleikarnir hefjast kl. 20.Aðgangseyrir er 1.500 krónur og frítt fyrir 12 ára og yngri.    

Augnlæknir

Guðrún Guðmundsdóttir augnlæknir verður með móttöku á HVE Grundarfirði fimmtudaginn 5. desember n.k. Tekið er á móti tímapöntunum á Heilsugæslustöð Grundarfjarðar, sími 432 1350.    

GRUNDARFJÖRÐUR Í SÓKN!

  Íbúaþing á laugardaginn   Næstkomandi laugardag, 23. nóvember, býður Grundarfjarðarbær til íbúaþings í Fjölbrautaskóla Snæfellinga, kl. 11 - 15.  Dagskrá þingsins samanstendur af fjölbreyttum erindum þar sem heimamenn og gestir koma við sögu.  Að þeim loknum verða umræður í litlum hópum og geta allir viðstaddir stungið upp á umræðuefni.    Dagurinn hefst á morgunverði kl. 10.30 og síðan verður þingið sett kl. 11.  Þá taka við erindi tengd Svæðisgarði Snæfellinga, þar sem Björg Ágústsdóttir verkefnisstjóri hjá Alta, segir frá stöðu verkefnisins og síðan talar Silja Rán Arnardóttir um ungt fólk og Snæfellsnes.  Hún situr í stjórn Snæfríðar, hópi ungs fólks á Snæfellsnesi sem tengist Svæðisgarðsverkefninu.  Gunnar Kristjánsson, verkefnisstjóri segir frá mótun skólastefnu Grundarfjarðar sem nú er unnið að og Jón Eggert Bragason, skólameistari FSN gerir tilraun til að svara spurningunni „Er hægt að mennta frumkvöðla?“.  Því næst fá þinggestir að heyra um sýn ungs fólks og eldra fólks á Grundarfjörð, frá Elsu Árnadóttur, formanni Félags eldri borgara og fulltrúum frá Félagsmiðstöðinni Eden.  Síðasti hluti erindanna er helgaður atvinnumálum.  Þar fjallar Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri hjá Matís um sóknarfæri í sjávarútvegi og Ásbjörn Björgvinsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands flytur erindi sem hann kallar „Samfélagsleg áhrif ferðaþjónustu, dæmisögur og tækifæri“.    Að erindum loknum verða umræður með afslöppuðu og þægilegu fyrirkomulagi.  Hver sem vill getur stungið upp á umræðuefni og þátttakendur velja sér síðan hópa.  Þegar hópar hafa skilað niðurstöðum, verður þinginu slitið kl. 15.  Þinginu stýra Sigurborg Kr. Hannesdóttir, forseti bæjarstjórnar og Ragnar Smári Guðmundsson.  Þau sitja í stýrihópi vegna þingsins, ásamt Þorbjörgu Gunnarsdóttur og með þeim hefur starfað Alda Hlín Karlsdóttir, menningar- og markaðsfulltrúi.      „Börn eru engin fyrirstaða“ eins og þar stendur, því boðið verður upp á barnagæslu í Leikskólanum Sólvöllum.  Veitingar á þinginu eru í boði Grundarfjarðarbæjar.  Hægt er að koma í stuttan tíma eða vera allan daginn, eftir því sem hentar.    Á þinginu er lögð áhersla á að heyra raddir ungs fólks í bland við raddir þeirra sem eldri eru og reyndari.  Það er von bæjarstjórnar og stýrihóps að Grundfirðingar gefi sér stund frá amstri dagsins til að horfa fram á veginn og líta til nýsköpunar og tækifæra.  Og að sjálfsögðu eru nágrannar á Snæfellsnesi velkomnir.