Skemmtiferðaskip í Grundarfjarðarhöfn

Fimmtudaginn 19. júní blásum við til hátíðarstemmningar í Grundarfirði. Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins ,,Funchal” kemur að bryggju kl. 8.00, nær allir gestirnir eru franskir. Alls hafa sjö skemmtiferðaskip boðað komu sína í sumar og sérstakt átak var sett af stað í vetur til að fjölga komum þeirra á næstu árum.   Af hálfu Grundarfjarðarhafnar og fjölmargra annarra aðila er búið að leggja mikla undirbúningsvinnu í að taka vel á móti því fólki sem þarna er innanborðs. Það er ósk okkar að bæjarbúar leggi okkur lið við að hafa hér lifandi og skemmtilegt mannlíf og að við sýnum okkar bestu hliðar þennan dag.   Ferðafólk sem hingað kemur hefur haft á orði þegar spurt er hvað sé sérstakt við að koma til Grundarfjarðar, að hér sé upp til hópa glaðlegt fólk og bærinn sé einstaklega fallegur. Þessa ímynd bæjarins er vert að halda í. Það er m.a. hægt að gera með því að vera á röltinu um bæinn, heilsa gangandi fólki, sama hver það er, BROSA allan hringinn og vera vel sýnileg. Þetta gerum við reyndar alla daga ársins hér í Grundarfirði en gaman væri ef við vönduðum okkur sérstaklega þessa daga sem skipin eru hér við höfn.  

Stofnfundur

Mánudaginn 16. júní n.k. verður haldinn framhaldsstofnfundur Eyrbyggju -  sjálfseignarstofnunar um sögumiðstöð. Fundurinn verður haldinn í Krákunni og hefst hann kl. 20.00. Allir eru boðnir velkomnir, ekki síst þeir sem samþykkt hafa að gerast stofnaðilar eða óska eftir því.  

Ýmislegt um að vera

Fjölbrautaskólinn – hugmyndir unglinganna   Í dag funda ungmenni af öllu Snæfellsnesi og leggja á ráðin um hvernig þau vilja sjá Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Á fundi í Stykkishólmi, sem stendur yfir í allan dag og fram á kvöld, ætla þau að setja saman sínar hugmyndir um hvernig þau vilji t.d. sjá félagslíf og aðstöðu í væntanlegum skóla. Fundinum stýrir bandaríski sérfræðingurinn Susan Stuebing sem ráðin var til að aðstoða við undirbúning skólans. Hún leggur upp ýmsar spurningar og lætur fundarmenn gjarnan fara á hugarflug og sjá fyrir sér hvernig þeir vilja hafa hlutina, n.k. hugarflug en með því þó að safna hugmyndum ólíkra aðila saman í heildarmynd. Um kvöldmatarleytið er pizza-veisla og unglingarnir munu gera fulltrúum bæjarfélaganna allra og fulltrúum foreldra frá stöðunum grein fyrir vinnu sinni.  

Fyrsta skóflustungan að íbúðum eldri borgara

Í dag kl. 11.30 var tekin fyrsta skóflustungan að 7 íbúðum fyrir eldri borgara, fyrir ofan Dvalarheimilið Fellaskjól efst við Hrannarstíg.   Forsaga málsins er sú að haustið 2001 lét sveitarstjórn fara fram húsnæðiskönnun meðal íbúa 60 ára og eldri. Góð svörun varð í könnuninni og kom m.a. fram að margir vildu minnka við sig húsnæði á næstu árum, flestir höfðu áhuga á að flytjast í raðhús m/litlum bílskúr – nálægt þeim kjarna sem nú er fyrir á svæðinu efst við Hrannarstíg (dvalarheimili og 8 íbúðir eldri borgara að Hrannarstíg 18). Í framhaldi af því var ákveðið að kanna möguleika á byggingu íbúða fyrir eldri borgara og var ákveðið að ráðast í hönnun og byggingu íbúða.

Starfsmaður vikunnar

Sveinn Bárðarson starfsmaður vikunnar í áhaldahúsi   Eins og áður hefur verið kynnt hér á heimasíðunni og í Vikublaðinu Þey, þá var starfsemi vinnuskóla og sumarvinna ungs fólks tekin til sérstakrar skoðunar af bæjarráði í vor og m.a. skerpt á markmiðum bæjarins í starfsmannahaldi sumarfólks og þjónustu fyrir sumarið. Eitt af markmiðunum var að gera starfsemina skilvirkari og auka og kenna mikilvægi aga og góðra vinnubragða, auk þess að beita hvatningaraðferðum.   Vinnureglur voru settar fyrir sumarstarfsmenn, en í sumar voru ráðnir 6 starfsmenn í sumarvinnu og ca. 16 starfsmenn, 16 - 17 ára, fá að auki vinnu hluta sumarsins. Þannig eru alltaf um 8-9 manns í vinnu í sumar.   

Skólaslit og 350 milljónir

Skólaslit Grunnskóla Grundarfjarðar Í dag, fimmtudaginn 5. júní 2003, verða skólaslit Grunnskóla Grundarfjarðar skólaárið 2002-2003. Athöfnin fer fram í íþróttahúsinu og hefst kl. 18.00.     350 milljónir hjá Byggðastofnun Á fundi ríkisstjórnar Íslands þann 11. febrúar 2003 var ákveðið að verja 700 milljónum króna til atvinnuþróunarverkefna á landsbyggðinni. Þar af var Byggðastofnun falið að annast úthlutun á 500 milljónum króna. Stofnunin hefur auglýst fyrsta áfanga verkefnisins, en þar verður 350 milljónum króna varið til kaupa á hlutafé í sprotafyrirtækjum og nýsköpunarfyrirtækjum í skýrum vexti.

Sumarstarfsemi - grein í Þey 5.6.2003

Um sumarstarfsemi á vegum áhaldahúss Grundarfjarðarbæjar   Undanfarin ár hefur sveitarfélagið rekið umfangsmikla starfsemi á sumrin, annars vegar með vinnuskólanum og hinsvegar með ráðningu starfsmanna í sumarstörf á vegum áhaldahússins.   Reynslan frá síðasta sumri með vinnuskóla og sumarstarfsmenn var ekki alveg sem skyldi. Mikil pressa var sett á bæjaryfirvöld að ráða ungmenni til starfa, þrátt fyrir að ljóst væri að fjöldi starfsmanna væri umfram verkefni sem fyrir hendi voru. Margt annað spilaði líka inn í. 

44. Stjórnarfundur

44. stjórnarfundar Eyrbyggja 3. júní 2003  kl 20:00 hjá Frostmarki í Kópavogi.   Viðstaddir: Ásthildur Elva Kristjánsdóttir, Gísli Karel Halldórsson, Orri Árnason, Guðlaugur Þór Pálsson, Elínbjörg Kristjánsdóttir, Hrafnhildur Pálsdóttir, Freyja Bergsveinsdóttir (gestur, grafiskur hönnuður Eyrbyggja).  

Sögumiðstöð - erindi til fyrirtækja og einstaklinga

Sögumiðstöð – einstakt tækifæri   Þann 16. maí sl. sendi undirbúningsnefnd vegna stofnunar sögumiðstöðvar erindi til 102ja fyrirtækja, rekstraraðila og félagasamtaka, aðallega í Grundarfirði. Þar var gefinn kostur á að taka þátt í uppbyggingu sögumiðstöðvar, samfélagslegu verkefni, sem hlotið hefur víðtæka kynningu að undanförnu.   Óskað var eftir svörum fyrir 25. maí og vill undirbúningsnefnd þakka þeim aðilum kærlega fyrir sem þegar hafa svarað. Enn vantar þó töluvert af svörum og á næstu dögum mun undirbúningsnefnd hringja/láta hringja í þá aðila sem ekki hafa svarað.  

Deiliskipulag hafnarsvæðis

Sl. vetur hefur verið unnið að nýju deiliskipulagi fyrir hafnarsvæðið og næsta nágrenni. Erla Bryndís Kristjánsdóttir landslagsarkitekt hefur unnið tillögur sem samþykktar voru með einstaka athugsemdum í hafnarstjórn og umhverfisnefnd (skipulagsnefnd) þann 21. maí og í bæjarstjórn nú í kvöld, Nánar tiltekið þá samþykkti bæjarstjórnin að leggja tillöguna fram til kynningar fyrir íbúum og leita umsagnar lögskyldra aðila.