Skippers d´Islande siglingakeppni 2006

Þann 4. október sl. komu þrír Frakkar í heimsókn til Grundarfjarðar. Þau eru skipuleggjendur siglingakeppninnar Skippers D’Islande sem farin verður í júní-júlí á næsta ári. Heimsókn Frakkanna var liður í undirbúningi keppninnar og voru skoðaðar aðstæður í Grundarfjarðarhöfn og -bæ. Siglingakeppnin hefst í Primpol í Frakklandi, vinabæ Grundarfjarðar, þann 24. júní nk. Siglt verður um 1.210 mílna leið til Reykjavíkur og þaðan haldið til Grundarfjarðar.

Gamla löggustöðin rifin

Eitt af eldri húsum bæjarins mun á næstunni hverfa úr miðbænum, þ.e. Grundargata 33. Það er gamla löggustöðin, þar sem Gallerí Grúsk hafði síðast aðstöðu. Olíufélagið Esso og verslun Ragnars Kristjánssonar voru á sínum tíma í húsinu, sem var byggt árið 1945 skv. upplýsingum Fasteignamats ríkisins. Nú stendur til að rífa húsið og voru tilboð opnuð í rif og hreinsun á húsinu, föstudaginn 30.09 sl. Þrír verktakar buðu í verkið en það voru Vélaleiga Kjartans, Dodds ehf. og Rávík ehf. Rávík ehf. átti lægsta boð og var ákveðið að taka því. 

Á kjörskrá 8. október n.k.

Þann 8. október n.k. verður gengið til kosninga um sameiningu fimm sveitarfélaga á Snæfellsnesi. Þau eru Snæfellsbær, Stykkishólmsbær, Grundarfjarðarbær, Eyja- og Miklaholtshreppur og Helgafellssveit.                       Á kjörskrá í sveitarfélögunum fimm á Snæfellsnesi eru samtals 2.677 íbúar, 1393 karlar og 1.284 konur. Í Grundarfjarðarbæ eru 635 einstaklingar á kjörskrá, eða tæp 24% kjósenda, 338 karlar og 297 konur.  

Stofnun visthóps(hópa)

 Grundarfjarðarbær auglýsir eftir áhugasömum aðilum til að taka þátt í visthópi/hópum undir merkjum Vistvernd í verki. Um er að ræða framkvæmd á markmiðum bæjarins í áætlun skv. Staðardagskrá 21. Með þátttöku í verkefninu Vistvernd í verki lærist hvernig hægt er að taka upp vistvænni lífsstíl með ýmsum einföldum breytingum á daglegu lífi, án þess að dregið sé úr lífsgæðum.

Íbúafjölgun í Grundarfirði

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands voru 964 íbúar í Grundarfirði 1. október sl. Þann 1. desember í fyrra voru skráðir íbúar 938. Það sem af er árinu eru 7 börn fædd í Grundarfirði og eru því aðfluttir umfram brottflutta 19 manns. Heildarfjölgun á fyrstu níu mánuðum ársins er 26 íbúar.

Hópleikur UMFG-getrauna heldur áfram

Hópleikurinn hélt áfram  þessa helgi og var laugardagurinn jafnframt síðasti dagurinn til að skrá sig í leikinn. Það eru því 11 hópar sem keppa til loka tímabilsins. Gaman er að skoða frá hvaða stöðum í bænum einstaklingarnir koma sem mynda hópana. Sjáum hér til gamans hvar einstaklingarnir búa.  

Framlagning kjörskrár

Kjörskrá vegna sameiningarkosninganna sem fram fara 8. október nk. hefur verið yfirfarin og staðfest af bæjarráði. Kjörskrá liggur frammi á bæjarskrifstofunni, almenningi til sýnis til kjördags á opnunartíma skrifstofunnar, kl. 9.30-12.15 og 13.00-15.30. Athugasemdum við kjörskrá má koma á framfæri í samræmi við lög um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998.

Borholudæling á Berserkseyri gengur vel

Orkuveita Reykjavíkur er að prufudæla borholuna á Berserkseyri. Dælan er staðsett á 120 metra dýpi og er vatnsborðið í holunni á 60 metra dýpi. Dælingin gengur vel og er rennslið 28-30 lítrar á sekúndu. Hitastig er stöðugt í tæplega 80° c. Talsverð leiðni er í vatninu sem bendir til þess að vatnið sé salt.

Komu blóðbankabílsins frestað vegna veðurs

Áður auglýstri komu blóðbankabílsins til Grundarfjarðar miðvikudaginn 28. september verður frestað um eina viku vegna veðurs. Bíllinn verður því við Esso í Grundarfirði miðvikudaginn 5. október nk. frá kl. 10:00-13:00

Blóðbankabíllinn í Grundarfirði

Blóðbankabíllinn verður við Essó í Grundarfirði miðvikudaginn 28. september nk. frá kl. 10:00-13:00.   Allir velkomnir