Frumkvöðull Vesturlands 2005 – skilafrestur nálgast

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi auglýstu fyrir nokkru eftir tilnefningum um einstaklinga sem eru þess verðir að hljóta sæmdarheitið frumkvöðull ársins 2005 á Vesturlandi.   Leitað er að einstaklingi sem hefur skarað fram úr í þróun nýrrar þjónustu, vöru eða viðburða í landshlutanum, í einstökum sveitarfélögum eða á stærra svæði s.s. á Vesturlandi.

Fasteign til sölu

Grundarfjarðarbær auglýsir til sölu fasteignina að Sæbóli 33-35, „blokkina“.   Bæjarstjórn óskar eftir tilboðum í húsið sem eina heild, þ.e. ekki er hægt að gera tilboð í eina eða fleiri íbúðir sérstaklega.

Dansklúbbur

Í janúar fór af stað dansklúbbur fyrir stelpur í 1.-4.bekk. Klúbburinn hittist 1x í viku í klukkutíma í senn. Alls skráðu sig 28 hressar stelpur í klúbbinn og tóku þátt í skemmtilegu starfi. Umsjónarmenn klúbbsins voru Kristbjörg og Sigurbjörg í 6.bekk og buðu þær upp á skemmtilega leiki, kenndu og sýndu dansa og ýmislegt fleira.

Frá UMFG

Ekkert páskafrí verður hjá UMFG. Æfingar verða í næstu viku mánudag, þriðjudag og miðvikudag. Ekki verða æfingar á skírdag, föstudaginn langa og á annan í páskum.

Hafnarframkvæmdir

Dýpkunarskipið Perlan hefur að undanförnu dælt upp sjávarefni undir fyrirstöðugarð vegna landfyllingar við stóru bryggju. Berglín ehf. úr Stykkishólmi bauð lægst í byggingu garðsins og er verkið hafið. Verklok garðsins eru í lok maí og landfyllingar í lok júní. Lóðir á landfyllingunni verða svo auglýstar lausar til umsóknar á næstu vikum.

Nýjungar á grundarfjordur.is

Nýjung á Grundarfjarðarvefnum er myndabanki. Í myndabankanum má sjá myndir frá hinum ýmsu viðburðum og framkvæmdum. Búið er að setja inn nokkrar möppur af myndum og eru fleiri væntanlegar á næstunni! Hlekkur á myndabankann er hér hægra meginn á síðunni undir „gaman að skoða“. Önnur nýjung á vefnum er sú að nú er hægt að nota leitarvél við að leita í fundargerðum eftir efnisorðum. Hægt er að afmarka leitina við ákveðnar nefndir og/eða tímabil.

Íbúar á Hjaltalínsholti athugið!

Vegna vatnsveituframkvæmda við nýjan botnlanga í Fellabrekku verður lokað fyrir umferð um Fellabrekku í dag.

Rétt svar við spurningu vikunnar

Skólaárið 1945-1946 var lögskipaður fastur skólatími í átta mánuði í Grafarnesi og skólastjóri ráðinn Elimar Tómasson.  Alls tóku 123 þátt í könnuninni þessa vikuna og voru 80 þeirra með rétt svar eða 65%.

Uppbygging gámastöðvar er hafin

Verkið var boðið út og samið við Kjartan Elíasson. Það felst í að byggja móttökustöð fyrir sorp, með tilheyrandi aðstöðu til móttöku, ,,römpum”, girðingu og frágangi öðrum. Verklok eru áætluð seinnipart júnímánaðar. Á meðan verður móttaka sorps staðsett á annarri lóð við hliðina, Hjallatúni 1.

Gróðursetning - skjólbelti

Bæjarstjórn samþykkti fyrir nokkru að ráðast í átaksverkefni við trjáræktun, þannig að gróðursett verður skjólbelti ofan byggðarinnar. Þetta er nokkurs konar ,,grænn kragi” til að skýla þéttbýlinu fyrir veðri og vindum í framtíðinni, þegar trén ná vexti. Skógræktarfélag Íslands tók að sér að gera áætlun um ræktun, staðsetningu, plöntuval og framkvæmd verkefnisins, sem líklega verður unnið í áföngum á nokkrum árum. Ætlunin er að hefja gróðursetningu og undirbúning í sumar.