Borun við Berserkseyri

Laugardaginn 21. maí sl. náðu bormenn upp 25 m af brotnum stöngum sem sátu föst í holunni. Í framhaldi af því náðu þeir að bora 6 m til viðbótar en urðu aftur að hætta. Sem stendur sitja fastir í holunni um 6 metrar af stöngum ásamt borkrónunni sjálfri. Það kemur í ljós eftir daginn í dag og á næstu dögum hvort þeim takist að ná þessum síðustu brotum upp úr holunni. Ef það tekst ekki þarf að taka afstöðu til hvort látið verði staðar numið við þessa holu, eða hvort reynt verði að bora “framhjá”. Verkstjóri á staðnum sagði hinsvegar að það væri ekki auðvelt mál og ekki víst að það verði niðurstaðan. Það er hins vegar ákvörðun sem verður ekki tekin af börmönnum heldur yfirmönnum Ræktunarsambandsins, verkkaupa og Orkustofnun.

Fyrsta sending komin !

Fyrsta sendingin af félagsgöllum UMFG er komin. Eftir kl 16:00 í dag verður hægt að nálgast gallana hjá Eygló. Einnig er hægt að hringja í síma 8630185 og athuga hvort ykkar pöntun er komin.

Opið hús í leikskólanum

í dag þriðjudaginn 24. maí verður opið hús  í Leikskólanum frá 17:00 -19:00. Þar verða verk nemenda til sýnis og sölu. Foreldrafélagið verður með kaffisölu. Nemendur syngja fyrir gesti kl:17:45. Allir velkomnir.

Nýr yfirlæknir á heilsugæslustöðina

Nú í lok mánaðarins hættir Erlingur Hugi Kristvinsson störfum sem yfirlæknir á heilsugæslustöð Grundarfjarðar. Í hans stað hefur verið ráðin yfirlæknir, Gunda Bech Nygaard sem hefur verið heilsugæslulæknir við heilsugæslustöð Ólafsvíkur síðastliðin  4 ár. Gunda er sérfræðingur í heimilislækningum og hefur auk starfa sinna í Ólafsvík, víðtæka reynslu af sjúkrahússtörfum í Danmörku og Noregi.  

Sumartími í sundlauginni

Á mánudag, 23. maí, verður tekinn upp sumartími í sundlauginni. Á virkum dögum verður opið kl. 8:15-21:00 og kl. 12:00 til 18:00 um helgar.    

Félagsgallar UMFG

UMFG gallinn að framan.   Nú er búið að panta um 120 félagsgalla hjá UMFG. Við viljum minna á að hægt er að panta galla hjá Eygló í síma 863-0185 eða koma við á Eyrarvegi 14. Barnastærðir ( 86- 152) kosta 5400 og fullorðinsstærðir (164 og stærra) eru á 6400.  

Bæjarstjórnarfundur

Bæjarstjórnarfundur verður haldinn í dag, 17. maí kl. 17 í samkomuhúsinu. Fundurinn er öllum opinn. Dagskrá: Samanburður ársreikninga Grundarfjarðarbæjar og Snæfellsbæjar. Ársreikningur Grundarfjarðarbæjar og stofnana 2004, síðari umræða. Rekstraryfirlit janúar-apríl 2005. Fundargerðir nefnda og ráða. Erindi um frystihótel. Erindi frá Eyrbyggju-sögumiðstöð. Erindi til kynningar.

Áheitahlaup !

Strákarnir í 5.,4.og 3.fl UMFG hlaupa í dag áheitahlaup. Þeir lögðu af stað frá Borgarnesi kl 8:00 í morgun og hlaupa með bolta á undan sér. Núna þegar klukkuna vantaði 10 mín í þrjú voru þeir að hlaupa yfir brúnna yfir Kolgrafafjörð þannig ða nú fer að styttast í að þeir komi heim. Við hvetjum alla að mæta í ESSO og taka á móti þreyttum hlaupurum.

Borun vinnsluholu fyrir hitaveitu við Berserkseyri

Eins og lesendur Grundarfjarðarvefsins hafa eflaust tekið eftir hefur Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða gengið erfiðlega að bora vinnsluholu fyrir hitaveitu á síðastliðnum vikum. Bor Ræktunarsambandsins lenti í mjög hörðum jarðlögum, sem kallast Gabbró, og urðu afleiðingarnar þær að borstangir brotnuðu ofaní jörðinni á borstaðnum við Berserkseyri.  

Kökubasar kl. 15:00 í dag

9. bekkur Grunnskóla Grundarfjarðar verður með kökubasar í dag kl. 15:00 í Samkaupum Strax. Basarinn er liður í fjáröflun bekkjarins vegna fyrirhugaðrar Frakklandsferðar. Bekkurinn fer út þann 30. maí nk. og dvelur í Frakklandi í tvær vikur. Þetta er síðasti kökubasarinn sem 9. bekkur stendur fyrir vegna ferðarinnar. Kíkið í Samkaup og kaupið tertu fyrir helgina!   9. bekkur