Hópleikur UMFG-getrauna.

Nú um helgina hófst Hópleikur UMFG-getrauna sem er getraunaleikur um enska boltann, og er alveg óháður sölukerfi íslenskra getrauna. Hann er þannig að það eru myndaðir hópar sem tippa á úrslit leikja á getraunaseðli hverrar helgar þ.e. á laugardögum. Hver hópur saman stendur af tveimur einstaklingum sem gefa sínum hóp nafn og tippa á 6 tvítryggða leiki og 7  einfalda.  Stig ákvarðast af fjölda réttra leikja á getraunaseðlinum t.d. 6 leikir réttir eru 6 stig.  

Fjölda byggingarlóða úthlutað

Grundarfjarðarbær hefur á undanförnum vikum úthlutað fjölda lóða til byggingar íbúðarhúsnæðis. Eftirspurn eftir húsnæði hefur enda verið mikil og viðvarandi síðustu mánuði og margir sem sækjast eftir að flytja til staðarins. Nær allt íbúðarhúsnæði sem til sölu hefur verið hefur selst og dæmin sýna að ef hús hefur komið á söluskrá þá hefur ekki þurft að bíða marga daga eftir að það seldist.  

Prufudæling hafin úr hitaveituholu við Berserkseyri

Um klukkan 14 í dag hófst dæling úr hitaveituholunni við Berserkseyri. Gert er ráð fyrir að prufudæling standi í nokkra mánuði.   Fyrsti klukkutíminn lofar góðu þar sem holan tók vel í að dælt væri upp úr henni. Meðfylgjandi eru myndir.

Zeppelin teiknar fyrir Grundarfjarðarbæ

Á fundi bæjarstjórnar þann 15. september sl. var bæjarstjóra falið umboð til að ganga til samninga við arkitektastofuna Zeppelin í Garðabæ um skipulagsverkefni fyrir bæinn. Eigandi Zeppelin er Orri Árnason arkitekt sem þekkir vel til aðstæðna í Grundarfirði, enda uppalinn hér. Um er að ræða umfangsmikil verkefni við deiliskipulagningu og tilteknar breytingar á gildandi aðalskipulagi.

OR leggur hitaveitu og kaupir vatnsveitu Grundarfjarðar

Orkuveita Reykjavíkur hefur keypt vatnsveitu Grundarfjarðar og mun leggja hitaveitu í bænum á næsta ári. Orkuveitan mun taka við rekstri vatnsveitunnar um næstu áramót, en taka þegar við verkefnum sem varða byggingu hitaveitunnar, sem verið hefur í undirbúningi.  Áætlað er að húsahitunarkostnaður hér í Grundarfirði lækki um 40 – 50% að meðaltali,  en hér er nú hitað með rafmagni.  

Hverfisvæn leið

Í dag var hafist handa við að steypa kantsteina við Grundargötu. Kantsteinarnir eru hluti af hverfisvænni leið sem Vegagerðin bauð út sl. vor og kynnt hefur verið fyrir bæjarbúum. Dodds ehf. sér um verkið en Bæjarverk frá Akureyri sér um að steypa kantsteinana. Byrjað var við austanverða Grundargötu og er áætlað að lokið verði við að steypa kantsteina seinni part vikunnar.

Rökkurdagar 2005

Rósa Guðmundsdóttir, nýráðinn framkvæmdastjóri menningarhátíðarinnar Rökkurdaga, hefur hafið störf og er skipulagning Rökkurdaga komin á fullt skrið. Grundfirðingar hafa tekið vel í og þegar hafa nokkrir menningaratburðir verið skráðir í dagskrá Rökkurdaga.  

Opnun tilboða í sérleyfi og skólaakstur

Í gær, 15. september, voru opnuð hjá Ríkiskaupum tilboð í áætlunarakstur á sérleyfisleiðum á tilteknum þjónustusvæðum á landinu, boðið út fyrir hönd Vegagerðarinnar, og í skólaakstur m.a. fyrir Fjölbrautaskóla Snæfellinga á árunum 2006-8. Hægt er að finna fundargerð opnunarfundar á vef Ríkiskaupa með því að smella hér.    

Framkvæmdarstjóri ráðinn fyrir Rökkurdaga 2005

Rósa Guðmundsdóttir hefur verið ráðin til að skipuleggja menningarhátíðina Rökkurdaga sem haldin verður í lok október byrjun nóvember næst komandi.  

59. bæjarstjórnarfundur

Fyrsti fundur bæjarstjórnar eftir sumarleyfi verður haldinn, 15. september kl. 17.00 í samkomuhúsinu. Á dagskrá eru m.a. fundargerðir nefnda og ráða, rekstraryfirlit, kynningarbæklingur og skipan kjörnefndar vegna sameiningarkosninga 8. október n.k., tillaga um val á arkitektastofu til að taka að sér skipulagsverkefni, umræða um veitumálefni og kl. 18 á fundinum verður kynning á drögum að aðalskipulagi dreifbýlis. Fundurinn er öllum opinn.   Bæjarstjóri