Berserkur 2006

Mánudaginn 24. júlí n.k fer sveppurinn í loftið. Götur, torg og önnur bæjarprýði verða hvergi óhult fyrir sköpunarkrafti ungra listamanna. Ef þú hefur áhuga á að virkja unga ferska orku taktu þá upp tólið og hringdu núna í síma 891-7802 (Þóra Magga) eða 690-9601 (Sonja). Smiðjurnar eru ætlaðar ungmennum á aldrinum 16 – 25 ára (´81-´90).Eftirfarandi smiðjur eru í boði: 

Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri lætur af störfum

Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri lét af störfum sl. föstudag, þann 14. júlí eftir 11 ára starf sem bæjastjóri/sveitarstjóri í Grundarfirði. Björg tók við starfinu af Magnúsi Stefánssyni, núverandi félagsmálaráðherra, árið 1995. Bæjarstjórn færði Björgu málverk að gjöf og voru henni þökkuð vel unnin störf í þágu sveitarfélagsins.   Sigríður Finsen og Friðgeir V. Hjaltalín, sem var oddviti þegar Björg var ráðinn, afhenda henni málverkið á kveðjuhófi sem henni var haldið á dögunum.  

Sorphirða og rekstur gámastöðvar á Snæfellsnesi

Í síðustu viku auglýsti Ríkiskaup, f.h. Grundarfjarðarbæjar, Stykkishólmsbæjar, Snæfellsbæjar, Eyja- og Miklaholtshrepps og Helgafellssveitar, útboð á sorphirðu og rekstri gámastöðvar á Snæfellsnesi. Útboðsgögn eru til sýnis og sölu hjá Ríkiskaupum í Borgartúni 7 og verða tilboðin opnuð á sama stað þann 30. ágúst nk. kl. 11 að viðstöddum þeim bjóðendum sem þess óska. Sjá auglýsingu hér.

Skúturnar komnar í var

Á vefsíðu Brokeyjar, Siglingaklúbbs Reykjavíkur, www.brokey.is er að finna frétt um að allar skúturnar, nema Kayam og Armor Crustaces, í Skippers D' Islande keppninni séu flúnar í var í höfnum í Keflavík og Grindavík vegna leiðindaveðurs. Einnig séu tvær skútur í Reykjavík, m.a. fjörtíufetari nr. 11 Azawakh III sem er með bilaða sjálfstýringu. Í fréttatímum í dag var einmitt greint frá því að skútuna hefði tekið niðri við Akurey þegar verið var að lóðsa hana frá skerjum á Kollafirði, þar sem hún hafði vikið af hefðbundinni siglingaleið. Skipstjórinn var einn á ferð.

Skúturnar kveðja

  Og Grundarfjörð gefst mér að lítaog grösuga Melrakkaeyog víkur og vogana hvítaog velbúin siglandi fley.   Getur verið að franskar fiskiskútur hafi verið á meðal þeirra fleyja sem Jónas J. Daníelsen orti um í Minni Eyrarsveitar á síðari hluta 19. aldar? Í það minnsta var það afar tilkomumikil sjón þegar skúturnar nítján lögðu af stað frá Grundarfirði í síðasta hluta leiðarinnar í siglingakeppninni Skippers d´Islande. Ferðinni er nú heitið beint aftur til Paimpol í Frakklandi og er áætlað að hún taki um 7-10 daga. Á fimm skútum af nítján eru skipstjórarnir einir í áhöfn, en það er sérstök raun sem þeir leggja á sig, að sigla einir í a.m.k. 1000 mílur og vinna sér inn stig til að öðlast þátttökurétt í öðrum keppnum.

Minni Eyrarsveitar

Jónas J. Daníelsen var fæddur að Kverná í Eyrarsveit 25. des. 1850. Jónas fluttist til Ameríku og saknaði ávalt heimaslóðanna eins og segir í formála lítils kvers sem Kvenfélagið Gleym mér ei gaf út árið 1933.Kverið inniheldur „Minni Eyrarsveitar“ sem eru 25 erindi. Til gamans eru hér birt tvö þeirra:   Og Grundarfjörð gefst mér að lítaog grösuga Melrakkaeyog víkur og vogana hvítaog velbúin siglandi fley.   Ó fögur er sveitin mín fríða, hinn fegursti blettur á grund, með grænar og grösugar hlíðarog glampandi voga og sund. 

Frá Gámastöð Grundarfjarðar

Borið hefur á því að viðskiptavinir gámastöðvarinnar séu að koma með rusl/sorp utan opnunartíma hennar, en það er ekki heimilt.  Viðskiptavinir eru vinsamlegast beðnir um að virða auglýstan opnunartíma. Opnunartími gámastöðvarinnar er sem hér segir. Mánudaga – föstudaga opið kl. 16:30 - 18:00 Laugardaga opið kl. 10:00 – 12:00. Lokað á sunnudögum.   Grundarfjarðarbær 

Nýr bæjarstjóri Grundarfjarðar

Guðmundur Ingi Gunnlaugsson   Guðmundur Ingi Gunnlaugsson fyrrverandi sveitarstjóri Rangárþings ytra verður bæjarstjóri í Grundarfirði.  Hann hefur starfað undanfarin sextán ár sem sveitarstjóri,  fyrst í tólf ár hjá Rangárvallahreppi og síðastliðin fjögur ár í nýju sameinuðu sveitarfélagi Rangárþingi ytra.  Guðmundur Ingi tekur til starfa 1. september næstkomandi.   

Minnisvarði um franska sjómenn reistur á Grundarkampi

Skólaskip franska sjóhersins gólettan L’Etoile lagðist að bryggju í Grundarfjarðarhöfn um miðjan dag í gær. Auk 30 manna áhafnar flutti skútan með sér steinkross sem reistur var með viðhöfn á Grundarkampi þar sem hinn forni Grundarfjarðarkaupstaður stóð. Krossinn, sem er gjöf frá Paimpol vinabæ Grundarfjarðar, er minnisvarði um franska sjómenn sem létust á Íslandsmiðum. Stendur hann þar sem franskir sjómenn reistu sér kirkju á sínum tíma, en hún var rifin er þeir héldu af landi brott. Franskir sjóliðar við minnisvarðann

Á góðri stund í Grundarfirði

Bæjarhátíð Grundarfjarðar verður haldin síðustu helgi í júlímánuði, dagana 28. – 30. Á hátíðinni verður að finna margar uppákomur sem hafa verið áður, og hefð er komin fyrir en einnig verður bryddað uppá nýjungum.   Bænum er skipt niður í fjögur hverfi sem hvert hefur fengið sinn lit til að skreyta. Gulur, rauður, grænn og blár eru litir Grundarfjarðar þessa helgi. Hugmyndaauðgi fólksins í Grundarfirði hefur engin takmörk og frumlegar skreytingar og skemmtilegar útfærslur mátti sjá hvarvetna í fyrra og verður eflaust engin breyting þar á í sumar.