Jólastemming Norska hússins Stykkishólmi

Í Norska húsinu er jólastemmingin allsráðandi og húsið hefur verið skreytt með jólaskrauti sem tengist liðnum jólum og er sannkallað ævintýri fyrir börn á öllum aldri.   Í Krambúð safnsins er jólakrambúðarstemming og boðið er upp á heitan epladrykk og piparkökur. Og væna flís af feitum sauð má hugsanlega nálgast í eldhúsinu.   Heimsókn í Norska húsið á aðventunni er ógleymanleg upplifun.   Norska húsið er opið alla aðventuna þriðjudaga til sunnudaga kl.  14.00-18.00 og auk þess á fimmtudagskvöldum kl. 20.00-22.00  

Kærleikskúlan 2006 í Norska húsinu í Stykkishólmi

Kærleikskúlan 2006 er komin út og verður fáanleg í Norska húsinu 5. – 19. desember nk. Norska húsið tók Kærleikskúluna til sölu fyrir jólin í fyrra og mun leggja Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra lið með sama hætti í ár.  

Kveikt á jólatrénu í miðbænum

Laugardaginn 2. desember kl. 18.00 verður kveikt á jólatré Grundfirðinga í miðbænum, við heilsugæsluna. Mætum öll og upplifum stemminguna í upphafi aðventunnar.   Foreldrafélag leikskólans Sólvalla hvetur foreldra til að mæta með börnum sínum og taka þátt í fjöldasöng .   Tökum daginn frá fyrir samveru fjölskyldunnar!  

Tónlist fyrir alla

Í gær, miðvikudaginn 29. nóvember, komu tónlistarmenn í heimsókn í til Grundarfjarðar og spiluðu í félagsmiðstöðinni Eden í tengslum við verkefnið „Tónlist fyrir alla“. Þar var fremstur í flokki Björn Thoroddsen. Fluttar voru útsetningar Björns á sálmum Martins Lúthers fyrir djasstríó, en tríóið skipa auk hans, þeir Jóhann Ásmundsson (Mezzoforte) á rafbassa og Benedikt Brynleifsson (Hljómsv. Björgvins Halldóssonar) á trommur og slagverk. Sýndir voru meistarataktar og höfðu bæði nemendur og starfsfólk grunnskólans mikið gaman af.  

Heimsókn slökkviliðsins í Grunnskóla Grundarfjarðar

3. bekkur Grunnskóla Grundarfjarðar   Hjá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutingamanna stendur nú yfir eldvarnarvikan 2006. Nemendur í 3. bekk um allt land fá heimsókn frá slökkviliðinu og kom slökkvilið Grundarfjarðar í heimsókn í grunnskólann sl. miðvikudag. Þar voru á ferð þau Gunnar Pétur Gunnarsson slökkviliðsstjóri og Guðrún Ósk Hrólfsdóttir.

Jólatónleikar Jöklakórsins

Frá æfingu Jöklakórsins í Stykkishólmkirkju sl. þriðjudag. Mynd Gunnlaugur Árnason.   Jöklakórinn sem í eru kórfélagar úr kirkjukórum, Ingjaldshóls, Ólafsvíkur, Grundarfjarðar og Stykkishólmsprestakalls heldur jólatónleika í tilefni þess að á þessu ári eru liðin 20 ár frá för Jöklakórsins til Jerúsalem um jólin 1986 sem og viðkomu í páfagarði. Fyrstu tónleikarnir verða í Ólafsvíkurkirkju mánudagskvöldið 4. des kl. 20.30 aðrir í Grundarfjarðarkirkju þriðjudaginn 5. des. á sama tíma og þeir síðustu í Stykkishólmskirkju á miðvikudagskvöldið 6. des. kl. 20.30. Á efnisskrá eru fjölbreytt og skemmtileg jólalög sem eiga að koma öllum í jólaskap.  

Kveldúlfur

Kvikmyndaklúbburinn Kveldúlfur í kvöld kl. 20.30. 

Rétt svar við spurningu vikunnar

Fyrsta fjölbýlishúsið í Grundarfirði var kallað Götuprýði. 184 tóku þátt að þessu sinni og voru 85 eða 46,2% með rétt svar. Götuprýði stóð við Nesveg 7 þar sem Mareind er til húsa núna. Nafnið er talið koma til vegna fjölbreytileikans í litavali á húsinu því fólk var ekki, á þessum tíma, að ráðgast við nágrannan um litaval.

Menningarráð Vesturlands

Elísabet Haraldsdóttir menningarfulltrúi Vesturlands verður til viðtals á bæjarskrifstofunni fimmtudaginn 30. nóvember 2006 kl. 17-18.   Kynntar verða úthlutunarreglur Menningarráðs Vesturlands vegna styrkja á árinu 2007 og veittar upplýsingar um fyrirkomulag umsókna.   Mögulegir umsækjendur eru hvattir til að nota þetta tækifæri til að viðra hugmyndir sínar og útfærslur við menningarfulltrúann.   Nánari upplýsingar á www.menningarviti.is  

Heimildarmyndirnar Á góðri stund

Heimildarmyndirnar um hátíðina Á góðri stund árin 2004-2006 verða til sölu á bæjarskrifstofunni til jóla og kosta aðeins 3.500 kr.   Myndirnar eru liðlega 3 klst. langar á tveimur DVD diskum og er tilvalin gjöf til vina og vandamanna.