Grillveisla í áhaldahúsinu

Starfsfólk áhaldahúss og vinnuskóla notuðu góðviðrið í dag og grilluðu í hádeginu. Undanfarið hefur veðrið ekki verið með besta móti og var tækifærið sem gafst í dag notað til að fagna sólinni þó ekki hafi nú hitastig verið sérlega hátt.   Valgeir og Ingibjörg grilluðu af mikilli fagmennsku

Jónsmessuguðsþjónusta og ganga á Klakkinn

Guðsþjónusta verður kl. 21 í Setbergskirkju. Sr. Elínborg Sturludóttir þjónar fyrir altari, Jón Ásgeir Sigurvinsson prédikar. Organisti: Jóhanna Guðmundsdóttir. Eftir guðsþjónustu verður gengið á Klakkinn.Lagt verður af stað frá Bárarfossi kl. 22.15 undir forystu Halls Pálssonar.

Vantar þig aðstoð í garðinum?

Dagana 3. til 6. júlí nk. mun vinnuskólinn bjóða upp á ókeypis aðstoð í görðum hjá einstaklingum.   Boðið verður m.a. upp á hreinsun beða, málun grindverka, gróðursetningu, ruslatínslu og aðra almenna garðvinnu, þó ekki með vélum. Skilyrði er að fullorðinn einstaklingur sé jafnframt á staðnum og leiðbeini.   Umsjónarmaður vinnuskólans, Ingibjörg Sigurðardóttir, mun hafa umsjón með þessari vinnu, metur verkefnin og sér um að útdeila þeim til vinnuskólans.   Sótt er um á bæjarskrifstofunni í síma 4308500 eða netfang grundarfjordur@grundarfjordur.is. Taka þarf fram hvaða aðstoðar sé óskað og á hvaða tíma. Umsóknarfrestur er til fimmtudagsins 29. júní.   Vinnuskólinn  

Íslenskir þjóðbúningar, handverk og kaffiboð í Norska húsinu í Stykkishólmi

N.k. laugardag, þann 24. júní, verður Þjóðbúningadagur í Norska húsinu í Stykkishólmi og geta gestir kynnt sér íslenska þjóðbúninga og handverk þeim tengt, á milli klukkan 14.00 og 16.00.    

Rétt svar við spurningu vikunnar

Fyrsti forstöðumaður Kvíabryggju var Ragnar Guðjónsson. 190 manns tóku þátt og voru 102 eða 53.7% með rétt svar.

Annáll Grundarfjarðarbæjar 2002-2006

Þann 11. júní sl. rann út umboð fráfarandi bæjarstjórnar og nýkjörin bæjarstjórn fékk umboð sitt skv. ákvæðum sveitarstjórnarlaga.  Fyrir nokkru tók ég saman yfirlit yfir helstu verkefni og framkvæmdir sveitarfélagsins á síðustu árum, sem þróaðist svo út í annál yfir starfsemi bæjarins á liðnu kjörtímabili. Svona ef lesendur skyldu ekki vera búnir að fá nóg af umfjöllun um bæjarmálefni, nú að nýafstöðnum kosningum, þá er kjörið að svala fróðleiksþorstanum með því að kíkja á eftirfarandi samantekt.   Sjá grein bæjarstjóra í heild sinni hér.  

Fjölskyldan á fjallið

Í gær, 14. júní, var árleg afmælisganga Siggu Dísar á Eyrarfjall. Í ár var gangan liður í verkefninu Göngum um Ísland, fjölskyldan á fjallið. Settir eru upp póstkassar með gestabókum á 20 fjöllum víðsvegar um landið, en öll þessi fjöll eiga það sameiginlegt að vera tiltölulega létt að ganga á. Markmið verkefnisins er að fá fjölskyldur í létta fjallgönguferð og stuðla þannig að aukinni samveru, útivist og um leið líkamsrækt innan fjölskyldunnar.  

Sæbjörg í Grundarfjarðarhöfn

Dagana 14. - 16. júní stendur yfir Endurmenntunarnámskeið 1 í  öryggisfræðslu um borð í Sæbjörgu við höfnina. Um 30 sjómenn taka þátt í námskeiðinu að þessu sinni. Sjá nánar um námskeiðið hér.   Sæbjörg í Grundarfjarðarhöfn

Fyrsti fundur nýkjörinnar bæjarstjórnar

Fyrsti fundur nýkjörinnar bæjarstjórnar var haldinn í gær, 13. júní 2006. Nýjar bæjarstjórnir tóku formlega við þann 11. júní sl. Á fundinum var kosið í allar nefndir og ráð bæjarins og í embætti bæjarstjórnar. Forseti bæjarstjórnar var kjörin Sigríður Finsen og varaforseti Þórey Jónsdóttir. Í bæjarráði sitja Ásgeir Valdimarsson, Sigríður Finsen og Gísli Ólafsson. Fundurinn var síðasti bæjarstjórnarfundur Bjargar Ágústsdóttur, fráfarandi bæjarstjóra. Þakkaði hún bæjarfulltrúum fyrr og nú fyrir samstarfið og óskaði nýkjörinni bæjarstjórn velfarnaðar í störfum sínum.  Sjá lista yfir allar nefndir og ráð hér.   Gísli Ólafsson, Una Ýr Jörundsdóttir, Emil Sigurðsson, Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri, Sigríður Finsen, Rósa Guðmundsdóttir, Ásgeir Valdimarsson og Þórður Magnússon, sem sat fundinn sem varamaður fyrir Þóreyju Jónsd.

Knattspyrnumót á Blönduósi.

Knattspyrnuráð karla og kvenna eru að láta gera fóðraða vindjakka á krakkana sem að fara á Smábæjarleikana á Blönduósi. Þeir foreldrar sem að hafa áhuga á að eignast jakka eru beðnir um að hafa samband við Eygló í síma 863-0185.   Einnig er verið að taka við pöntunum á UMFG göllum og þurfa pantanir fyrir Blönduósmótið að berast fyrir föstudag. Hægt er að fá stakar buxur eða stakan jakka.