Á góðri (söng)stund!

Tónlist mun leika stórt hlutverk á bæjarhátíðinni Á góðri stund í Grundarfirði. Söngsveitin Sex í Sveit verður með útgáfutónleika þar sem piltarnir flytja lög af nýja geisladisknum sínum Synir þjóðarinnar. Sylvía og Máni, grundfirsk ungmenni, halda tónleika í kirkjunni, en þau hafa fyrir löngu unnið hug og hjörtu Grundfirðinga með tónlist sinni. Friðrik Vignir Stefánsson tónlistarskólastjóri og kórstjóri er einn færasti organisti landsins. Hann mun hefja hátíðina í ár með tónleikum í Grundarfjarðarkirkju á fimmtudagskvöldinu. Allt er þetta heimafólk. Og að sjálfsögðu margt fleira, eins og t.d. söngvarar af yngri kynslóðinni.... fylgist með!

Sumarhátíð í Leikskólanum Sólvöllum

Föstudaginn 8. júlí, síðasta dag fyrir sumarfrí var hin árlega sumarhátíð haldin í Leikskólanum Sólvöllum. Nemendur leikskólans útbjuggu hatta og blóm til að skreyta með á sumarhátíðinni.  Að venju var farið í skrúðgöngu í Esso sjoppuna þar sem allir fengju  gefins ís.  Pylsur voru  grillaðar í hádeginu, en í ár var í fyrsta skipti frá því að byrjað var með þessa hátið að veður var vont þannig að pylsuveislan var inni á Drekadeildinni. Leikskólinn opnar aftur eftir sumarfrí miðvikudaginn 17. ágúst.

Skipulagsvinna framundan

Í kjölfar íbúaþings Grundfirðinga skipaði bæjarstjórn stýrihóp til að gera tillögur um hvernig unnið yrði úr niðurstöðum íbúaþingsins um skipulagsmál. Hópurinn hefur verið að störfum og m.a. rætt áherslur og forgangsröðun í skipulagsmálum.  

Hressar grundfirskar stelpur á kajak

Þann 6.júlí fóru 10 vaskar stelpur úr Grundarfirði ásamt hópstjórunum, Vigdísi og Þóru Möggu, inn í Stykkishólm til að læra að róa kajak. Hér var um að ræða hluta úr stelpuhópi sem myndaður var hér fyrr í sumar og stjórnað er af Þóru Möggu og Vigdísi Gunnarsdóttur. Hópurinn hittist einu sinni í viku og er markmiðið að rækta sitt innra sjálf, m.a. með því að takast á við óvænta og nýja hluti eins og kajakróður.  

Undirbúningur hverfahátíða í fullum gangi

Öll hverfin eru byrjuð að huga að skreytingum og skemmtiatriðum fyrir hverfahátíðina sem haldin verður laugardagskvöldið 23. júlí. Hverfin mynda svo skrúðgöngu frá sínu hátíðarsvæði niður á höfn þar sem að hverfahátíðin um ná hámarki. Hvert hverfi verður með um 10 mín. langt skemmtiatriði. Ert þú örugglega ekki að hjálpa til í þínu hverfi?  

Tilkynning frá vatnsveitu Grundarfjarðar

Lokað verður fyrir vatnsveitu í Sæbóli milli kl. 16 og 18 í dag, 8. júlí, vegna vinnu við tengingar.   Verkstjóri s: 691-4343  

Hnúfubakar inni á Grundarfirði

Rétt áðan (milli 17 og 18) sást til tveggja hvala inni á Grundarfirði. Sást til þeirra út undan Skarfakletti við Kirkjufell og lengra, nær landi, undan ströndinni við Kirkjufellsland. Það voru starfsmenn á netaverkstæði Guðmundar Runólfssonar hf. niðri við Nesveg, Páll Guðmundsson og fleiri, sem sáu gripina. Þó nokkur fjöldi fólks var kominn til að fylgjast með hvölunum. Runólfur Guðmundsson bróðir Páls fór út á Munda SH til að líta á hvalina sem hann sagði að væru þokkalega stórir hnúfubakar.   

"Of mikil" spretta?

Starfsfólk áhaldahúss Grundarfjarðarbæjar notaði veðurblíðuna í dag og sló gras í gríð og erg. Mikil og góð spretta er um þessar mundir sem kemur sér vafalaust vel fyrir bændur. Hjá bænum myndu menn vel una minni sprettu. Mestur tími starfsmanna fer í umhirðu grænna svæða, en verkefnin eru næg við að fegra og snyrta.      

Frá Vatnsveitunni

Vatnslaust verður við vestanverða Grundargötu (frá Snæþvotti) mili kl. 13 og 15 í dag vegna tenginga. 

Styttist í bæjarhátíð

Nú eru einungis 17 dagar þar til Grundfirðingar halda bæjarhátíð sína „Á góðri stund“. Hátíðarstjóri er Rósa Guðmundsdottir og er hún nú í óða önn að undirbúa og skipuleggja. Hægt er að hafa samband við Rósu í síma 869 2701  eða í tölvupósti: rosa@ragnarogasgeir.is