Þriðjudaginn 5. maí n.k. hefjast útsendingar Svæðisútvarps Vesturlands og Vestfjarða á vegum Ríkisútvarpsins. Um langt skeið hefur verið haldið úti öflugum svæðisútsendingum á Norðurlandi, Austurlandi og Vestfjörðum. Ítrekað hafa komið fram óskir frá íbúum Vesturlands að njóta sömu þjónustu. Nú hefur verið ákveðið að verða við þessum óskum og koma á sameiginlegum svæðisútsendingum fyrir hluta Vesturlands og Vestfirði. Í fyrsta áfanga ná útsendingarnar yfir norðanvert Snæfellsnes, þar með talið þéttbýlisstaðina Rif, Hellissand, Ólafsvík, Grundarfjörð og Stykkishólm, og alla Dalasýslu. Í framhaldinu verður hugað að því að breyta útvarpssendum þannig að útsendingin náist á sunnanverðu Snæfellsnesi og í Borgarfirði.