Skemmtiferðaskip í Grundarfjarðarhöfn

Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins kom til hafnar í Grundarfirði sunnudaginn 12. júní sl. Alls hafa 10 skip boðað komu sína í sumar auk þess sem ein skúta hefur tilkynnt komu sína til Grundarfjarðar. Næsta skemmtiferðaskip, Ocean Monarc, kemur kl. 08:00 í fyrramálið og stoppar til  kl. 13:30.   Paloma 1 þegar það sigldi út fjörðinn á sunnudagskvöld 

Innritun nýnema á haustönn 2005 í FSN

Innritun nýnema (nemenda sem eru að koma úr 10. bekk) verður dagana 13. og 14. júní kl. 10:00 – 17:00. Nemendur eru beðnir um að koma til viðtals í skólann með foreldrum/forráðamönnum sínum þá daga. Gert er ráð fyrir að nemendur hafi lokið rafrænni skráningu þegar þeir koma til viðtals, en þeir geta einnig fengið aðstoð við skráninguna á staðnum.

Stórsigur hjá 4.fl kv.

Á föstudaginn spilaði 4.fl kv á móti HK. Stelpurnar í UMFG sigruðu þann leik 11-3. Lið UMFG átti stórleik og vonum við að þetta hafi aðeins verið byrjunin á því sem koma skal í sumar. Næsti leikur hjá 4.fl kv er miðvikudaginn 22.júní en á spila þær við Þrótt R í Reykjavík. 2.fl kvenna spilar á mánudaginn við lið Ægis í Þorlákshöfn og 5.fl ka fer á miðvikudaginn og spilar við lið Álftaness á Bessastaðavelli. Nú eru síðustu forvöð að panta félagsgalla UMFG í bili. Tekið verður við pöntunum 13 júní og síðan ekki fyrr enn eftir 13.júlí. UMFG

Áfram stelpur - 16. Kvennahlaup ÍSÍ

16. Kvennahlaup ÍSÍ fór fram laugardaginn 11. júní í Grundarfirði eins og víðar á landinu, og reyndar erlendis líka. Lagt var af stað frá Esso-plani kl. 11.00 og var gengið tvær vegalengdir, 2,5 og 5 km. Að hlaupi eða gögnu lokinni var boðið upp á hressingu í Þríhyrningnum og  allir þátttakendur fengu verðlaunapening. Frítt var í sundlaugina á eftir. Veður var hentugt til hreyfingar, milt og gott.  

Skógrækt í Grundarfirði

Starfsemi Skógræktarfélags Eyrarsveitar hefur verið öflug á liðnum árum. Á árunum 1987-88 var byrjað að planta í svæðið þar sem nú er kominn nokkuð myndarlegur „skógur“ á Fellsásnum, svæði undir Fellunum fyrir ofan Hjaltalínsholt. Plantað hefur verið í svæðið fyrir ofan byggðina undir Fellunum, fyrir neðan vatnstankinn, í Ölkeldudal og nánast allt að spennistöð. Nú nýverið var á vegum bæjarins útbúið aðkomusvæði fyrir Skógræktina frá nýja veginum um Ölkeldudal.   Stjórn Skógræktarfélagsins við „skóginn“ á Holtinu.  

Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins

Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins kemur til Grundarfjarðar sunnudaginn 12. júní nk. Skipið heitir Paloma 1 og er 12.586 br tonn. Skipið kemur til hafnar kl. 14:30 og fer aftur kl. 22:00.    Tekið verður á móti skipinu við komu þess með hljóðfæraleik. Allir velkomnir niðrá bryggju! (munum þó öryggissvæðið).  Einnig er stefnt er að því að hafa útimarkað við Sögumiðstöð ef næg þátttaka fæst.

Kalt vatn

Föstudaginn 3. og laugardaginn 4. júní sl. var borað eftir köldu vatni á vatnsverndarsvæðinu við Grundarbotn. Borunin tókst vel, en það var Ræktunarsamband Flóa & Skeiða sem annaðist verkið. Nýja holan var boruð austan við núverandi dæluhús, nær bökkum Grundarár. Sunnudaginn 5. júní sl. var holan dæluprófuð til að kanna afköst hennar og reyndist hún gefa 10 – 15 ltr. á sekúndu.

Hverfisvæn leið um Grundarfjörð

Vegagerðin hefur auglýst útboð á framkvæmdum við „hverfisvæna leið“ um Grundarfjörð. Um er að ræða sérstakt verkefni sem felst í breytingu (öryggisaðgerðum) á Grundargötu sem er þjóðvegur. Gatan verður m.a. mjókkuð og á hana verða settar umferðareyjur, „upphækkanir/bugður“ og kantar.  Framkvæmdin, sem hönnuð er af verkfræðistofunni VST, er gerð með það að leiðarljósi að minnka hraðakstur í gegnum bæinn. Tilboðin verða opnuð þann 21. júni nk. og eru verklok áætluð 1. september 2005.

Jöklakórinn undirbýr þátttöku í Kirkjudögum

Jöklakórnum, sem er samkór nokkurra kirkjukóra á Snæfellsnesi, hefur verið boðið í „messuheimsókn“ í Hallgrímskirkju, í tengslum við Kirkjudaga sem haldnir verða í Reykjavík 24. - 25. júní að lokinni Prestastefnu. Kórinn mun syngja við guðsþjónustu í Hallgrímskirkju sunnudaginn 26. júní n.k. og verður messunni útvarpað.  

Frá UMFG

Sumarstarfið er komið af stað og alltaf eitthvað um að vera. Nokkrir leikir á íslandsmótinu eru búnir og koma úrslit þeirra hér. Miðvikudaginn 2. júní spilaði 5. fl við lið Ægis og unnu okkar strákar leikinn  3-1. Fimmtudaginn 4. júní spilaði 4. fl ka við Þrótt R og vann UMFG glæsilegan sigur 4-0. Strákarnir í 4. fl eru nú í æfingaferð í Danmörk og eru búnir að spila tvo leiki þar og vinna báða. Hægt er að fylgjast með ferðasögu þeirra á www.blog.central.is/4_flokkur . Í gær þriðjudag var svo leikur hjá 2.fl kv HSH þær spiluðu við lið Hvatar frá Blönduósi og vann HSH þann leik 5 -1. Það voru þær Birna Karlsd, Birna Kristmundsd, Anna Þóra og Þórkatla sem skorðu fyrir HSH. Veðrið var eitthvað að stríða okkur í leiknum í gær og voru leikmenn blautir og kaldir eftir leikinn og höfðu stelpurnar frá Blönduósi orð á því hvort að það væri alltaf svona veður hér. Næsti leikur UMFG er á föstudag en þá tekur 4.fl kv á móti HK.