Umsjónarmenn samkomuhúss

Ráðið hefur verið í starf umsjónarmanns samkomuhússins sem auglýst var laust til umsóknar í janúar. Ráðin voru Eygló B. Jónsdóttir og Arnar Guðlaugsson sem deila starfinu. Þau hafa nú þegar tekið til starfa og sjá um bókanir í húsið sem hefur verið á bæjarskrifstofunni um nokkra hríð. Síminn hjá þeim er 863 0185.

Gámastöð í Grundarfirði - opnun tilboða

Í dag kl. 11:00 voru opnuð tilboð í verkið „Gámastöð í Grundarfirði“. Tvö tilboð bárust, frá Kjartani Elíassyni og Almennu umhverfisþjónustunni ehf. Kostnaðaráætlun verksins hljóðar upp á 23.586.357 kr. Tilboðin voru eftirfarandi:   Kjartan Elíasson, 22.735.780 kr., 96% af kostnaðaráætlun. Almenna umhverfisþjónustan, 28.020.174 kr., 119% af kostnaðaráætlun. Almenna umhverfisþjónustan, frávikstilboð, 26.760.174 kr., 113% af kostnaðaráætlun.

Landnemaskólinn hefst í dag

Landnemaskólinn, sem  er námskeið á vegum Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands ætlað fullorðnu fólki á vinnumarkaðnum, sem ekki á íslensku að móðurmáli, hefst í dag í  Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Tilgangur skólans er að auðvelda þeim að laga sig að íslenskum vinnumarkaði og samfélagi. Í skólanum verður kennd Íslenska, samfélagsfræði, tölvuvinnsla og sjálfsstyrking.Um 16 þátttakendur hafa skráð sig til leiks og eru þeir allir búsettir hér í Grundarfirði. Skólinn er 120 kennslustundir og lýkur 11. maí nk.

Þorrablót Leikskólans Sólvalla

Þorrablót Leikskólans Sólvalla verður haldið þann 8. febrúar nk.  kl. 11:00. Þorrablótið byrjar í samkomuhúsinu þar sem nemendur verða með skemmtiatriði. Að skemmtiatriðum loknum verður boðið upp á þorramat í leikskólanum.   Foreldrar og aðrir gestir eru velkomnir!   Leikskólastjóri  

Rétt svar við spurningu vikunnar

Neshúsin í Grafarnesi   Fyrsta húsið var byggt í Grafarnesi árið 1906 ásamt skansi í fjörunni til fisklöndunar og hófst þá útgerð þaðan, en eiginleg þéttbýlismyndun hefst ekki fyrr en upp úr 1940  (úr Árbók Ferðafélags Íslands 1986).

Kynning á vefsíðu

Hið gullna jafnvægi Samhæfing atvinnu og fjölskyldulífs. Í tilefni af vinnslu fjölskyldustefnu Grundarfjarðarbæjar má benda á vefsíðu áhugahóps um samhæfingu vinnu og einkalífs sem meðal annars er ætluð „einstaklingum sem vilja sinna vel öllum þáttum tilverunnar: vinnunni, heimilinu, fjölskyldunni, ættingjum og öðrum ástvinum, náminu, félagsstörfum og áhugamálum“.  

Þorrablót Hjónaklúbbs Eyrarsveitar

Þeir sem eiga pantaða miða á þorrablót hjónaklúbbsins eru vinsamlegast beðnir um að sækja þá og greiða fyrir kl. 22:00 í kvöld (miðvikudag). Ennþá eru örfá sæti laus. Áhugasamir hafi samband við Kollu, Fagurhólstúni 9, í síma 438-6626.   Stjórnin 

Tilkynning frá skattstjóra Vesturlandsumdæmis

Þann 1. febrúar 2006 munu sýslumennirnir í Stykkishólmi, Búðardal og Borgarnesi, taka við störfum umboðsmanna skattstjóra Vesturlandsumdæmis. Bæjarskrifstofa Grundarfjarðar sinnir því ekki lengur umboði skattsjtóra Vesturlandsumdæmis.   Þetta þýðir að eyðublöð frá ríkisskattstjóra liggja ekki frammi á bæjarskrifstofu og skrifstofan hefur ekki umboð til að taka á móti skattframtölum, launamiðum o.s.frv. Öll eyðublöð rsk má fá rafrænt á vefnum www.rsk.is. Að öðru leyti gefa sýslumaður Snæfellinga og skattstofa Vesturlands frekari upplýsingar.   Sýslumaður Snæfellinga, s: 430-4100 Skattstofa Vesturlands, 430-2900   Bæjarstjóri

Reglur um niðurgreiðslu á dagvistunargjöldum

Bæjarstjórn Grundarfjarðar samþykkti, á fundi sínum þann 12. janúar sl., reglur um niðurgreiðslu á dagvistunargjöldum foreldra með börn í dagvistun hjá dagforeldrum. Samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar eru greidd niður daggjöld vegna barna sem eru í daggæslu í heimahúsum og eiga lögheimili í Grundarfjarðarbæ. Niðurgreiðslurnar eru háðar ákveðnum skilyrðum og eru miðaðar við tímalengd. Ekki er greitt fyrir vistun í skemmri tíma en 4 klst. á dag. Sjá reglurnar í heild sinni hér.

Rétt svar við spurningu vikunnar

Fyrr í vikunni var hleypt af stað nýjum lið, spurningu vikunnar. Spurt var hér á vefnum: Hvaða ár fékk Grundarfjörður kaupstaðarréttindi? Ekki er hægt að kvarta undan lélegri þátttöku, því 122 höfðu svarað spurningunni á föstudagskvöldi. Tíu völdu svarmöguleika a) árið 1662, 71 völdu svarmöguleika b) og sögðu 1786 og 41 völdu svarmöguleika c) árið 1897. Rétt svar er árið 1786.