Rafrænt samfélag

Byggðastofnun hefur sent út til allra sveitarfélaga á landsbyggðinni verkefnislýsingu um framkvæmd og skipulag á samkeppni undir yfirskriftinni ,,Rafrænt samfélag”. Í inngangi lýsingarinnar segir m.a.;   ,,Á komandi árum mun þróun búsetu og atvinnulífs á landsbyggðinni að hluta byggjast á því hvernig einstaklingum og fyrirtækjum tekst að hagnýta sér þá möguleika sem felast í upplýsinga- og fjarskiptatækni. .... Meginhugmynd verkefnisins er að hrinda í framkvæmd metnaðarfullum aðgerðum sem hafa það að markmiði að auka nýsköpun í atvinnulífi og bæta afkomu íbúanna, auka menntun og menningarstarfsemi, bæta heilsugæslu og félagslegar aðstæður og efla lýðræðið...”  

Leikskólinn - Þorrablót

Það er þorrablót í leikskólanum í dag. Fyrst verður skemmtun þar sem börnin sýna leikrit og syngja og síðan verður boðið upp á þorramat. Auk foreldra leikskólabarna, er fyrsta bekk úr Grunnskólanum boðið á þorrablót leikskólans.  

Atvinnuráðgjöf Vesturlands í heimsóknum

Atvinnuráðgjöf Vesturlands er með kynningu í Grundarfirði í dag. Allir fjórir atvinnuráðgjafarnir verða á ferðinni og heimsækja fyrirtæki á staðnum og í kvöld verður opinn fundur á Hótel Framnesi um atvinnu- og byggðamál. Fundurinn hefst kl. 20.30 og mun Atvinnuráðgjöfin kynna starfsemi sína. 

Sjávarútvegsnefnd Alþingis - skelveiðar

Í morgun kl. 8.15 hélt sjávarútvegsnefnd Alþingis fund í Reykjavík um stöðu skelfiskveiða í Breiðafirði og rannsóknir á skelfiski.   Til upprifjunar má nefna eftirfarandi. Á fiskveiðiárinu 2000-2001 var úthlutað tæplega 1715 tonnum af hörpuskel til fyrirtækja/útgerða í Grundarfirði. Árið 2001-2002 var úthlutunin rúm 1393 tonn og árið 2002-2003 var úthlutunin komin niður í 857,4 tonn. Skerðingin á tveimur árum er skv. þessu 50%.  

Fundir sorpnefndar - íbúðir eldri borgara

Þessa dagana er fundað nokkuð stíft í sorpnefnd Grundarfjarðarbæjar, en það er sérstök starfsnefnd sem bæjarstjórn skipaði til að fjalla um breytingar í sorpmálum og rekstur málaflokksins.   Nefndin hefur verið að vinna að hönnun og fyrirkomulagi á sorpmóttökustöð en Erla Bryndís landslagsarkitekt hafði hannað stöðina og umhverfi hennar. Einnig hefur nefndin verið að leggja mikla vinnu í að undirbúa útboðsgögn og ræða tilhögun sorpútboðs sem ætlunin er að fram fari með vorinu. Sú vinna verður lögð fyrir bæjarstjórn til endanlegrar afgreiðslu þegar þar að kemur.  

Margt leynist á Grundfirskum heimasíðum

Það er margt fróðlegt að finna á Internetinu, m.a. heimasíður sem Grundfirðingar hafa búið til og halda úti.   Á heimasíðu Guðjóns Elissonar, www.gauiella.is, er kominn inn tengill þar sem er að finna loftmynd af þéttbýli Grundarfjarðar.   Á síðunni segir: ,,Sum heimilanna og fyrirtækjanna sem sjást á þessari mynd eru með heimasíður og eru þá viðkomandi hús á loftmyndinni einnig tenglar inn á þær heimasíður sem við á. Endilega sendið tölvupóst til Gaua ef þið Grundfirðingar eruð með heimasíðu sem ekki er með tengil á húsið ykkar og mun því kippt í lag. Vonandi fæst bráðlega nýrri loftmynd líka.”  

Eldgamlar fundargerðir - vegamál

Bæjarstjóri fékk í síðustu viku beiðni um að fletta upp á tilteknu atriði í gamalli fundargerðarbók hreppsnefndar Eyrarsveitar frá 1947. Var það gert og umbeðnar heimildir fundnar. Í leiðinni datt bæjarstjóri ofan í nokkrar fundargerðir í sömu bók, og eins og svo oft áður, er ekki hægt að hætta að lesa þennan fróðleik – og reyndar skemmtiefni – þegar byrjað er.  

Sögumiðstöð - áfangi - Blöðruskalli

Þann 14. janúar sl. kom verkefnisstjórn og starfsmaður þróunarverkefnis um Eyrbyggju – sögumiðstöð og sögugarð saman til fundar á bæjarskrifstofu, ásamt fulltrúa Atvinnuráðgjafar Vesturlands (ATSSV). Tilefnið var að nú er lokið tilteknum áfanga í vinnu við verkefnið og var lögð fram skýrsla sem Ingi Hans Jónsson starfsmaður verkefnisins hefur unnið um möguleika á stofnsetningu sögumiðstöðvar í Grundarfirði og sögugarðs á Grundarkampi, sjá nánar í bæjardagbók þann 22. október 2002. Verkefnið var styrkt af ATSSV og var Ólafur Sveinsson forstöðumaður ATSSV fulltrúi í verkefnisstjórninni, auk þess sem starfsmaður og verkefnisstjórn nutu dyggilegs stuðnings Ásthildar Sturludóttur ferðamálafulltrúa ATSSV. 

Bæjarstjórnarfundur - fjárhagsáætlun o.fl.

 Á janúarfundi bæjarstjórnar var í kvöld samþykkt fjárhagsáætlun ársins 2003 fyrir bæjarsjóð og fyrirtæki hans. Á næstunni verður sagt frá því hér í bæjardagbók hvað í áætluninni felst, í hvaða framkvæmdir eða fjárfestingar á að ráðast á árinu, o.s.frv.

Þverun Kolgrafarfjarðar

Mjög mikið er spurt um það hér í Grundarfirði hvað líði áformum um þverun Kolgrafarfjarðar.  Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar í síðustu viku er vinna við að útbúa útboðsgögn vegna framkvæmdarinnar nú á lokastigi.   Búið er að auglýsa verkið á EES-svæðinu, en það þarf að gerast með góðum fyrirvara.   Áform eru uppi um að tilboð verði opnuð í byrjun mars n.k., að verkið geti hafist í byrjun apríl en að verklok verði haustið 2005. Er það frávik frá fyrri áætlunum sem gerðu ráð fyrir verklokum 2004, en helgast af nauðsynlegum verktíma fyrir framkvæmdina.