Firmamót blakdeildar UMFG

Blakdeild UMFG heldur sitt árlega firmamót í íþróttahúsinu í dag, 28. desember, og hefst mótið kl. 17.30. Grundfirðingar eru hvattir til þess að mæta í stúkuna og taka þátt í fjörinu. Fimm lið eru skráð til leiks og er áætlað að mótið standi fram til kl. 22:00 í kvöld.  

Tveir nýir starfsmenn á bæjarskrifstofu

Í byrjun desember tók nýr skrifstofustjóri, Indriði Indriðason, til starfa á bæjarskrifstofu Grundarfjarðar. Indriði er viðskiptafræðingur og tók við starfinu af Birni Steinari Pálmasyni sem sinnt hefur starfinu síðan 1. maí 2003. Í dag, 28. desember, hóf Andrés B. Guðnason, viðskiptafræðingur, störf sem aðalbókari/ritari á bæjarskrifstofunni. Hann tekur við af Helgu Hjálmrós Bjarnadóttur sem sinnt hefur starfinu síðan í maí 2004 og lætur af störfum þann 1. mars nk. Þeir Indriði og Andrés eru boðnir velkomnir til starfa hjá Grundarfjarðarbæ.

Gleðileg jól!

Sendum Grundfirðingum öllum, nær og fjær, hugheilar óskir um gleðileg jól með von um farsæld og gæfu á komandi ári 2007. Um leið eru færðar þakkir fyrir samstarf og viðskipti á árinu sem er að líða.   Bæjarstjórn og starfsfólk Grundarfjarðarbæjar.  

Opnunartími gámastöðvar um hátíðirnar

Milli  jóla og nýárs verður hefðbundinn opnunartími á gámastöinni, þ.e. virka daga kl. 16.30-18.00 og laugardaga kl. 10.00-12.00. Lokað er á jóladag, annan í jólum og á nýársdag. 

Aðvörun!

Spáð er miklu hvassviðri í nótt og í fyrramálið. Ef spár ganga eftir má búast við að veðrið verði í hámarki um kl. 6 í fyrramálið (Þorláksmessu). Björgunarsveitin verður í viðbragðsstöðu í nótt og þar til veðrið gengur yfir.   Ef aðstoðar er þörf vegna veðursins er fólk beðið að hringja í Neyðarlínuna í síma 112.

Mannfjöldi 1. desember 2006

Hagstofa Íslands sendi frá sér í morgun frétt um mannfjölda 1. desember 2006. Heildarfjöldi íbúa í Grundarfirði var 954 þar af 462 konur og 492 karlar. Sjá nánar um mannfjölda á vef Hagstofu Íslands. Meðfylgjandi tafla sýnir þróun íbúafjölda á Snæfellsnesi sl. 10 ár.    

Jólatónleikar Tónlistarskólans

Jólatónleikar Tónlistarskóla Grundarfjarðar voru haldnir þann 14.desember sl. í sal skólans fyrir fullu húsi. Boðið var upp á heitt kakó og smákökur við kertaljós og notalega stemmningu. Í skólanum eru 115 nemendur og komu u.þ.b. 50 þeirra fram að þessu sinni. Efnisskráin var að mestu byggð á jólatónlist en inn á milli voru flutt lög úr ýmsum áttum.   Skólahljómsveit Tónlistarskóla Grundarfjarðar   Að lokum kom svo fram skólahljómsveit tónlistarskólans sem skipuð er eldri nemendum skólans og þeim sem lengra eru komnir í námi. Skólahljómsveitin var stofnuð sl. haust og hefur reglulegar æfingar einu sinni í viku.  Í haust og fram eftir vetri voru æfð lög úr ýmsum áttum sem síðar verða flutt en undanfarnar vikur hefur hljómsveitin undirbúið þá jóladagskrá sem flutt var á tónleikunum. Gjaldgengir meðlimir í skólahljómsveitina eru aðallega þeir sem þykja skara fram úr í tónlistarnámi, eru stundvísir og áreiðanlegir. Markmið sem allir nemendur skólans ættu að stefna að. Sjá fleiri myndir í myndabankanum með því að smella hér.   Skólastjóri  

Brautskráning í Fjölbrautaskóla Snæfellinga

Í gær, 20. desember, var í þriðja sinn brautskráning frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga. 10 nýstúdentar voru útskrifaðir og er heildarfjöldi útskrifaðra nemenda frá skólanum nú 18 stúdentar, en skólinn hefur aðeins starfað í tvö og hálft ár.   Fríður hópur útskriftarnema um jól 2006 búnir að setja upp húfurnar   Þær Oddný Assa Jóhannsdóttir og Ingibjörg Eyrún Bergvinsdóttir fengu verðlaun fyrir góðan námsárangur. Tveir nemendur úr þessum hóp, þau Ingibjörg Eyrún Bergvinsdóttir og Jón Óskar Ólafsson, hafa hlotið alla sína framhaldsskólamenntun á Snæfellsnesi og voru þeim færð blóm af því tilefni. Sjá fleiri myndir í myndabankanum með því að smella hér.

Jólin á Bókasafni Grundarfjarðar

Nú er hægt að skoða myndir af bókakostinum á vefsíðu bókasafnsins. Þar eru myndir af nýjum bókum, ársgömlum og ýmsum athyglisverðum safnkosti. Einnig hafa myndir af bókum á bókamarkaði verið settar á vefsíðu til að auðvelda fólki eða öðrum bókasöfnum að nálgast aukabækur. Munið eftir óvissujólabókapökkunum sem hægt er að sækja á bókasafnið eða fá sent heim fyrir jól og milli jóla og nýjárs. Sjá betur í Þey, vikublaði.

Spurning vikunnar.

Rétt svar við spurningu vikunnar er að kveikt er á kertunum á aðventukransinum í eftirfarandi röð: Spádómskertið, betlehemskertið, hirðakertið og síðast englakertið. 81 manns svöruðu spurningunni og voru 63 eða 77,8% með rétt svar.