Hér koma helstu fréttapunktar um starfsemi stofnana og nefnda bæjarins í janúar 2024, verkefni og helstu viðburði: 

Áramótakveðja bæjarins var á sínum stað, þakkir fyrir liðið ár 2023 og nýárskveðja 2024, heimatilbúin kveðja, söngur, myndir, upptaka - sjá frétt og myndband.  

Þrettándagleði var haldin í ágætis vetrarveðri, þar sem jólin voru kvödd, en bærinn sá um undirbúning, barnakór grunnskólans söng og félagar úr Björgunarsveitinni buðu uppá fallega flugeldasýningu. Sjá frétt og myndir

Áhaldahús hefur haft í nógu að snúast vegna mikillar snjókomu síðari hluta janúar, mokstur og hálkueyðing hafa verið meginverkefnin - verktakar sjá um snjómokstur á götum innanbæjar en áhaldahúsið sjálft um að moka aðkomuleiðir að stofnunum bæjarins, gangstéttir og stíga, og um hálkueyðingu sem er mestmegnis með salti. 

Eignaumsjón sinnir fjölbreyttum verkefnum við viðhald og endurbætur fasteigna bæjarins. Í janúar höfum við verið að undirbúa framkvæmdir sumarsins/ársins, en sumartímann þarf t.d. að nota vel í leik- og grunnskóla. Það gengur ágætlega að lagfæra tengigang milli Hrannarstígs 18 (íbúðir eldri borgara) og Fellaskjóls, en þar þurfti að endurbæta þak, skipta um klæðningu á suðurhlið og endurnýja innra byrði að hluta.  Á Grundargötu 30 (skrifstofurými til útleigu) er verið að ljúka frágangi á fundarherbergi. 

Slökkviliðið hélt tvær æfingar í janúar, sú fyrri var 3. janúar - sjá hér. Engin útköll, sem betur fer.
Slökkviliðsstjóri gaf út árlega eldvarnaeftirlitsáætlun um þá staði sem fá reglubundna skoðun á árinu 2024.  

Í sorpmálum eru að verða miklar breytingar. Á síðasta ári fór mikil vinna í undirbúning þeirra breytinga og við að undirbúa útboð sorpmála, í samvinnu við Snæfellsbæ, en samningar beggja sveitarfélaga við verktaka voru að renna út. Nýtt fyrirkomulag verður kynnt nánar á næstu vikum. Þann 24. janúar voru opnuð tilboð í sorpmálin. Þrjú fyrirtæki buðu í þjónustuna og verið er að vinna úr þeim. 

Skólastarf - þann 16. janúar var ný menntastefna kynnt og rædd með starfsfólki leik- og grunnskóla og skólanefnd. Stefnan er innleidd - þ.e. hrint í framkvæmd - eftir markvissum skrefum, og verður gerð grein fyrir því á sérstökum vef þar sem hægt er að fylgjast með. 

Grunnskólinn - 6. bekkur hélt 100 daga hátíð, þar sem þau fögnuðu því að hafa verið í skóla í 100 daga. Nemendaráð á miðstigi lagði til og skipulagði svokallaðan Kynjaskiptidag, þar sem hlutverkum var snúið við, strákar sem vildu máttu koma í "stelpufötum" og stelpur í strákafötum.   

Í janúar var gerð könnun meðal forráðamanna leikskólabarna um afstöðu til starfsdaga leikskólastigs, þ.e. Sólvellir og Eldhamrar. Unnið var úr könnuninni og mun skólanefnd funda í febrúar og undirbúa vinnu fyrir skóladagatal, og hafa hliðsjón af niðurstöðum úr könnuninni.

Álagning fasteignagjalda fer fram í janúar ár hvert - en fasteignagjöld eru annar stærsti tekjustofn bæjarins og standa gjöldin undir þjónustu við íbúa. Breytingar eru að verða á sorpmálum og þar með sorpgjaldskrá, og breytingar á gjaldskrá fráveitu þar sem bærinn tekur nú upp hreinsun á rotþróm í dreifbýli. Sjá nánar í frétt.

Í desember var auglýst eftir nýju starfsfólki, en breytingar urðu þegar samstarfi lauk um sameiginlegt embætti skipulags- og byggingarmála milli Sveitarfélagsins Stykkishólms, Eyja- og Miklaholtshrepps og Grundarfjarðarbæjar. Um störf skipulags- og byggingarfulltrúa bárust umsóknir sem skiluðu þó ekki ráðningu í þau vandasömu störf. Bærinn kaupir áfram þjónustu byggingarfulltrúa af EFLU og sinnir Fannar Þór Þorfinnsson byggingarfræðingur þeim verkefnum áfram. Til starfa um áramótin kom á ný til starfa hjá bænum Sigurður Valur Ásbjarnarson, byggingartæknifræðingur, og tók við stöðu skipulagsfulltrúa. Sigurður Valur hefur áður hefur gegnt stöðu bæði byggingar- og skipulagsfulltrúa bæjarins, auk þess að hafa langa reynslu sem tæknifræðingur, sem skipulags- og byggingarfulltrúi og sem bæjarstjóri í nokkrum sveitarfélögum. Guðmundur Rúnar Svansson var ráðinn í starf þjónustufulltrúa við embætti skipulags- og byggingarmála (starf sem áður nefndist aðstoðarmaður) og hóf hann störf 25. janúar sl. Sjá nánari umfjöllun hér á Facebook.

"Life-umsóknin": Grundarfjarðarbær er þátttakandi í stórri umsókn íslenska ríkisins undir formerkjum Vatnaáætlunar ESB. Við sækjum um styrk út á fráveitumál og vatnafar, einkum innanbæjar. Miklir fjármunir eru í húfi ef styrkur fæst, og er því mikil vinna lögð í þessa umsókn, en í henni taka þátt nokkur íslensk sveitarfélög og stofnanir. 

Bæjarstjórn hélt fyrsta fund ársins þann 11. janúar og afgreiddi m.a. aðalskipulagsbreytingu fyrir Framnes og hafnarsvæði og nýtt deiliskipulag fyrir norðurhluta hafnarsvæðis, auk þess sem lokið er skipulagslýsingu fyrir nýtt deiliskipulag iðnaðarsvæðisins vestan Kvernár, sem verður stækkað umtalsvert. 

Skipulagsmálin hafa annars verið mjög fyrirferðarmikil í janúar.  Fulltrúar úr skipulags- og umhverfisnefnd og bæjarstjórnarfulltrúar áttu góðan vinnufund um skipulagsmál bæjarins í víðu samhengi í lok janúar og var hann haldinn í framhaldi af öðrum slíkum vinnufundi í lok nóvember sl. Við eigum fullt af frábærum tækifærum og þurfum að halda vel á málum vegna þróunar bæjarins. 

Í takt við mikilvægi skipulagsmála gerði bæjarstjórn ráðstafanir til að styrkja bakland stærstu skipulagsverkefnanna sem í gangi eru, þ.e. skipulag á Framnesi, skipulag iðnaðarhverfis vestan Kvernár og nýleg vinna við fjölgun íbúðarlóða með breytingu á deiliskipulagi fyrir Ölkeldudal. Tveir fulltrúar úr bæjarstjórn og/eða skipulags- og umhverfisnefnd verða í "bakhópi" eða stýrihópi fyrir hvert verkefni, og eru skipulagsfulltrúa til stuðnings í vinnu við hvert verkefni. Með þessu móti vill bæjarstjórn styðja betur við skipulagsvinnuna, skapa aukin tengsl við kjörna fulltrúa og auka yfirsýn og eftirfylgni með stökum verkefnum. 

Vinna er í fullum gangi við aðal- og deiliskipulagsbreytingu fyrir iðnaðarsvæðið vestan Kvernár eins og áður segir, einnig deiliskipulag fyrir Framnesið og vinna hófst við aðal- og deiliskipulagsbreytingu fyrir Ölkeldudal, eins og bæjarstjórn samþykkti þann 14. desember sl. Ætlunin er að skipuleggja lóðir fyrir íbúðarbyggingar við Ölkelduveg og efst við Hrannarstíg, innan Paimpolgarðs, en nánari upplýsingar um þessa vinnu koma fljótlega. Aðal- og deiliskipulagsbreyting er í vinnslu fyrir gistiþjónustu á Grund, en þegar einstakir jarðar- eða fasteignareigendur skipuleggja í landi sínu, þá er það samt alltaf sveitarfélagið og bæjarstjórn sem ber ábyrgð á skipulagsferlinu, auglýsingum, afgreiðslum og slíku. 

Fundur bæjarráðs var haldinn 24. janúar og var m.a. farið yfir framkvæmdaverkefni ársins. Á fundinn komu Sævar frá eignaumsjón, Óli íþrótta- og tómstundafulltrúi og Sigurður Valur skipulagsfulltrúi til umræðu um helstu verklegar framkvæmdir ársins sem nú eru í undirbúningi, auk þess sem við fengum Badda verkefnisstjóra um orkuskiptaverkefnið á fund, til að fara yfir verkefnin.

Stýrihópur um barnvænt sveitarfélag fundaði 12. janúar, en í því sitja fulltrúar úr ungmennaráði, starfsmenn úr leik- og grunnskóla, tveir fulltrúar bæjarstjórnar, og auk þess starfa með hópnum Óli íþrótta- og tómstundafulltrúi, og bæjarstjóri eftir þörfum. 

Öldungaráð kom saman til fundar þann 19. janúar og ræddi um ýmis hagsmunamál. 

Bæjarstjóri situr í nýskipaðri skólanefnd Fjölbrautaskóla Snæfellinga, sem fundaði 22. janúar sl. 

Sjöa vikunnar er á sínum stað - en hún Olga S. Aðalsteinsdóttir sér um að skanna ljósmyndir úr safni Bærings og valdar myndir eru teknar til birtingar, með texta, í hverri viku. Við sjáum á umferð um bæjarvef, að myndirnar eru mikið skoðaðar. 

Grundarfjarðarhöfn:  Á vinnufundi hafnarstjóra og bæjarstjóra með skipulagsráðgjafa þann 15. janúar og hafnarstjórnarfundi þann 16. janúar var meginumfjöllunarefnið framtíðaráform um frekari stækkun og uppbyggingu hafnarsvæðisins. Til skoðunar er stækkun landsvæðis suður af Miðgarði, sem verið hefur á aðalskipulagi í langan tíma, með nýrri vegtengingu frá hafnarsvæð og að Gröf, til að létta vöruflutninga  af austanverðri Grundargötu. Hafnarstjóri hefur fengið hafnarsérfræðinga Vegagerðarinnar í lið með okkur og er nú komin álitleg heildarmynd  af fyrirhugaðri stækkun. Hafnarframkvæmdir og landfyllingar eru dýrar framkvæmdir og land við höfn, eins og okkar, er dýrmætt svæði. Áður en deiliskipulagsvinna hefst fyrir sunnanvert hafnarsvæði er því nauðsynlegt að skilgreina vel þær forsendur sem unnið er út frá - tengingar hafnarsvæðis við Framnes, miðbæ og iðnaðarsvæðið vestan Kvernár eru þar t.d. lykilatriði til að heildarmyndin verði góð og landnýting skynsamleg. - Einnig er nú í undirbúningi umsókn hafnarinnar um efnistöku í sjó, til framkvæmda í framtíðinni, m.a. landfyllingar.

Annars voru aflatölur janúar á höfninni rúm 1500 tonn, á móti um 750 tonnum í janúar 2023. Snjómokstur var með mesta móti á höfninni eins og annars staðar, miðað við síðustu ár. 

Fimm verkefni úr Grundarfirði fengu styrki úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands þann 12. janúar. Grundarfjarðarbær, eins og önnur sveitarfélög á Vesturlandi, rekur Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, sem bjóða ráðgjöf í atvinnu- og menningarmálum. Samtökin reka Uppbyggingarsjóðinn, með samningi við ríkið, sem leggur til fjármuni til uppbyggingarverkefna á tilteknum málefnasviðum, og er samningur gerður til nokkurra ára í senn. 

Nánar um starfsemi bæjarins má síðan lesa úr myndum janúarmánaðar sem birtar verða á Facebook á næstu dögum.