Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson, desember 2021.
Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson, desember 2021.

Kæru íbúar og aðrir lesendur! 

Gleðilegt nýtt ár og þakkir fyrir samstarf og samfylgd á árinu 2021! 

Nýliðið ár var ár lærdóms, þrautseigju og samstöðu. En líka tími vel þeginna og kærkominna samveru- og gleðistunda.

Lærdómur ársins snýr ekki síst að daglegu lífi, stjórnun og starfsemi á tímum fjölda Covid-smita í bænum okkar. Öll erum við að takast á við áður óþekktar aðstæður, heimsfaraldur sem lætur hafa fyrir sér. Við Grundfirðingar fengum tvo smitskelli í nóvember og um fjórðungur bæjarbúa lenti þá í einangrun og sóttkví. Það er lærdómur að þurfa að skipta upp fjölskyldunni sinni, annast ástvini og félaga í einangrun og jafnvel veikindum og það er líka lærdómur að láta á móti sér hluti í daglegu lífi, sem okkur finnast annars svo sjálfsagðir. Ástandið hafði umtalsverð áhrif á starfsemi hjá fyrirtækjum og á starf skólastofnana, auk þess að hafa, því miður, slæmar afleiðingar fyrir heilsufar sumra. 

Verkefnið sem við héldum fyrst að yrði spretthlaup hefur teygt sig í að verða ekki bara maraþon heldur ofurhlaup, sem reynir verulega á þol okkar og úthald. Við höfum klárlega sýnt þrautseigju, sem er mikilvægur eiginleiki, og höldum því áfram, þó við vildum gjarnan fara að fá “eðlilegt ástand” aftur. Það er hins vegar gott að minna sig á að á Íslandi njótum við þess að búa við aðstæður sem milljónir jarðarbúa myndu gefa allt fyrir að hafa; öruggt samfélag og góða grunnþjónustu, víðáttu og náttúru til að leita í, heilnæmt umhverfi og stuðning samfélags þegar á reynir. 

Þegar litið er yfir árið finnst mér ekki mega gleyma góðu stundunum. Bæði er það svo að margt gott gafst á árinu vegna aðstæðna, t.d. aðgengi að menningu og viðburðum, sem við hefðum annars ekki notið. Og eins held ég að við höfum mörg hver lært betur að meta frelsið og samverustundir (milli takmarkana!)

Ég færi starfsfólki Grundarfjarðarbæjar bestu þakkir fyrir vel unnin störf á álagstímum - það reyndi sannarlega á frumkvæði og seiglu við lausn ýmissa mála. Ég vil hrósa íbúum, stjórnendum fyrirtækja og stofnana og ekki síst öllum þeim sem standa vaktina og veita okkur þjónustu á tímum sem þessum. Samstaða og hjálpsemi bæjarbúa, ekki síst gegnum þetta álagstímabil, finnst mér einmitt standa upp úr á árinu. Meðal kjörinna fulltrúa í bæjarstjórn er ennfremur mjög góð samstaða og samstarf um málefni bæjarins. Samstaðan er klárlega mikill styrkur, þegar gefur á bátinn. 

 ---

Eftirfarandi er yfirferð um starfsemi og framkvæmdir hjá Grundarfjarðarbæ á liðnu ári - smellið á myndir til að stækka þær og lesa viðeigandi texta. 

---

SKÓLASTARF 

Í nóvember þurftu skólarnir að loka vegna Covid-smita. Leikskólinn tvívegis, samtals í átta daga, og grunnskólinn í fimm daga samfleytt síðari hluta nóvember. Það er í mörg horn að líta hvað varðar skipulagningu, ákvarðanir, smitrakningu, upplýsingagjöf í skólastarfinu - til foreldra, nemenda, starfsfólks og annarra. Óhætt er að segja að það reyndi sérstaklega á skólastjórana gegnum þessi tímabil, en þau leystu sín verkefni af hendi af miklu öryggi, jákvæðni og seiglu.  

- Grunnskóli Grundarfjarðar, leikskóladeildin Eldhamrar, heilsdagsskóli  

Skólinn er þátttakandi í Erasmus+ verkefni sem hélt áfram í haust eftir nokkurt hlé. Skólastjóri og tveir kennarar skólans fóru til Póllands í nóvember vegna þátttöku í verkefninu og væntanlegir eru gestir frá fjórum löndum til skólans í byrjun mars 2022.  

Unglingastigið gekk yfir Kerlingarskarðið í grenjandi rigningu, hélt kvöldvöku og gisti að Skildi, Helgafellssveit, þar sem þau tóku lærdómstörn meðan verið var að dúkleggja í grunnskólanum í lok október. Aðrir nemendur fengu aðstöðu í FSN, safnaðarheimili og Sögumiðstöðinni í nokkra daga og úr varð skemmtilegt uppbrot í skólastarfinu. 

Barnakór tók til starfa á árinu í umsjón Grétu Sigurðardóttur, sem er kennaranemi og leiðbeinandi við grunnskólann. Kórinn og nemendur grunnskólans gáfu út jólalag og fallega flutta kveðju rétt fyrir jólafrí skólans í desember sl. Hér má horfa og hlusta á það. 

Leikskóladeildin Eldhamrar fyrir fimm ára börn er rekin í húsnæði og undir stjórn grunnskóla. Þau eru dugleg í útinámi og heldur deildin úti skemmtilegri Instagramsíðu þar sem hægt er að fylgjast með afar fjölbreyttu skólastarfi. 

Fleiri fréttir má lesa hér á vef grunnskólans.

- Leikskólinn Sólvellir 

Skólastarfið hefur litast mikið af Covid. Haldið var uppá hefðbundna tyllidaga í leikskólanum, þó flestir væru þeir án aðkomu foreldra og annarra gesta vegna aðstæðna. Á nýju ári er haldið áfram með að þróa starfið með sérstakri áherslu á málörvun og námsumhverfið.

Þann 8. október var sameiginlegur starfsdagur leikskólanna á Snæfellsnesi þar sem fjallað var um leik barna og hlutverk kennarans. Barnavernd var einnig tekin fyrir sl. haust, eins og svo oft áður, en mikilvægt er að starfsfólk fái fræðslu um hana. 

Leikskólinn tekur þátt í verkefninu "Eigið eldvarnaeftirlit" eins og aðrar stofnanir Grundarfjarðarbæjar. Starfsfólk fékk "skrifborðsæfingu" (brunavarnir) með slökkviliðsstjóra og aðstoðarslökkviliðsstjóra fyrrihluta ársins. Eldvarnafulltrúar leikskólans yfirfara gátlista mánaðarlega og unnið er markvisst að því að auka fræðslu og gæta atriða sem snerta brunavarnir. Sjálfvirkt öryggisviðvörunarkerfi var sett upp í leikskólanum fyrir nokkrum árum.

- Tónlistarskólinn þurfti að gera ýmsar ráðstafanir í viðburðum og kennslu á árinu. Kennarar voru vel undirbúnir til að takast á við fjarkennslu í faraldrinum, þegar takmarkanir skullu á. 

Foreldravika var í september og voru foreldrar og forráðamenn duglegir að koma með börnunum í tíma. Þar fræddust þau um það hvað fer fram í tímum, hvernig hljóðfærið virkar og fengu ábendingar um heimanám. 

Kennarar hafa farið með nemendum í Sögumiðstöðina nú í haust í "Molakaffi og meðlæti" þar sem nemendur spila og syngja fyrir eldri borgara. Framtakið hefur mælst vel fyrir og í bígerð er að nýta fleiri tækifæri til að spila opinberlega, eftir því sem aðstæður leyfa.  

Vortónleikar voru haldnir í beinu streymi frá skólanum sl. vor og tókust mjög vel. Í staðinn fyrir jólatónleika, sem ekki var hægt að halda, áttu nemendur og kennarar notalega jólastund í skólanum.

Í haust hefur staðið yfir undirbúningur að átaksverkefni til að fjölga nemendum í blástursnámi, fornámi fyrir nemendur í 2.-4. bekk, sem hefst nú í janúar 2022. 

      

  

SAMSTARF OG NÝIR STJÓRNENDUR

Á liðnu ári fengum við til liðs við okkur nýja og öfluga stjórnendur. 

Fyrri hluta ársins tók Grundarfjarðarbær þátt í mótun og samningsgerð með Stykkishólmsbæ, Helgafellssveit og Eyja- og Miklaholtshreppi um stofnun nýs umhverfis- og skipulagssviðs. Ráðnir voru sameiginlega skipulagsfulltrúi, Kristín Þorleifsdóttir, sem jafnframt er sviðsstjóri og tók til starfa í ágúst og byggingarfulltrúi, Fannar Þór Þorfinnsson, sem tók til starfa í október. Þau eru þau bæði búsett á svæðinu. Tveir aðstoðarmenn í samtals heilu starfi starfa með þeim; þau Þurí hjá Grundarfjarðarbæ og Sigurður Grétar í Stykkishólmi. Með nýju sviði og auknu samstarfi við nágrannasveitarfélögin ætlum við að nýta vel tækifæri til samlegðar og hagræðingar. Ætlunin er að styrkja enn frekar stjórnsýslu skipulags- og byggingarmála, umhverfisstarf sveitarfélaganna, utanumhald eigna og eigin framkvæmda og ekki síst þjónustu við íbúa á viðkomandi sviðum og aðgengi þeirra að upplýsingum.  

  

Nýr leikskólastjóri, Heiðdís Lind Kristinsdóttir, hóf störf í október. Hún fékk fljótlega ýmis þung verkefni í fangið, ekki síst vandasama stjórnun í gegnum tvær Covid-lokanir leikskólans, eins og ég hef áður komið inná. 

Bæjarstjórn gerði skipulagsbreytingar og stofnaði nýtt starf íþrótta- og tómstundafulltrúa. Ólafur Ólafsson var ráðinn og tók hann til starfa í lok nóvember. Með breytingunni vill bæjarstjórn leggja enn meiri áherslu á markvissan stuðning við íþróttir, lýðheilsu og tómstundir allra aldurshópa. 

Við fögnum nýju samstarfsfólki en um leið eru færðar þakkir til þeirra sem látið hafa af störfum, sumir eftir margra ára starf hjá bænum. 

GRUNDARFJARÐARHÖFN

- Framkvæmdir

Framkvæmdir héldu áfram við 130 metra lengingu Norðurgarðs og er þeim nú nánast lokið. Við lenginguna skapast viðlega fyrir skip með dýpi allt að 10-11 metrum á stórstraumsfjöru og um 4400 fermetra viðbót við athafnasvæðið á Norðurgarði. Aðstaðan er þegar farin að draga að höfninni nýja viðskiptavini; stærri og djúpristari skip, bæði skemmtiferðaskip og fiskiskip. 

      

   

Í upphafi árs lauk Borgarverk við tilboðsverk sitt við sjóvörn og rekstur stálþils, auk vinnu við fyrirstöðugarð og landfyllingu á hafnarsvæðinu austan Nesvegar og samhliða færslu ræsis. Borgarverk gekk frá námusvæðinu, en allt grjót í hafnargarðinn kemur úr Lambakróarholti, námu bæjarins sem er einungis í um 1 km fjarlægð frá höfninni, austanvert við þéttbýlið. Vatns- og raflagnir voru lagðar undir þekju. Almenna umhverfisþjónustan lauk við sitt tilboðsverk; að steypa þekju og rafmagns- og vatnshús, ganga frá kanttré, pollum, stigum og þybbum á garðinum, með undirverktökum. Bætt var við steyptum vegg á enda Norðurgarðs sem ákveðið var að setja upp til að auka skjól á enda garðsins. Sett voru upp tvö ný ljósamöstur og þessa dagana er verið að leggja lokahönd á heildarverkið, með frágangi rafmagns.

Hafnarstjórn er mjög ánægð með hvernig nýi garðurinn hefur reynst. Enn meira skjól og friður er í höfninni, einkum fyrir norðvestanátt.   

- Starfsemi og aflatölur

Ástæða er til að gleðjast yfir góðri framkvæmd og bættri hafnaraðstöðu, en ekki síður yfir ánægjulegri aukningu í löndunum fiskiskipa.

Á liðnu ári varð landaður ársafli 23.680 tonn og jókst um rúm 28% frá árinu 2020, þegar ársaflinn var alls 18.462 tonn. Árið 2019 var hann 16.067 tonn og árið 2018 var hann 13.700 tonn. Í nóvembermánuði einum var landað 3.637 tonnum samanborið við 1.339 tonn í nóvember 2020.  

Tekjur hafnarinnar voru áætlaðar samtals 94 millj. kr. árið 2021 en líklegt er að tekjur verði ekki undir 130 millj. kr. Tekjur ársins af skemmtiferðaskipum eru þar af rúmar 13 milljónir kr. en alls urðu komur skemmtiferðaskipa 31 í sumar. Var það nokkuð undir þeim skipakomum sem bókaðar voru, en við því var að búast vegna heimsfaraldurs. Útgjöld hafnarinnar voru áætluð rúmlega 58 millj. kr. og stefnir í að þau verði á áætlun. 

Á árinu tók Hafsteinn hafnarstjóri sæti sem varamaður í stjórn samtakanna Cruise Iceland, en stjórn og varastjórn funda reglulega um málefni skemmtiferðaskipahafna. 

Sjá hér vef Grundarfjarðarhafnar 

Sjá hér Facebook-síðu hafnarinnar

      

     

     

    

UMHVERFISFRAMKVÆMDIR, FEGRUN UMHVERFIS OG MANNVIRKI 

Við vorum einstaklega heppin með að Covid setti ekki ýkja mikið strik í reikninginn hvað varðar framkvæmdir hjá okkur á árinu.

- Gönguvænn Grundarfjörður 

Eitt umfangsmesta hönnunar- og framkvæmdaverkefni ársins, fyrir utan hafnargerðina, var fjölþætt verkefni sem við höfum gefið yfirskriftina “Gönguvænn Grundarfjörður” með vísun í markmið aðalskipulags. Með því verkefni er haldið áfram með endurbætur á götum og gatnakerfi, þegar umfangsmiklar malbikunarframkvæmdir fóru fram - en áherslan lögð á tímabært viðhald gangstétta og endurbætur á göngutengingum. Flestar götur bæjarins eru breiðar og því gefst í leiðinni gott tækifæri til að útbúa rýmri svæði fyrir gangandi og hjólandi, sem bæði eykur öryggi fólks og gerir auðveldara að þjónusta svæðin, t.d. moka snjó. Samhliða er bætt við "blágrænum svæðum", þ.e. gróðursvæðum sem taka við regnvatni. Hönnun gatna miðar við 30 km hámarkshraða. 

Breytingarnar byggja á skýrri sýn í Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039 um grænni og gönguvænni Grundarfjörð og eru markmið framkvæmdanna þríþætt: 

1. Að auka öryggi íbúa og vegfarenda, og horfa jafnframt á þarfir samfélagsins til lengri framtíðar við hönnun gatna og stíga 

2. Að gera bæjarumhverfið enn hlýlegra, m.a. með því að bæta í það gróðri 

3. Að gera græn svæði betur úr garði til að taka við regnvatni og létta álagi af holræsakerfi bæjarins 

Verkefnið mun taka nokkur ár, en helstu framkvæmdir ársins voru þessar, eins og fram kom í frétt á vef bæjarins í ágúst:   

  • Á Grundargötu verða í heild steyptir um 1750 m2 af nýrri gangstétt. Um er að ræða 3ja metra breiðan stíg að mestu, einkum sunnanmegin í götunni á tveimur köflum.  
  • Vegagerðin sér um framkvæmdir og viðhald á Grundargötu sem þjóðvegi í þéttbýli, á götuhlutanum og á lýsingu, en bærinn sér um gangstéttahlutann. Samhliða framkvæmdum bæjarins malbikaði Vegagerðin yfirlag allrar Grundargötu, frá rimlahliðinu við Hellnafell og austur fyrir Gröf II. Í tengslum við það voru fjarlægðar gangbrautarþveranir/hindranir, sem verða endurnýjaðar síðar og mögulega breytt eitthvað. Vegagerðin steypti nýjan kantstein á framkvæmdahluta bæjarins, þar sem gangstéttar voru/verða steyptar.
    Að ósk bæjarstjórnar endurnýjaði Vegagerðin jafnframt hluta lýsingar í götunni, frá Sæbóli/Fagurhólstúni, að Eyrarvegi. Lýsing er nú “miðbæjarlegri” og ekki eins “þjóðvegarleg”, með lægri ljósastaurum, lýsingu beggja vegna götunnar og var Led-lýsing sett upp, sem eykur hagkvæmni í viðhaldi og rekstri. 

       

  • Á Smiðjustíg var gangstétt fjarlægð og ný kantlaus stétt malbikuð samhliða nýju yfirlagi á götuna sjálfa. Gönguleið var víkkuð úr botni götunnar, en þarna er fjölfarin gönguleið til og frá grunnskóla og íþróttasvæði. 

  • Á miðhluta Borgarbrautar voru gangstéttar endurnýjaðar. Vestan megin í götunni var malbikaður 2,7 metra breiður gangstígur, sem jafnframt er hjólastígur, en á milli stígs og götu mun síðan koma gróðurbeð. Austan megin var malbikuð gangstétt um 1,5 metri á breidd og horn á gatnamótum við Hlíðarveg voru sömuleiðis endurbætt, en þar er einnig talsverð umferð að og frá grunnskóla og íþróttasvæði.

  • Á Hrannarstíg, frá Sögumiðstöð að Fellaskjóli, var gangstétt vestan megin í götunni endurnýjuð með um 3ja metra breiðum malbikuðum göngu- og hjólastíg. 

  • Í Sæbóli var fjarlægður hluti gangstéttar, sem var mjög illa farin, sunnan megin í götunni, frá Fjölbrautaskóla að samkomuhúsi. Ný gagnstétt, kantlaus, var malbikuð og er hún 1,5 m að breidd. Síðar verða aðrir hlutar gangstétta í götunni endurnýjaðir.

  • Við Dvalarheimilið Fellaskjól var nýr 2,4 m breiður göngustígur malbikaður frá inngangi austan megin að bílaplani við Grundarfjarðarkirkju. Ennfremur sá bærinn um að jarðvegsskipta og gera aksturshæfa aðkomu að vesturinngangi, að nýrri álmu Fellaskjóls, skv. beiðni stjórnar Fellaskjóls. 

  • Vegna efnisskorts í lok verks gat verktaki ekki lokið við yfirlögn malbiks á aðalaðkomu að Fellaskjóli, eins og til stóð, og eftir stóð líka smábútur í enda Smiðjustígs, sem reynt verður að ljúka við þegar fyrsta tækifæri gefst. 

Auk þessa verkefna voru steyptir kantsteinar í iðnaðarhverfinu inn við Kverná, þar sem malbikað var sumarið 2019. 

Samhliða þessum framkvæmdum lagði Míla hf. ljósleiðara í hluta Grundargötu og Hrannarstígs, til að þétta lagnanet sitt, en af hálfu bæjarins látum við Veitur, Mílu og álíka aðila alltaf vita af gatnaframkvæmdum sem ráðist er í.  

Mikilvægt er að taka fram að framkvæmdum á ofangreindum svæðum er ekki lokið. Á komandi vori fer fram frekari frágangur, með því að ganga frá jöðrum malbikaðra gangstétta á Hrannarstíg og Borgarbraut, bæta gangbrautir og merkingar, ganga frá gróðri og fleira.  

     

    

  

- Fráveitumál 

Stórt verkefni var að lengja útrás á hafnarsvæði, samhliða gerð landfyllingar á austanverðu Framnesi sem unnið var í tengslum við hafnarframkvæmdir.

Hluti af framkvæmdum í götum og gangstéttarsvæðum flokkast sömuleiðis undir veitumálefni, þar sem um blágrænar ofanvatnslausnir er að ræða. 

Grundarfjarðarbær fékk 30% styrk til ofangreindra fráveituframkvæmda á árinu, úr sérstöku átaksverkefni ríkisstjórnarinnar og styrkveitingum til fráveituframkvæmda

  

- Þríhyrningurinn 

Fram fóru framkvæmdir við uppbyggingu fjölskyldu- og útivistarsvæðis í Þríhyrningi. Eins og með svo margt annað þessa mánuðina, tók lengri tíma en til stóð að fá afhent leiktæki sem pöntuð höfðu verið. Þrjú leiktæki voru keypt og sett niður síðla árs, sjá frétt hér. Hægt gekk að fá verkinu lokið, enda hefur verið einstaklega mikið að gera hjá verktökum bæjarins nú í langan tíma., auk þess sem veðrið lék ekki við okkur á verktíma. Leiktækin hafa verið steypt niður og nú bíðum við eftir því að fá perlumöl flutta á svæðið, en hún er nýtt sem fallvörn í kringum leiktækin. Þess má geta anotum möl úr okkar umhverfi. Það er nýtt. Áður hefur leikvallaperla verið keypt að sunnan og flutt hingað.

Ormurinn er jarðvegsmön sem mótuð er úr afgangs jarðvegi og í “halanum” á honum verður steypt rör sem hægt verður að ganga í gegnum. Enn á eftir að móta betur og bæta jarðvegi í orminn og síðan þarf jarðvegurinn að síga og taka sig, áður en hægt er að setja á hann gras.

Í garðinum á einnig að hlaða fallegt eldstæði, en vegna persónulegra aðstæðna hjá hleðslumanni gat hann ekki hafið það verk í sumar eins og til stóð. Verkið er hins vegar farið af stað núna og næsta vor verður vonandi komið huggulegt eldstæði í garðinn. 

Þríhyrningurinn er "lífrænt leiksvæði" og heldur áfram að þróast og mótast eftir hugmyndum íbúa. Til stendur að bæta við gróðri sem er aðlaðandi fyrir börn, m.a. tré og runna sem laða til sín fugla.

Vilji er til þess að uppbygging í Þríhyrningi verði samfélagslegt verkefni, þar sem félagasamtök, hópar og einstaklingar geti lagt sitt af mörkum til einstakra verkþátta, hvort sem það er gróðursetning, bekkir, trjáklippingar eða önnur þörf handtök.  

    

- Viðhald fasteigna 

Meðal viðhaldsverkefna ársins eru múrviðgerðir sem héldu áfram utanhúss á húsnæði grunnskóla. Skipt var um gólfdúk að hluta til í grunnskóla, dúkur m.a. lagður á hornstofuna sem tekin var í gegn í fyrra og nýtt er fyrir heilsdagsskóla. Í haust var pantaður felliveggur til að skipta upp tveimur samliggjandi skólastofum á neðri hæð í austurbyggingu. Verður hann settur upp á árinu 2022. Gluggaskipti voru á dagskrá í grunnskóla og var samið um mælingu, gluggakaup og ísetningu í einum pakka. Afhending glugganna dróst langt fram á haustið og þegar til kom gekk ísetning þeirra ekki sem skyldi og er ekki að fullu lokið. 

Í leikskólanum var unnið að ýmiss konar viðhaldi innanhúss og utan. Í sumarlokun leikskólans var unnið að því að drena enn betur í lóðinni, sérstaklega við sandkassa, og gera minniháttar lagfæringar. Gert var við leiktæki og nýja garðgeymslan var máluð. Leitað var tilboða í að skipta um net í girðingunni, en engin tilboð bárust í það verk. 

Keypt var yfirbreiðsla á vaðlaug í sundlauginni og veturinn 2020-2021 var gerð tilraun til að halda sundlauginni opinni og vatnið í henni ekki látið frjósa. Hægt var því að taka dýfu í því sem við teljum "stærsta kalda pott" landsins!

Sinnt var reglubundnu viðhaldi á íbúðum eldri borgara við Hrannarstíg 18 og 28-40. Þegar þær íbúðir eru innleystar er ráðist í þær endurbætur sem þörf er orðin fyrir. Endurnýjun baðherbergja í eldri íbúðunum, Hrannarstíg 18, hefur verið algengust, auk málunar og viðhalds gólfefna, eftir atvikum. 

Íbúð bæjarins í fjórbýlishúsi að Grundargötu 65 var seld á árinu, en hún hafði verið á sölu síðan 2020. 

Í sumar var tekinn góður skurkur í léttum en mikilvægum viðhaldsverkefnum á fasteignum bæjarins. Ráðnir voru aukastarfsmenn sem sinntu ýmsum verkum sem falla undir eignaumsjón. Málaðir voru gluggar, tréverk, girðingar og fleira. 

      

      

  

- Úttekt á ástandi íþróttahússins 

Bæjarstjórn fékk Eflu, verkfræðistofu, til að gera úttekt á ástandi íþróttahúss og setja fram tillögur um hvernig best sé að standa að viðhaldi utanhúss. Skýrslan er mjög gagnleg og var tekin fyrir í bæjarráði í haust sem leið og höfð til hliðsjónar við gerð fjárhagsáætlunar ársins 2022. Ætlunin er að klæða húsið og skipta um glugga í nokkrum áföngum, en kostnaður við heildarverkið er umtalsverður. 

- Vatnstjón í grunnskóla og samkomuhúsi

Ekki er hægt að fara í gegnum framkvæmdir ársins án þess að minnast á tvö stór vatnstjón sem urðu í júlímánuði, fyrst í grunnskólanum og síðan í samkomuhúsinu. Bæði tjónin voru veruleg og sköpuðu okkur mikla vinnu og fyrirhöfn, auk þess sem ætla má eitthvert tekjutap þar sem ekki var hægt að nota samkomuhúsið á meðan. 

Mikið var í húfi að hefja skólastarf í grunnskólanum á réttum tíma í ágúst og tókst það, um 5-6 vikum eftir tjón. Starfsmenn bæjarins eiga þakkir skildar fyrir sitt framlag og fyrir vinnu til að þetta hefðist. Miklar endurbætur fóru fram á hluta af veggjum, innréttingum og gólfdúkum í grunnskóla og nýtti bærinn tækifærið og gerði ýmsar endurbætur samhliða tjónsviðgerðum. 

Í samkomuhúsinu þurfti að skipta alfarið um parket í samkomusalnum, teppi á efri sal og dúk í eldhúsi og baksviðs. Við nutum aðstoðar Lions-félaga, sem hreinsuðu út úr húsinu teppi, innréttingar og fleira, á mettíma. Frekari endurbætur standa yfir, einkum á tækjum og innréttingum í eldhúsi og í rýminu baksviðs. Rætt var við fulltrúa Kvenfélagsins Gleym-mér-ei um endurnýjun sem gerð verður á skápum fyrir leirtau. 

Tryggingarfélaginu okkar, VÍS, vil ég hrósa fyrir sérlega góð vinnubrögð. Bæði fyrir viðbrögð verktaka á þeirra vegum við að þurrka upp í húsunum og forða þannig frekara tjóni og fyrir aðra afgreiðslu og stuðning í gegnum þessi skakkaföll. Verktakar á vegum tryggingarfélagsins stóðu sig sömuleiðis sérstaklega vel í sínum verkþáttum. Slökkviliðið á einnig hrós skilið fyrir vasklega framgöngu strax í kjölfar tjóns, við vatnslosun í húsunum.

    

  

- Skipulags- og byggingarmál

Í lok árs 2020 lauk bæjarstjórn við afgreiðslu aðalskipulags Grundarfjarðarbæjar 2019-2039 og í byrjun ársins 2021 var aðalskipulagsáætlunin staðfest af Skipulagsstofnun. 

Unnið hefur verið að því að auka lóðaframboð með deiliskipulagsvinnu við Ölkelduveg og samtali við stjórn Fellaskjóls um mögulegar lóðir fyrir 60+ vestast í stórri eignarlóð heimilisins. Þessar breytingar á deiliskipulagi Ölkeldudals verða auglýstar á næstu vikum. 

Í árslok eru í byggingu tvö einbýlishús, níu íbúðir við Grundargötu 12-14 og eitt atvinnuhúsnæði, þ.e. netaverkstæði við Nesveg 4a, auk endurbótaverkefna á eldri húsum. Úthlutað hefur verið lóðum undir fimm raðhús við Ölkelduveg, sem eiga að fara í byggingu með vorinu, samkvæmt upplýsingum lóðarhafa. 

Á Skipulagsdeginum 12. nóvember var undirrituð með erindi um átaksverkefni bæjarstjórnar um Gönguvænan Grundarfjörð, sjá hér

- Endurskipulagning, gögn og upplýsingar á sviði skipulags- og umhverfismála

Í tengslum við hið nýja umhverfis- og skipulagssvið er framundan frekari vinna við að efla og samræma kortagrunna í sveitarfélögunum fjórum í því skyni að bæta aðgengi að gögnum fyrir íbúa og starfsfólk sviðsins og auðvelda margvíslega vinnu.  

Á árinu endurbætti Grundarfjarðarbær enn frekar vefsjá sína með ýmsum hætti. Á vefsjánni fá íbúar beinan aðgang að ýmsum gögnum, s.s. teikningum að húsum og öðrum mannvirkjum, ýmsum mörkum, lögnum og línum og gildandi skipulagsáætlunum. Á árinu fékk bærinn tilboð í loftmyndatöku og tók VSB, verkfræðistofa, nákvæmar loftmyndir með dróna af öllu þéttbýlinu í ágúst sl. Nýju loftmyndirnar hafa verið felldar inní vefsjá bæjarins og sýna mun meiri skerpu þegar vefsjáin er skoðuð. Myndirnar eiga þó einkum að nýtast í tengslum við framkvæmdir, skipulagsverkefni og hönnun.  

- Efnistökumál og námur sveitarfélagsins  

Á árinu fór bæjarstjórn vel yfir efnistökumál sveitarfélagsins. Fyrir fund bæjarstjórnar í janúar 2021 var lögð samantekt um efnistökumálin, en bæjarstjórn hafði á árinu 2020 falið skipulags- og byggingarfulltrúa að taka saman upplýsingar um efnisnámur og efnistökumál sveitarfélagsins. Skoðuð var staða efnisnáms almennt í sveitarfélaginu, staða efnistöku í námum bæjarins í Lambakróarholti og í Hrafnsá og reynt að leggja mat á efnisþörf til næstu ára og áratuga. Námur og nýtilegt grjót eru gríðarleg verðmæti og mikilvæg fyrir alla þróun og uppbyggingu. 

Unnin var efnistökuáætlun og aflað framkvæmdaleyfis fyrir efnistöku úr Hrafnsá í Kolgrafafirði, en þar hefur mikill framburður Hrafnsár skapað ákveðin vandamál og jafnvel ógn við skotsvæðið á Hrafnkelsstaðabotni og brúna yfir Hrafnsá. Bæjarstjórn stefnir að því á næstunni að brjóta efni á svæðinu til reynslu og taka síðan til nýtingar, þannig að framburðurinn ógni ekki mannvirkjum á svæðinu.   

Hafnarstjórn ræddi sömuleiðis efnistökumál á fundi í mars og samþykkti að byrja að undirbúa ferli við að fá leyfi til efnistöku á hafsbotni. Magn samkvæmt gildandi leyfi til efnistöku á hafsbotni á Grundarfirði er að verða uppurið og frekari efnistaka krefst nýrra leyfa. Það er tímafrekt ferli og betra að huga tímanlega að því, áður en að næstu framkvæmdum kemur. Miklir langtímahagsmunir eru af því að efnistökumál séu í lagi. 

- Borgarbraut 21, gamla aðveitustöðin

Í maí samdi undirrituð við RARIK og Landsnet um að fá að nýta aðstöðu á lóð gömlu aðveitustöðvarinnar við Borgarbraut 21 fyrir matjurtaræktun og smíðavöll. Á lóðinni var áður spennivirki sem þjónaði háspennustreng milli Grundarfjarðar og Ólafsvíkur en var aflagt með tilkomu nýrrar aðveitustöðvar austur undir Kverná og með því að háspennulínan var lögð í jörðu.

Í júlí og ágúst varð Grundarfjarðarbær síðan eigandi að húsinu, með lóð og girðingu, eftir að RARIK og Landsnet afsöluðu Grundarfjarðarbæ eignarhlutum sínum í húsinu. 

Sumarið varð heldur blautara en í meðallagi og matjurtaræktun fór hægt af stað. Reynt verður aftur á komandi vori. Þrátt fyrir mikla leit tókst heldur ekki að finna starfsfólk til að sjá um smíðavöll fyrir krakka eða "byggingarfulltrúa barnanna" og bíður það því líka komandi vors að reyna aftur. 

Það felast ýmis tækifæri í því að eiga gamla aðveitustöðvarhúsið til notkunar og mun bæjarráð taka ákvörðun um það á næstunni. 

    

 - Græn svæði og umhirða gróðurs 

Annað sumarið í röð nutum við aðstoðar Þórðar Runólfssonar garðyrkjufræðings, Ræktunarstöðinni Lágafelli, við ýmis garðyrkjustörf. Þórður sá alfarið um trjáklippingar, sem við lögðum mikla áherslu á að næðust allar í sumar. Hann sá um að velja og setja niður sumarblómin fyrir okkur, en við lögðum mikinn metnað í að blómin myndu þrífast og að skipt væri um veikustu blómin, þegar stóri sunnan hafði farið hörðum höndum um þau. Við höfum markvisst verið að bæta við blómakerjum í bæjarumhverfið.

Þórður sá jafnframt um að setja niður tré fyrir okkur, t.d. á svæði ofan við ærslabelginn, en haustið 2020 hafði áhaldahús undirbúið beð með því að setja skít og mold, til að leyfa beðunum að ryðja sig fyrir komandi vor. 

Sláttuverkefni voru næg í sumar og áhaldahúsið stýrir garðslætti sem sumarfólkið, sláttugengið okkar, sér að mestu leyti um. Samningur er áfram við Golfklúbbinn Vestarr, sem slær stærstu svæðin, þau sem eru véltæk fyrir stórar vélar. 

    

  

  

  

  

     

- Umhverfisvottun

Snæfellingar hlutu umhverfisvottun í þrettánda skiptið og framkvæmdaáætlun Snæfellsness 2021-2025 vegna umhverfisvottunar sveitarfélaganna fimm var birt. Áætlunin tekur m.a. mið af frammistöðu síðastliðinna ára og svæðisbundnum áhættuþáttum. Skjalið er eitt af því sem leggur grunninn að umhverfisvottunarverkefni Snæfellsness og er lýsing á helstu umhverfis- og samfélagstengdum verkefnum sveitarfélaganna næstu fimm ára. 

Meðal verkefna ársins voru strandhreinsun, vinna við loftslagsstefnu, aukin fræðsla um sorpmál o.fl. Unnin var skoðanakönnun meðal íbúa um umhverfi og samfélag á vegum umhverfisvottunarinnar og má lesa um niðurstöðurnar hér. Sveitarfélögin eru síðan hvert og eitt með fjölbreytt verkefni sem auka lífsgæði íbúa og gesta á Snæfellsnesi og bera hag umhverfisins að leiðarljósi. Þar má nefna orkuskipti, bætt aðgengi að áningarstöðum o.fl. 

- Önnur umhverfismál

Árlegt umhverfisrölt fór fram í maímánuði og var bæjarbúum boðið í göngu um fjögur hverfi bæjarins, auk þess sem fulltrúar skipulags- og umhverfisnefndar heimsóttu hesthúsahverfið. Til stóð að fara einnig í dreifbýlið en vegna "ástandsins" tókst ekki að finna hentugt tækifæri til þess. Eins og fyrri ár, er unnið úr þeim ábendingum sem fram koma í umhverfisröltinu og leitast við að bæta úr því sem hægt er án mikils tilkostnaðar. Önnur kostnaðarsamari atriði eru lögð fyrir bæjarráð/bæjarstjórn til úrlausnar við gerð komandi fjárhagsáætlunar. Þær ábendingar sem hafa verið mest áberandi í umhverfisrölti síðustu ára snúa að lélegum gangstéttum og göngutengingum, sem nú er einmitt verið að bæta úr. 

Í september fékk ég heimsókn frá þriðju bekkingum sem höfðu útbúið þrjár óskir um betra umhverfi. Vildu þau fleiri ruslatunnur í bæinn, fleiri tré og meiri gróðursetningu og góðan stíg út að hesthúsum, þannig að auðvelt væri að hjóla. Í stuttu máli má segja að öll þessi atriði séu annað hvort í framkvæmd eða undirbúningi; á árinu var gerður skurkur í að endurnýja ruslatunnur í bænum, enn frekari gróðursetning innanbæjar er í undirbúningi og búið var að vinna áætlun um endurbætta stíga út fyrir bæinn, sitt hvorum megin. Sú framkvæmd bíður fjármögnunar.

    

     

MENNINGARMÁL

- Bókasafnið, Bæringsstofa og ljósmyndasafn Bærings 

Framkvæmdir héldu áfram við endurbætur og uppbyggingu menningar- og samfélagsmiðstöðvar í Sögumiðstöðinni, en hér má lesa nánar um verkefnið. Breytingar eru gerðar á húsrými Sögumiðstöðvarinnar að Grundargötu 35 þannig að það nýtist á sem hagkvæmastan hátt fyrir fjölbreytta starfsemi. Stór breyting felst m.a. í því að betri aðstaða verður nú sköpuð fyrir margvíslegt menningar- og félagsstarf íbúanna. 

Bókasafnið fékk endurbætta aðstöðu og breytta og var starfsemin færð í afmarkaðra rými í húsinu. Heimsóknir í bókasöfn landsins hafa dregist verulega saman, ekki síst vegna vinsælda hljóð- og rafbóka. Í bókasafninu er einnig upplýsingagjöf fyrir ferðamenn en eins og ljóst er, þá hafa heimsóknir þeirra verið nokkuð skorpukenndar. 

Í október var boðið til opnunar Bæringsstofu eftir gagngerar endurbætur. Um er að ræða einn áfanga af fleirum í endurbótum í húsinu. 

    

    

Grundarfjarðarbær réðst í átak við skönnun og skráningu ljósmynda Bærings 2020-2021. Í byrjun maí 2021 kom Olga S. Aðalsteinsdóttir til starfa við að skanna ljósmyndir. Rúmlega 13.000 myndir og filmur eru nú komnar á öruggt og vinnsluhæft form, til viðbótar við 15.000 áður skannaðar myndir. Safnið er í heild sinni um 32.600 ljósmyndir, að ótöldum kvikmyndum Bærings. 

Í hverri viku, frá því um miðjan júlí, hefur "Sjöa vikunnar" verið birt á vef bæjarins - sjö myndir vikulega, úr skönnunarátakinu og einstaka sinnum aukaskammtur. Þeim myndum hefur verið afar vel tekið og eru þær mikið skoðaðar. 

Skönnunin heldur áfram og er ætlunin að finna ljósmyndunum stað til birtingar í Sarpi, sem er sýningakerfi safna á vefnum. Sunna Njálsdóttir forstöðumaður Bókasafns Grundarfjarðar vinnur nú að undirbúningi þess að ljósmyndasafnið fái aðgang að Sarpinum. 

Almenningur mun þá njóta aðgangs að þeim menningarverðmætum sem í safninu felast og á þeim grunni liggja fjölbreytt tækifæri til verðmætasköpunar.

- Hátíðir

Þjóðhátíðardagurinn 17. júní, hátíðin Á góðri stund í lok júlí og Rökkudagar, menningarhátíð Grundfirðinga í lok október, fóru fram með tilliti til samkomutakmarkana. Hér má sjá nokkrar myndir sem segja meira en mörg orð:

    

    

    

    

- Listaverkið Veðurhorfur

Sólrún Halldórsdóttir á heiðurinn að stórkostlegu listaverki á lóðinni við Hrannarstíg 18, rétt við kirkjutúnið, en verkið var vígt 4. júní, á sjómannadagshelgi. Frú Eliza Reid afhjúpaði verkið ásamt nöfnu sinni, Elísu Gunnarsdóttur tveggja ára, sem er frænka Sólrúnar og Pálínu Gísladóttur, móður Sólrúnar, en Pálína er elsti íbúi Grundarfjarðar. Verk Sólrúnar geymir 112 orð yfir vind, allt frá logni og upp í mannskaðaveður. Við vígsluna fékk verkið jafnframt nýtt nafn, Veðurhorfur, en listakonan hafði óskað eftir tillögum bæjarbúa og annarra áhugasamra, um nýtt og varanlegt nafn á verkið. Mikið fjölmenni var viðstatt ánægjulega afhjúpunarathöfn og frú Eliza átti með okkur ánægjulega dagsstund í Grundarfirði þennan dag.  

Hér má lesa um verkið. 

    

- Annað menningartengt starf 

Ýmiss konar viðburðir og menningarstarf fór að öðru leyti fram sem of langt mál væri að telja upp.

Hér má sjá þjóðhátíðarkveðju við myndband sem að mestu byggir á upptöku frá skrúðgöngu á 17. júní 2020, söngur, texti, upptaka og frágangur er alfarið í höndum heimamanna. 

Verðlaun voru veitt í ljósmyndasamkeppni Grundarfjarðarbæjar þann 22. desember. Í fyrsta sæti var Þorsteinn Hjaltason með mynd af kirkjunni í bleikum litum, í öðru sæti var Olga Sædís Aðalsteinsdóttir með mynd sína af Kirkjufellinu í haustlitunum og í þriðja sæti var Helga María Jóhannesdóttir með mynd af sólsetrinu við ströndina.

Jólagluggarnir 24 er skemmtilegt "jóladagatal" og fallegt verkefni sem margir bæjarbúar taka þátt í og enn fleiri njóta. 

Heiðrún Oddsdóttir í 8. bekk Grunnskóla Grundarfjarðar fékk viðurkenningu fyrir Jólakortið 2021. 

Jólahús Grundarfjarðar voru tvö að þessu sinni; Grundargata 72 hjá Heiðdísi Lind Kristinsdóttur og Elvari Þór Gunnarssyni, og að Hlíðarvegi 25 hjá Friðsemd Ólafsdóttur og Gunnari Magnússyni.

Skólabókasafnið og Leshópurinn Köttur úti í mýri efndu til jólasögusamkeppni og veittu þremur börnum verðlaun fyrir skemmtilegar jólasögur.  

Börn ársins 2021 voru ellefu talsins og fengu þau sængurgjafir samfélagsins á Gamlársdag, en slíkar gjafir hafa verið færðar "börnum ársins" í Grundarfirði síðan 2006. 

Leyfum myndum að tala sínu máli. 

      

      

ÍÞRÓTTIR, LÝÐHEILSA OG FÉLAGSSTARF

- Félagsstarf eldri íbúa og annarra í Sögumiðstöð 

Í mars átti bæjarstjóri fund með öldungaráði og fulltrúum Félags eldri borgara í Grundarfirði og eldri borgara starfs RKÍ-deildarinnar. Fram kom að stefnt væri að því að félagsstarfið flyttist í Sögumiðstöðina og var mikill áhugi hjá fundarfólki á að efla það. 

Í maíbyrjun var Olga S. Aðalsteinsdóttir ráðin í hlutastarf við að halda utan um félagsstarf og vera tengiliður við eldri íbúana og þau félagasamtök sem að slíku starfi standa. 

Molakaffi á miðvikudögum er til dæmis "hittingur" sem fór af stað í júlí og óx því fiskur um hrygg eftir því sem leið á haustið og veturinn. Hér má m.a. sjá umfjöllun um starfsemina í þættinum Að vestan á N4 þann 3. desember.

Önnur starfsemi í húsinu er m.a. Vinahús Rauða krossins, Karlakaffi og handavinna eldri borgara.  

     

  

- Íþróttamálefni 

Íþróttamaður Grundarfjarðar 2021 var kjörinn og efnt til fámennrar athafnar á Gamlársdag þar sem veittar voru viðurkenningar þeim þremur afburða íþróttamönnum sem tilnefndir voru af íþróttafélögum í bænum. Harpa Dögg Bergmann Heiðarsdóttir er íþróttamaður Grundarfjarðar 2021, fyrir hestaíþróttir. Sjá frétt.

Lokið var við að setja niður þær frisbígolfkörfur sem eftir var að koma á sinn stað. Í lok ársins var skiltið líka komið upp, en á næsta ári verður gengið frá teigum, eða pöllum sem verða við hverja af hinum níu körfum. Frisbígolf nýtur mjög vaxandi vinsælda og ég skora á bæjarbúa og gesti að prófa. 

Starfsemi Heilsueflingar 60+ hélt áfram á árinu, en það er Félag eldri borgara í Grundarfirði sem er í forsvari, í samstarfi við Grundarfjarðarbæ og með liðsstyrk RKÍ-deildarinnar í Grundarfirði. Ágústa Einarsdóttir og Rut Rúnarsdóttir eru áfram þjálfarar hópsins. Í boði eru tímar tvisvar í viku í íþróttahúsi og tvisvar í viku í líkamsræktarstöð. 

Bæjarstjórn brást hratt við beiðni UMFG í lok árs 2020 um aðstoð við að útvega húsnæði undir nýja starfsemi rafíþrótta sem félagið fór af stað með á árinu 2021. Gerðar voru ráðstafanir og húsnæði að Borgarbraut 18 var lagt undir þá starfsemi. 

Á öðrum stað hér í þessum pistli er sagt frá ráðningu í nýtt starf íþrótta- og tómstundafulltrúa sem bæjarstjórn hefur sett á fót. 

Hér má sjá yfirlit yfir afþreyingu og útivist í Grundarfirði. 

     

    

      

  

SLÖKKVILIÐ OG ELDVARNIR

Rólegt var hjá slökkviliðinu á árinu og þannig við viljum við hafa það, a.m.k. þegar kemur að útköllum. Helstu útköllin voru vatnstjón ársins. Æfingar lágu niðri hluta árs, þegar samkomutakmarkanir voru hvað víðtækastar. 

Brunavarnaáætlun Slökkviliðs Grundarfjarðar var endurnýjuð á árinu og samþykkt af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun í byrjun desember. Það var slökkviliðsstjóri Valgeir Magnússon sem annaðist gerð nýrrar áætlunar, en hún er endurnýjuð á fimm ára fresti. 

"Eigið eldvarnaeftirlit" Grundarfjarðarbæjar er forvarnaverkefni sem Grundarfjarðarbær tekur þátt í með liðsinni VÍS. Það tekur til innri starfsemi og allra stofnana bæjarins og felst í að auka eldvarnir og fræðslu fyrir starfsfólk. Í hverri stofnun eru skipaðir sérstakir eldvarnafulltrúar, sem sinna léttu eftirlits- og hvatningarhlutverki innan stofnunarinnar, fara m.a. yfir gátlista mánaðarlega. 
Starfsfólk stofnana fær "skrifborðsæfingu" (brunavarnir) með slökkviliðsstjóra og aðstoðarslökkviliðsstjóra, unnið er markvisst að því að auka fræðslu allra starfsmanna og gæta atriða sem snerta brunavarnir. Sjálfvirk öryggisviðvörunarkerfi eru í öllum stærri stofnunum bæjarins og íbúðaeiningunni að Hrannarstíg 18.  

Á árinu voru eldvarnir bættar í 15 íbúðum í íbúðum eldri íbúa, að Hrannarstíg 18 og Hrannarstíg 28-40. Grundarfjarðarbær samdi þá við Starfsmannafélag Slökkviliðsins um að bæta við reykskynjurum og slökkvitækjum í íbúðirnar. 

Grundarfjarðarbær og Starfsmannafélag Slökkviliðs Grundarfjarðar buðu síðan Félagi eldri borgara í Grundarfirði til samstarfs um bættar eldvarnir og fór verkefnið af stað í desember sl. Verkefnið felst í því að Starfsmannafélagið býður eldri íbúum, 67 ára og eldri, að endurnýja reykskynjara á heimilum þeirra og eru nýir reykskynjarar gjöf frá Starfsmannafélaginu. Þeir verða settir upp íbúum að kostnaðarlausu og kostar Grundarfjarðarbær vinnu slökkviliðsmanns/-manna við að skipta út gömlum reykskynjurum fyrir nýja á heimilum eldri íbúanna í bænum. Grundarfjarðarbær og Slökkviliðið bjóða ennfremur uppá almenna eldvarnafræðslu og kennslu/yfirferð í notkun eldvarnartækja fyrir félagsmenn FEBG. 

HELSTU SAMSTARFSVERKEFNI MEÐ ÖÐRUM

Hér fyrr í pistlinum var sagt frá umhverfisvottun Snæfellsness sem við tökum þátt í með hinum sveitarfélögunum fjórum.   

- Svæðisgarðurinn Snæfellsnes

Á árinu vann Svæðisgarðurinn að nokkrum stórum verkefnum, mun stærri en áður hefur verið ráðist í. 

Svæðisgarðurinn fékk 15 millj. kr. fjárveitingu af fjárlögum Alþingis 2021 til að útfæra verkefni sín tengd sóknaráætlun/svæðisskipulagi Snæfellsness. Einnig fengust samtals um 20 millj. kr. til svæðismörkunar (branding) fyrir Snæfellsnes og fór sú vinna af stað á árinu. Um 10 millj. kr. styrkur fékkst til matarverkefnis úr Matarauði Íslands og fyrr á árinu var farið í skoðun á kostum þess að Snæfellsnes verði Unesco Biosphere svæði. 

 - Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla

Unnið var að undirbúningi nýrrar grunnsýningar Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla í Norska húsinu og tóku fulltrúar allra sveitarfélaga þátt í því. 

- Búsetukjarni fyrir fatlað fólk 

Í desember lauk framkvæmdum á vegum Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga (FSS) við byggingu búsetukjarna fyrir fatlað fólk við Ólafsbraut í Ólafsvík. Sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi standa að byggingunni, gegnum sameiginlegan rekstur á málefnum fatlaðra sem FSS sér um. Húsið var formlega vígt 14. desember 2021, en í því eru fimm íbúðir sem teknar verða í notkun fyrri hluta árs 2022. Engar slíkar íbúðir fyrir fólk með fötlun voru fyrir á Snæfellsnesi. 

 - Vesturland og meira 

Sveitarfélögin á Snæfellsnesi hafa staðið saman um ýmis mikilvæg hagsmunamál. M.a. hefur verið fundað árlega með stjórnendum Heilbrigðisstofnunar Vesturlands um þjónustu HVE. Rætt hefur verið um læknamál og aðra heilbrigðisþjónustu, sálfræðiþjónustu og þjónustu við eldri borgara. Samtalið hefur verið gagnlegt þó ekki séu sýnilegar breytingar út á við enn sem komið er. HVE og sveitarfélögin taka þátt í vinnu á grunni velferðarstefnu Vesturlands, þar sem m.a. er ætlunin að flétta betur saman þjónustu ríkis og sveitarfélaga. 

Lögð voru drög að sameiginlegri samgöngustefnu Vesturlands á vegum SSV á árinu og unnið var að nýrri Áfangastaðaáætlun Vesturlands, sem SSV og Markaðsstofan standa að. Endurskoðuð menningarstefna Vesturlands var sömuleiðis samþykkt á haustfundi SSV í október og af sveitarstjórnum á Vesturlandi í framhaldi af því. Vestlendingar tóku þátt í vinnu við grænbók ríkisstjórnarinnar um stöðu samgöngumála og vinnu við grænbók um stöðu fjarskiptamála. Undirrituð var með stutt erindi um stöðu fjarskiptamála á Vesturlandsfundinum í apríl og var með svipað innlegg á kynningarfundi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og Fjarskiptasjóðs í maí um einstakan árangur af landsátakinu Ísland ljóstengt á síðustu árum.  

FJARVARMAVEITA TIL SKOÐUNAR 

Veitur ohf. og bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar settu af stað skoðun á því hvort mögulegt sé að hitaveituvæða þéttbýlið með fjarvarmaveitu. Samstarfið, sem hófst í byrjun árs 2021, felst í forhönnun og fýsileikakönnun á hitaveituvæðingu bæjarins með varmadælum þar sem varminn yrði sóttur bæði úr umhverfinu og í glatvarma frá fyrirtækjum í Grundarfirði. Er það nýjung á Íslandi en vel þekkt í hringrásarhagkerfum erlendis. Verkefnið heldur áfram á nýju ári.

 

SAMEININGARMÁL

Bæjarstjórn bauð í september hinum fjórum sveitarfélögunum á Snæfellsnesi til óformlegs fundar um stöðuna í sameiningarmálum og framtíðarsýn í þeim efnum fyrir Snæfellsnes. Nágrannar okkar í Snæfellsbæ og Eyja- og Miklaholtshreppi hafa átt í viðræðum og stefna að kosningu um sameiningu í febrúar nk. Stykkishólmsbær og Helgafellssveit hófu viðræður síðla árs og stefna að kosningu um sameiningu í mars nk. Vegna Covid-smita varð ekki af fundinum þegar halda átti hann í lok október og fór hann fram 15. desember sl. Tilgangurinn var að heyra af þeim sameiningarviðræðum sem eru farnar af stað hjá nágrönnum okkar og hins vegar er þetta málefni sem þarf að ræða. Hér er nánar um þetta í frétt í Skessuhorni og á RÚV.

FJÁRMÁL OG ÝMIS ÖNNUR MÁL

Starf bæjarstjórnar litaðist talsvert af Covid-áskorunum, eins og geta má nærri. Meirihluti allra funda sem sveitarstjórnarfólk er vant að sækja fór fram á netinu. Ég held að ef eitthvað er, þá hafi fundum frekar fjölgað en fækkað - enda er fólk farið að sjá hve auðvelt það er að koma saman til samtals, með lítilli fyrirhöfn, á fjarfundi. Þannig hefur Samband íslenskra sveitarfélaga t.d. fjölgað fundum um ýmis málefni, sem mikið gagn hefur verið af því að taka þátt í. Bæjarstjórn, bæjarráð og fastanefndir héldu einhverja fundi sína sem fjarfundi þegar aðstæður buðu ekki upp á annað. 

Almannavarnanefnd Vesturlands hélt marga fundi á árinu, aðallega vegna heimsfaraldurs og viðbragða við honum, en bæjarstjóri og slökkviliðsstjóri eiga sæti í nefndinni. Heima fyrir funduðum við líka mikið í tengslum við Covid-smitin, ég og skólastjórarnir áttum t.d. stutta en mjög gagnlega fundi með sóttvarnalæknum HVE og bæjarfulltrúar og ég áttum sömuleiðis upplýsandi en stutta fjarfundi um Covid-stöðuna þegar mest mæddi á. 

Ársreikningur 2020 var samþykktur í maí 2021. Afkoman var mun lakari en 2019 og Covid-ástand án efa að setja strik í reikninginn. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar, þ.e. A- og B-hluta bæjarsjóðs, 2020 var 6,8 millj. kr. samanborið við 83,3 millj. kr. árið 2019. Fjárhagsáætlun 2021 gerði ráð fyrir 40,3 millj. kr. neikvæðri rekstrarniðurstöðu samstæðunnar, en það sýnist þó stefna í jákvæða rekstrarniðurstöðu ársins. Fjárfestingar ársins 2021 voru áætlaðar 153,5 millj. kr., en verða nokkru minni. Lántökur voru áætlaðar 190 millj. kr. en verða umtalsvert minni. 

Bæjarstjórn ályktaði í september um störf án staðsetningar og taldi "mikilvægt að ríkisstofnanir og ráðuneyti fylgi af einurð þeim áformum í samstarfssáttmála ríkisstjórnar og gildandi Byggðaáætlun, að 10% starfa á vegum ríkisins verði auglýst án staðsetningar í síðasta lagi árið 2024. Mikilvæg forsenda sé að skráning og utanumhald sé með þeim hætti að hægt sé að mæla og meta hvort markmiðin náist." 

Bærinn stóð að átaksverkefni fyrir námsmenn í sumar, eins og í fyrra, með stuðningi Vinnumálastofnunar og tók einnig þátt í ráðningarátaki Vinnumálastofnunar. 

Eins og ég sagði í upphafi pistilsins, þá hefur bæjarstjórn borið gæfu til að eiga gott samstarf og standa saman um mikilvæg málefni og hagsmuni. Aðstæður í gegnum Covid-tímann eru að mörgu leyti án fordæma og tekjur bæjarins hafa sömuleiðis liðið fyrir erfitt ástand. Bæjarráð hefur reglulega fylgst með þróun útsvarstekna sveitarfélagsins og ályktað um útsvarið.

Annars vegar er það alveg ljóst að tekjur sveitarfélaga eins og okkar eru óviðunandi miðað við þau verkefni sem okkur eru falin. Brýnt er orðið að endurskoða tekjustofna og verkefni sveitarfélaga. Bæjarfulltrúar og bæjarstjóri hafa komið því sjónarmiði á framfæri við fulltrúa ríkisvaldsins og viðrað þau sjónarmið opinberlega. 

Hinsvegar er það vandamál sem ætti að vera hægt að leysa, að upplýsingar sem sveitarfélög fá um útsvarstekjur sínar eru óskýrar og allsendis ófullnægjandi. 

Eftirfarandi er hluti af einni ályktun bæjarráðs um útsvarið og upplýsingagjöf til sveitarfélaga um það:

Bæjarráð og bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar hafa gagnrýnt laka upplýsingagjöf af hálfu ríkisins til sveitarfélaga um útsvarið og hafa í þó nokkurn tíma kallað eftir haldbetri upplýsingum, m.a. um uppruna útsvars og skiptingu eftir atvinnugreinum. Þegar miklar sviptingar eru í efnahagsmálum þjóðarinnar og óvissa mikil, eins og allt síðasta ár vegna áhrifa Covid, þá er það sérlega bagalegt hve litla innsýn sveitarfélögin hafa í eðli og uppruna útsvarstekna sinna. Það er að auki allsendis óviðunandi að sveitarfélög þurfi að byggja fjárhagsstjórn sína á misvísandi upplýsingum um megintekjustofn sinn.

Hér má lesa um bókanir bæjarráðs og bæjarstjórnar um útsvarið 2021.

Undirrituð hefur m.a. tekið þátt í því f.h. bæjarins, með fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, að funda með ríkisskattstjóra og fulltrúum fjármálaráðuneytisins og hagstofunnar, um beiðni sveitarfélaga til Skattsins um haldbetri upplýsingar um útsvarstekjur. Við teljum að nokkuð hafi þokast, m.a. vegna gagnrýni og óska bæjarráðs/bæjarstjórnar okkar. Þessi mál hafa m.a. verið rædd á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga á þessu kjörtímabili. 

Ég hef í rúm 3 ár setið í starfshópi skipuðum af samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem falið var það hlutverk að gera tillögur til ráðherra um endurskoðun á lagaákvæðum um fjármál sveitarfélaga. Hópurinn hefur verið nálægt skilum í dálítinn tíma núna, en ekki er full samstaða um niðurstöður meðal fulltrúa ráðherra og fulltrúa sveitarfélaganna. Ég sit í hópnum sem einn af þremur fulltrúum Sambandsins. 

Í tímaritinu Sveitarstjórnarmál í október sl. var viðtal við mig þar sem ég ræddi einmitt um tekjur og tekjustofna sveitarfélaga, en einnig málefni Grundarfjarðarbæjar og fleira. 

                                      

--- 

Ég endurtek að lokum þakkir fyrir samstarf og samfylgd á liðnu ári. 
Megi nýtt ár 2022 verða okkur gjöfult og gleðiríkt. 
Hér er að lokum falleg áramótakveðja frá Grundarfjarðarbæ 2021-2022.  

Grundarfirði, 6. janúar 2022, 

Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri 

 

(Styttri útgáfa af þessum pistli birtist í Jökli, bæjarblaði 13. janúar 2022 - sjá slóð hér.)