Jólastund starfsfólks Grundarfjarðarbæjar

Í gær 19. desember kom starfsfólk og bæjarfulltrúar Grundarfjarðarbæjar og fjölskyldur þeirra saman á Jólastund, sem haldin er í fyrsta sinn í þessari mynd. Boðið var upp á heitt súkkulaði, smákökur, klatta og rúgbrauð, að ógleymdu hinu frábæra síldarsalati hennar Önnu H. Andreasen, matráðs í leikskólanum, en það á uppruna sinn í Færeyjum. Sungin voru jólalög og lesnar jólasögur. Um hundrað manns áttu saman jólastund á Kaffi 59. Um undirbúninginn sáu þær Sigríður Gísladóttir, Helga Hafsteinsdóttir og Ingibjörg Þórarinsdóttir. Hér að neðan eru  nokkrar myndir sem teknar voru á jólastundinni.    

Skippers D'Islande - siglingakeppni

Eins og fram hefur komið á bæjarvefnum er í gangi undirbúningur fyrir siglingakeppnina Skippers D´Islande 2006, en keppnisleiðin er: Paimpol - Reykjavík - Grundarfjörður – Paimpol. Áhugamenn standa að keppninni, m.a. siglingaklúbburinn í Paimpol á Bretagne-skaga í Frakklandi. Siglingaklúbburinn Brokey í Reykjavík leggur þeim lið með undirbúning hér heima.   Við sýningarbás Bretagne á bátasýningunni í París: Frá vinstri Emile Poidevin, formaður Skippers d'Islande, Elisabeth Steffan frá Icelandair skrifstofunni í París, varaforseti Conseil général des Côtes d'Armor á Bretagne, Michel Morin frkvstjóri keppninnar, Björg bæjarstjóri, Jean-Paul Pochard borgarstjóri Paimpol, Finnbogi Rútur Arnarson sendifulltrúi í íslenska sendiráðinu í París, Elisabeth Amos, ritari formanns Skippers og Ágúst Ágústsson markaðsstjóri Faxaflóahafna sf.  

Fyrsta útskriftarhátíð Fjölbrautaskóla Snæfellinga

Laugardaginn 17. desember 2005 var fyrsta brautskráning nemenda frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Þá voru brautskráðir fjórir stúdentar, þrír af félagsfræðabraut og einn með viðbótarnám til stúdentsprófs.   Fyrstu stúdentar FSN; Eygló B. Jónsdóttir, Gunnar Már Árnason, Hulda Hildibrandsdóttir og Vilhjálmur Pétursson.   Útskriftarnemar fengu allir táknræna gjöf frá skólanum í tilefni af því að þeir eru fyrstu nemendur sem brautskrást frá honum. Einnig fékk Vilhjálmur Pétursson, einn útskriftarnemenda, verðlaun fyrir góðan árangur í viðskiptagreinum frá KB banka, verðlaun fyrir góðan árangur í íslensku frá Eddu-miðlun og verðlaun fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi frá sveitarfélögunum sem standa að skólanum, Grundarfjarðarbæ, Helgafellssveit, Snæfellsbæ og Stykkishólmsbæ. Kór skólans flutti þrjú lög og Hólmfríður Friðjónsdóttir sópransöngkona og kórstjóri skólans söng einsöng.   Af vef Fjölbrautaskóla Snæfellinga.  

Tilkynning frá Vatnsveitunni

Eins og íbúar hafa orðið varir við í morgun, er vatnslaust í bænum. Unnið var að viðgerð á stofnæð vatnsveitunnar, á athafnasvæðinu við Kverná, í gærkvöldi og fram eftir nóttu. Það óhapp átti sér svo stað í morgun að viðgerð gaf sig og stofnæðin fór í sundur. Vatnsbirgðir úr miðlunartankinum eru uppurnar og því vatnslaust í bænum. Pípulagningarverktakar bæjarins vinna að viðgerð en ljóst er að hún getur tekið einhvern tíma. Viðbúið er að vatnslaust verði eitthvað fram eftir degi. Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem óhjákvæmilega hjótast af þessu. 

Húsnæði Krabbameinsfélags Snæfellsness Grundarfjarðardeild opnað

Fimmtudaginn 15. desember var haldinn fundur í Krabbameinsfélagi Snæfellsness, Grundarfjarðardeild. Þar var kynnt starfsemi annarra stuðningsfélaga Krabbameinssjúklinga. Að loknum fundi í Sögumiðstöðinni var haldið niður í húsnæði Verkalýðsfélagsins Stjörnunnar. Þar var opnuð ný aðstaða Krabbameinsfélagsins, en búið var að kaupa sófa og borð til að gera aðstöðuna sem notalegasta.   Félaginu barst góðar gjafir frá félagasamtökum í Grundarfirði. Það var Lionsklúbbur Grundarfjarðar, Kvenfélagið Gleym mér ey, Rauði Krossinn  og Verkalýðsfélagið Stjarnan. Einnig gáfu hjónin Ragnar Haraldsson og Rósa Björg Sveinsdóttir félaginu veglega peningagjöf. Þess má einnig geta að aðstöðuna í Verkalýðsfélagshúsinu fær félagið að láni endurgjaldslaust. 

Vatnsveitan lokuð tímabundið !!

Vegna vinnu við stofnæð vatnsveitu Grundarfjarðar verður slökkt á vatnsveitunni í dag frá kl. 17:00 og fram eftir nóttu.   Lokunin hefur fyrst og fremst áhrif á sveitabæinn Kverná, iðnaðarsvæðið við Kverná, Grafarbæina fjóra og smábátahöfnina (suðurgarð).   Aðrir hlutar bæjarins fá vatn úr miðlunargeyminum fyrir ofan bæinn, á meðan á vinnu veitunnar stendur.   Beðist er velvirðingar á þessu ónæði.   Jökull Helgason Skipulags- og byggingarfulltrúi

Jólaundirbúningur í Grundarfirði

Jólaundirbúningur stendur sem hæst í  Grundarfirði þessa dagana. Aðventukvöld var haldið í Grundarfjarðarkirkju sl. sunnudag. Þar sungu Kirkjukór Grundarfjarðarkirkju og Barnakirkjukórinn með stakri list ásamt því að krakkar úr tónlistarskóla Grundarfjarðar spiluðu.    

Úttekt á vefjum sveitarfélaga og fleiri

Samband íslenskra sveitarfélaga og forsætisráðuneytið létu nýlega gera úttekt á upplýsinga- og samskiptavefjum sveitarfélaga, ráðuneyta og ríkisstofnana. Fyrirtækið Sjá ehf. annaðist úttektina, sem var afar umfangsmikil, gerð á 246 vefjum samtals, þar af hjá 71 sveitarfélagi. Vefirnir voru metnir eftir innihaldi, nytsemi og með tilliti til hversu gott aðgengi er að þeim (fyrir fatlaða, sjónskerta, heyrnarskerta).  

Síðasta sperran reist í viðbyggingu Leikskólans

Miðvikudaginn 14. desember sl.  var síðasta sperran reist  í viðbyggingu Leikskólans Sólvalla. Af því tilefni var flaggað og smiðum boðið í kakó og smákökur.  Sjá meðfylgjandi myndir. Framkvæmdum miðar skv. áætlun og gert er ráð fyrir að húsið verði fokhelt fyrir miðjan janúar n.k.

Fjárhagsáætlun 2006 samþykkt

Fjárhagsáætlun Grundarfjarðarbæjar fyrir árið 2006 var samþykkt við aðra umræðu á fundi bæjarstjórnar miðvikudaginn 14. desember. Ennfremur fór fram fyrri umræða um þriggja ára áætlun bæjarins. Gerð verður nánari grein fyrir fjárhagsáætluninni og ýmsu henni tengdu hér á bæjarvefnum á næstu dögum.   Helstu fjárfestingar ársins 2006