Sorphirða

Íbúar Grundarfjarðarbæjar eru vinsamlegast beðnir um að moka vel frá sorptunnum til að auðvelda starfsmönnum aðgengi að þeim.   Mikilvægt er að íbúar reyni að liðka fyrir sorphirðu eins og kostur er. Ef ekki er unnt að komast að sorptunnu með þokkalegu móti er hætt við að ekki verði losað.  

Úrslit í ljósmyndasamkeppni Grundarfjarðarbæjar 2014

Í ár eins og síðustu ár hefur Grundarfjarðarbær staðið fyrir ljósmyndasamkeppni. Tilgangur keppninnar er að safna myndum til birtingar. Myndefnið í ár var „Fólk að störfum". Alls bárust 37 myndir frá 10 þátttakendum. Úrslit keppninnar voru tilkynnt á aðventudegi kvenfélagsins Gleym mér ei, þann 30. nóvember síðastliðinn. Eins og síðustu ár voru veitt peningaverðlaun fyrir þrjár bestu myndirnar. 50 þúsund fyrir fyrsta sætið. 30 þúsund fyrir annað sætið og 20 þúsund fyrir þriðja sætið.     Verðlaunahafar ársins 2014 eru: 1. sæti: Sunna Njálsdóttir 2. sæti: Sverrir Karlsson 3. sæti: Hrafnhildur Jónasdóttir  

Íþróttamaður ársins 2014

Tilkynnt var um kjör á íþróttamanni ársins 2014 við hátíðlega athöfn á árlegum aðventudegi kvenfélagsins Gleym mér ei, sunnudaginn 30. nóvember. Að þessu sinni voru fimm einstaklingar tilnefndir.     Aldís Ásgeirsdóttir: Blak Freydís Bjarnadóttir: Fótbolti Jón Bjarni Þorvarðarson: Hesteigendafélagið Pétur Vilberg Georgsson: Golf Unnsteinn Guðmundsson: Leirdúfuskotfimi (SKEET)  

Köttur í óskilum

Þessi köttur er í óskilum hjá Áhaldahúsinu. Hafa má samband við Valgeir í síma: 438-6423 eða 691-4343.        

Skipulagsverðlaunin veitt Svæðisskipulagi Snæfellsness

Svæðisskipulag Snæfellsness„Andi Snæfellsness - auðlind til sóknar” fékk, þann 26. nóvember, Skipulagsverðlaunin 2014. Það var stoltur og glaður hópur frá Snæfellsnesi sem kom saman í Ráðhúsi Reykjavíkur, til að taka við þessari viðurkenningu ásamt ráðgjafarfyrirtækinu Alta, sem veitti faglega ráðgjöf við skipulagsgerðina.   Verðlaunin eru veitt á tveggja ára fresti og í ár var dómnefnd skipuð af Skipulagsfræðingafélagi Íslands, Arkitektafélagi Íslands, Tæknifræðingafélagi Íslands, Verkfræðingafélagi Íslands, Félagi íslenskra landslagsarkitekta, Ferðamálastofu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.   Í ár var sérstök áhersla á skipulagsgerð í tengslum við ferðaþjónustu og samþættingu hennar við það byggða umhverfi og náttúru sem fyrir er. Einkum var skoðað hvernig faglega unnið skipulag gæti styrkt staðaranda og samfélög, til hagsbóta fyrir íbúa, ferðamenn og umhverfið.  

Frá Tónlistarskóla Grundarfjarðar

Verkfalli tónlistarkennara hefur verið aflétt. Kennsla hefst í dag, 25.nóv. Skólastjóri    

Áhugahópur um velferð ungs fólks á Snæfellsnesi

Áhugahópur um velferð ungs fólks á Snæfellsnesi heldur fræðslufundi dagana 24. -26. nóvember fyrir foreldra, forráðamenn og alla aðra sem koma að störfum með börnum og unglingum. Fundirnir verða haldnir í Snæfellsbæ, Félagsheimilið Klif, 24. nóvember kl. 20:00 , í Grundarfirði, FSN, 25. nóvember kl. 20:00 og í Stykkishólmi, Safnaðarheimilið Stykkishólmi, 26.nóvember kl. 20:00. 

Íbúð til leigu

Grundarfjarðarbær hefur til leigu 3ja herbergja íbúð í parhúsi. Íbúðin er 90 ferm. og er laus frá 15. desember nk.   Nánari upplýsingar eru veittar á bæjarskrifstofu í síma 430 8500 eða með því að senda tölvupóst á netfangið grundarfjordur@grundarfjordur.is   Umsóknarfrestur er til 30 nóvember 2014.   

Ræstingastarf – tvö störf

Grundarfjarðarbær óskar eftir að ráða sem fyrst starfsmenn til að sinna ræstingu á tveimur af húseignum bæjarins. Um er að ræða 20 klst. á mánuði í annarri eigninni en 26 klst. á mánuði í hinni. Vinnutími er sveigjanlegur. Sami einstaklingur getur sinnt báðum störfunum.   Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsness (SDS).   Nánari upplýsingar eru veittar á bæjarskrifstofu í síma 430 8500 eða á netfangi grundarfjordur@grundarfjordur.is   Umsóknarfrestur er til 30. nóvember nk.   Sækja um ræstingastarf  

Bókun bæjarráðs Grundarfjarðar vegna FSN

Á fundi bæjarráðs Grundarfjarðar 18. nóv. sl., var fjallað um málefni Fjölbrautaskóla Snæfellinga og fyrirhugaðan niðurskurð fjárveitinga til skólans í fjárlagafrumvarpi 2015.   Fundarmenn lýstu yfir miklum áhyggjum af þróun mála í þessum efnum. Alger samstaða var um það á fundinum að kalla eftir leiðréttingu á fjárveitingum til skólans þannig að unnt yrði að halda uppi sambærilegri kennslu í skólanum árið 2015, eins og verið hefur.   Svofelld bókun var samþykkt samhljóða í bæjaráði:   „Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2015 er gert ráð fyrir 18,4% niðurskurði á framlögum til Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Niðurskurðurinn er skýrður á grunni þess að ekki verði greitt rekstrarframlag vegna nemenda sem eru 25 ára og eldri og hið sama verði gert vegna nemenda sem stunda fjarnám.   Gangi þessar hugmyndir eftir er ljóst að það mun skaða námsframboð verulega og þar með gæði skólans. Fyrirhugaðar breytingar ógna stöðu sveitarfélaga á Snæfellsnesi og skerða lífsgæði íbúa.   Bæjarráð mótmælir harðlega þessum áformum ríkisstjórnarinnar. Gerð er sú krafa að niðurskurður þessi verði dreginn til baka svo unnt verði að reka skólann áfram í þeirri mynd sem verið hefur.“