Frá UMFG

Ekkert páskafrí verður hjá UMFG. Æfingar verða í næstu viku mánudag, þriðjudag og miðvikudag. Ekki verða æfingar á skírdag, föstudaginn langa og á annan í páskum.

Hafnarframkvæmdir

Dýpkunarskipið Perlan hefur að undanförnu dælt upp sjávarefni undir fyrirstöðugarð vegna landfyllingar við stóru bryggju. Berglín ehf. úr Stykkishólmi bauð lægst í byggingu garðsins og er verkið hafið. Verklok garðsins eru í lok maí og landfyllingar í lok júní. Lóðir á landfyllingunni verða svo auglýstar lausar til umsóknar á næstu vikum.

Nýjungar á grundarfjordur.is

Nýjung á Grundarfjarðarvefnum er myndabanki. Í myndabankanum má sjá myndir frá hinum ýmsu viðburðum og framkvæmdum. Búið er að setja inn nokkrar möppur af myndum og eru fleiri væntanlegar á næstunni! Hlekkur á myndabankann er hér hægra meginn á síðunni undir „gaman að skoða“. Önnur nýjung á vefnum er sú að nú er hægt að nota leitarvél við að leita í fundargerðum eftir efnisorðum. Hægt er að afmarka leitina við ákveðnar nefndir og/eða tímabil.

Íbúar á Hjaltalínsholti athugið!

Vegna vatnsveituframkvæmda við nýjan botnlanga í Fellabrekku verður lokað fyrir umferð um Fellabrekku í dag.

Rétt svar við spurningu vikunnar

Skólaárið 1945-1946 var lögskipaður fastur skólatími í átta mánuði í Grafarnesi og skólastjóri ráðinn Elimar Tómasson.  Alls tóku 123 þátt í könnuninni þessa vikuna og voru 80 þeirra með rétt svar eða 65%.

Uppbygging gámastöðvar er hafin

Verkið var boðið út og samið við Kjartan Elíasson. Það felst í að byggja móttökustöð fyrir sorp, með tilheyrandi aðstöðu til móttöku, ,,römpum”, girðingu og frágangi öðrum. Verklok eru áætluð seinnipart júnímánaðar. Á meðan verður móttaka sorps staðsett á annarri lóð við hliðina, Hjallatúni 1.

Gróðursetning - skjólbelti

Bæjarstjórn samþykkti fyrir nokkru að ráðast í átaksverkefni við trjáræktun, þannig að gróðursett verður skjólbelti ofan byggðarinnar. Þetta er nokkurs konar ,,grænn kragi” til að skýla þéttbýlinu fyrir veðri og vindum í framtíðinni, þegar trén ná vexti. Skógræktarfélag Íslands tók að sér að gera áætlun um ræktun, staðsetningu, plöntuval og framkvæmd verkefnisins, sem líklega verður unnið í áföngum á nokkrum árum. Ætlunin er að hefja gróðursetningu og undirbúning í sumar.  

Malbikunarframkvæmdir í ár

Í ár er ætlunin að verja um 30 millj. kr. í að leggja malbik á götur og lóðir í bænum, á eftirtöldum stöðum: Borgarbraut upp með grunnskóla, lóð við grunnskóla, íþróttahús og tónlistarskóla/félagsmiðstöð, á hinn nýja Ölkelduveg, efsta hluta Hrannarstígs og botnlangann að nýju íbúðum eldri borgara og efsta botnlangann í Fellasneið. Ennfremur verður farið í að lagfæra og bæta inní gangstéttar t.d. við Nesveg og neðst á Eyrarvegi. Að auki verður farið í að yfirleggja götur á nokkrum stöðum, þó þar verði fyrst og fremst um bráðabirgðalausn að ræða þar til hitaveituframkvæmdir eru afstaðnar.  

Stækkun leikskólans er á áætlun

Trésmiðja Guðmundar Friðrikssonar er verktaki í þeim framkvæmdum, sem á að vera lokið í júnílok n.k. Þann 1. apríl n.k. mun leikskólinn flytja starfsemi drekadeildar (eldri börnin) yfir í samkomuhúsið, þar sem verktaki mun nú taka til við innanhússbreytingar á eldri hluta húsnæðisins og tengingu þess við viðbygginguna.  

Ný dráttarvel í áhaldahús

Á dögunum keypti Grundarfjarðarbær nýja dráttarvél af gerðinni Kubota sem er 40 hestöfl. Vélin er búin sláttuvél ásamt hirðara, ýtutönn, o.fl. Vélin verður notuð til umhirðu grænna svæða og annarra verka á vegum áhaldahúss.    Jónas Bjarnason, verkstjóri í nýju vélinni