Gámastöðin

Gámastöðin er opin í dag frá 16:30 til 18:00. Lokað laugardag, sunnudag og mánudag. 

Skemmtiferðaskip

Skemmtiferðaskipið Ocean Monarc kemur til hafnar hér í Grundarfirði í dag. Þetta er seinni koma skipsins, en það kom hingað þriðjudaginn 8.júlí sl. Skipið er mjög stórt og getur því ekki lagst upp að bryggju og því verða farþegar þess ferjaðir í land. Stoppið verður frekar stutt, en áætlaður komutími er kl. 12:00 og brottför kl. 19:00. Í tilefni komunnar verður knattspyrnuleikur á milli áhafnarinnar og liðs Grundfirðinga kl. 15:00.   Á sunnudaginn kemur til hafnar skemmtiferðaskiptið Hanseatic. Farþegar og áhöfn verða hvött til að taka þátt í dagskrá dagsins.  

Á góðri stund í Grundarfirði

Hátíðin “Á góðri stund í Grundarfirði” hefst í dag með afmælisdagskrá Bókasafns Grundarfjarðar kl: 15:00 í húsnæði bókasafnsins að Borgarbraut 16. Upplýsingar um þá dagskrá má sjá í bæjardagbókinni sl. mánudag.   Hin árlega grillveisla við Verslunina Tanga hefst kl: 16:00 og þar verður fjölbreytt skemmtidagskrá ásamt því sem gestir fá að gæða sér á ýmsum kræsingum.   Upplýsingar um helstu viðburði má nálgast á heimasíðu Grundarfjarðar.   Dagskrá hátíðarinnar verður seld við þjóðveginn inn í bæinn. Einnig verður hægt að nálgast hana  hjá Versluninni Tanga og í sölutjaldi Ungmennafélagsins á hafnarsvæðinu. 

Eyrbyggja - Sögumiðstöð

Á næstkomandi föstudagkvöld verðurBæringsstofa, fyrsti áfanga Eyrbyggju – Sögumiðstöðvar í Grundarfirði, að Grundargötu 35, formlega opnuð og eru gestir Á góðri stund velkomnir að líta inn og hlýða á fjölbreytta dagskrá um helgina.   Bæringsstofaverður fullkominn ráðstefnu- og bíósalur þar sem gert er ráð fyrir að sýna ljósmyndir Bærings Cecilssonar og annarra á tjaldi, auk kvikmynda í náinni framtíð. Salurinn er búinn nýjustu tækni til þessara hluta. Í salnum verða sæti fyrir um 40 gesti í upphækkuðum bíóstólum.  

Dagskrá - Á góðri stund

Spurst hefur verið fyrir um þá ákvörðun að bjóða dagskrá hátíðarinnar til sölu í stað ókeypis dreifingar eins og áður.   Þegar staðið er fyrir hátið sem þessari fellur ýmiss kostnaður til. Tekna þarf að afla með stykjum frá sveitarfélaginu, fyrirtækjum, álagningu á aðgöngumiða viðburða og beint frá gestum með sölu á vöru og þjónustu.   Bæjarbúar eru hvattir til að leggja sitt af mörkum við fjármögnun hátíðarinnar með því að taka vel á móti ungu sölufólki frá sunddeild Ungmennafélagsins og styðja í leiðinni þeirra starf með kaupum á dagskrá hátíðarinnar.   Eyþór Björnsson bæjarstjóri  

Bókasafn Grundarfjarðar 80 ára

Í tilefni af áttatíu ára afmæli Bókasafns Grundarfjarðar er gestum hátíðarinnar Á góðri stund velkomið að skoða safnið föstudaginn 25. júlí n.k. Kynna sér sögu þess og skoða útsýnið af svölum hússins sem sagt er vera eitt hið fegursta úr nokkru húsi í Grundarfirði. Ennfremur mun Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla taka við munum úr búi sr. Jens Hjaltalín til varðveislu. Athöfnin hefst kl. 15:00. 

Hreinsunarátak

Nú fer í hönd hátíðin ,,Á góðri stund í Grundarfirði” og eru því bæjarbúar hvattir til þess að taka til á lóðum sínum og koma rusli til gámastöðvarinnar. Helgina 19. og 20. júlí verður gámastöðin með lengri opnunartíma.   Laugardagurinn 19. júlí verður opið frá 10:00 til 17:00 Sunnudagurinn 20. júlí  verður opið frá 13:00 til 17:00   Eigendur númerslausra eða umhirðulausra bíla eru beðnir um að fjarlægja þá hið fyrsta svo ekki þurfi að koma til frekari aðgerða.   Notum þetta tækifæri til að taka til í kringum okkur!  

45. Stjórnarfundur

45. stjórnarfundar Eyrbyggja 9. júlí 2003  kl 20:00 Malarási 10 Reykjavík.   Viðstaddir: Elínbjörg Kristjánsdóttir, Gísli Karel Halldórsson, Guðlaugur Þór Pálsson, Hermann Jóhannesson, Orri Árnason.  

Starfsmaður vikunnar í áhaldahúsi

Starfsmaður vikunnar að þessu sinni, valin af samstarfsmönnum, er Hulda Magnúsdóttir. Hulda er 18 ára gömul og er nemandi í Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi.   Við þökkum Huldu fyrir vel unnin störf og óskum henni til hamingju með titilinn!!    

Skemmtiferðaskip í Grundarfjarðarhöfn á morgun, 8. júlí

Skemmtiferðaskipið Ocean Monarc kemur til hafnar hér í Grundarfirði á morgun. Þetta er fyrri koma skipsins, en það kemur aftur föstudaginn 25.júlí, við upphaf hátíðarinnar ,,Á góðri stund í Grundarfirði”. Skipið er mjög stórt og getur því ekki lagst upp að bryggju og því verða farþegar þess ferjaðir í land. Stoppið verður frekar stutt, en áætlaður komutími er kl. 08:00 og brottför kl. 13:30.   Sjá frekari upplýsingar um komur skemmtiferðaskipa í sumar hér